Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Kolbrún Reinholdsdóttir
Kolbrún Reinholdsdóttir
rafmagnsverkfræðingur

Hver kýs eins og honum sýnist

Það er sólríkur maímorgun, það er laugardagur en enginn venjulegur laugardagur; það er nefnilega kosningadagur. Dóttir mín, tvítug, ljómar og segir við morgunverðarborðið: „Veistu mamma, þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ að kjósa!“ Já, ég hef alið dóttur mína vel upp! Lýðræði og það að fá að kjósa er ekki sjálfsagður hlutur, munum það.

Ég man sjálf hve stolt ég var þegar ég fékk að kjósa í fyrsta sinni; það voru alþingiskosningar, ég fór á kjörstað með foreldrum mínum og þetta var hátíðleg stund. Ég hef ætíð síðan nýtt minn kosningarétt, líka þegar ég bjó erlendis og kaus utan kjörstaðar í sendiráðinu. Mér finnst það vera skylda hvers og eins að nota sitt atkvæði, við kjörkassann erum við öll jöfn, allir hafa eitt atkvæði, sama hvort þeir eru „Jón“ eða „Séra Jón“. Að skila auðu er það sama og segja pass... það sendir engin skilaboð.

Amma mín var mikil sjálfstæðiskona, var í Hvöt og hafði skoðanir. Í síðasta sinn sem hún kaus, fór ég með henni í Melaskólann til að kjósa; hún var í sparifötunum og búin að mála sig. Við förum saman inn í skólastofuna sem nýttist sem kjörstaður og hún fer inn í kjörklefann ein, hún var að nálgast nírætt á þessum tíma og sá orðið illa. Eftir smástund kallar hún fram: „Kolla, var það ekki örugglega D?“ Það panikkuðu allir á svæðinu og inn til hennar fór starfsmaður og aðstoðaði hana við þetta. Ég ákvað þá að ég ætlaði að vera eins og amma, mæta á kjörstað og skila mínu atkvæði sama hvað.

Á mínu heimili er kosningadagur hátíðisdagur, fjölskyldan klæðir sig í skárri fötin og fer saman á kjörstað, líka litla skottan sem ekki er komin með kosningarétt, en hún fer með og bíður frammi á meðan restin af fjölskyldunni fer og notar atkvæði sitt.

Vikurnar fyrir kosningadag hefur fjölskyldan setið við kvöldverðarborðið og rætt málefni líðandi stundar; það eru að koma kosningar og allir hafa skoðanir á þeim mönnum og málefnum sem ber á góma. Við eigum öll okkar atkvæði og á mínu heimili fengu 3 mismunandi flokkar atkvæði. Hver kýs eins og hann telur réttast, eða kýs þann flokk sem hann telur að muni sinna sínum málum best. Eins og við vitum þá eru takmarkaðir fjármunir til ráðstöfunar og kosningar snúast um að forgangsraða því hvernig kökunni er skipt.

Fyrir hundrað árum var það aðeins heimilisfaðirinn sem fékk að kjósa og „auðvitað“ höfðu eiginkonurnar og dæturnar sömu skoðun og hann, hann kaus það sem vera best fyrir fjölskylduna, en konurnar voru taldar of tilfinninganæmar til að geta tekið sjálfstæða ákvörðun. Rök sem notuð voru gegn því að konur fengju kosningarétt eða gengdu embættum voru þau að aðalhlutverk kvenna væru að ala og ala upp börn: „Þetta stórvirki hefur á konum hvílt alt til þessa og þetta afrek hafa þær af hendi leyst. Ef konan færi nú að vasast í mörgu öðru, er hætt við, að barnauppeldið sæti á hakanum hjá henni. Og óhollar afleðingar af því eru hverjum manni auðsæjar.“ (Dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður)

Sem betur fer eru breyttir tímar og konur eru líka menn!

En hvað er jafnrétti? Í þessum pistli mínum hef ég vakið athygli á því hvað það þykir sjálfsagt að allir hafi kosningarétt óháð kyni, en baráttunni fyrir jafnrétti er ekki nærri lokið.