Nú eru 100 ár liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt til Alþingis. Fyrir einstakling eins og mig, sem ólst upp við allt önnur viðhorf til kosningaréttar, er hér um að ræða stóran áfanga sem ber að fagna, sérstaklega í ljósi þess að kosningaréttur kvenna er í sumum löndum enn goðsögn, og í öðrum er kosningaréttur þeirra takmarkaður og þýðir réttur kvenna til að kjósa ekki endilega réttur til að hafa kjörgengi. Samanborið við Ísland fengu konur á Jamaíku, upprunalandi mínu, verulega takmarkaðan kosningarétt árið 1919. Konur fengu síðan almennan kosningarétt 1944 og hafa þær jafnframt setið á þingi allt frá þeim tíma.
Ég flutti til Íslands aðeins 18 ára gömul og fékk fyrst tækifæri til að nýta kosningarétt minn hér á landi í alþingiskosningunum árið 2007. Síðan þá hef ég alltaf kosið og hef enn ekki séð ástæðu til að gera það ekki. Eflaust hef ég jákvæðari viðhorf nú til kosningaréttar og kosninga almennt, viðhorfið hefur breyst eftir komu mína til landsins. Sennilega stjórnaði umhverfi mitt sem og ungur aldur viðhorfum mínum, en á Jamaíku trúa sumar konur því að með því að kjósa ekki komi þær í veg fyrir að spilltir stjórnmálamenn nái kosningu. Vantraust kvenna á stjórnmálamönnum sem og á kosningum almennt, kemur í veg fyrir að konur geri sér grein fyrir mikilvægi kosningaréttar í lýðræðisríki. Vanþekking sumra kvenna á mætti kosningaréttar hefur ekki síst áhrif á að jafnréttisbaráttan þar í landi er skemmra á veg komin í samanburði við Ísland.
Margt jákvætt hefur gerst í sögu Íslands frá því að konur fengu kosningarétt til Alþingis árið 1915 og má segja að hann hafi markað ákveðin tímamót í jafnréttisbaráttunni. Hlutfall kvenna á Alþingi hefur verið breytilegt en nú sitja 26 konur (41,3%) á Alþingi á móti 37 körlum eftir síðustu alþingiskosningar árið 2013. Eflaust hefur þátttaka kvenna í íslensku stjórnmálalífi haft áhrif á lagasetningu sem og stefnumótun stjórnvalda, hún hefur án efa aukið rétt kvenna, auk þess að hafa áhrif á áframhaldandi baráttu fyrir jafnrétti kynjanna. Hlutfall kvenna á þingi á Jamaíku hefur ekki breyst síðan 1997. Það markaði samt sem áður söguleg tímamót í jafnréttisbaráttu kvenna á Jamaíku að kona var í fyrsta skipti kjörin forsætisráðherra árið 2012 og er hún sitjandi forsætisráðherra landsins. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að fjöldi hindrana stendur í vegi þeirra kvenna sem vilja ná kjöri á þing á Jamaíku og er réttindum kvenna almennt að mörgu leyti ábótavant.
Sem kona af erlendum uppruna sem dvalið hefur hér á landi sl. 13 ár trúi ég því að atkvæði mitt skipti máli og þá sérstaklega í jafnréttisbaráttu minnihlutahópa. Það er mér mikill heiður að hafa kosningarétt og ekki síst að hafa fengið tækifæri til að nýta hann hér á landi. Markmiðið með því að nýta mér kosningaréttinn minn er að styðja almennt við jafnréttisbaráttu kvenna af erlendum uppruna, til dæmis með því að auka þátttöku þeirra í íslensku stjórnmálalífi og styðja rétt þeirra til að fá menntun frá heimalandi sínu viðurkennda og auka þar með líkur á að þær fái atvinnu við hæfi. Af þeim sökum vanda ég valið í hvert skipti sem ég kýs.
Ég trúi því að til að lýðræði virki eins og við viljum að það virki, geti einstaklingur ekki einungis verið áhorfandi, heldur verði hann að vera virkur þátttakandi. Taki upplýstur einstaklingur þá ákvörðun að kjósa ekki, hefur sá hinn sami að mínu mati ekki rétt til að kvarta, enda hefur hann þá framselt réttindi sín fyrirvaralaust til annarra kjósenda.
Því má þó alls ekki gleyma að í kosningarétti felst einnig rétturinn til að kjósa ekki. Þótt kosningarétturinn megi aldrei vera skylda, er engu að síður nauðsynlegt að minna á þær konur sem enn eru að berjast fyrir kosningarétti sínum og ekki síst að minnast hinnar löngu, hörðu baráttu sem tryggði konum kosningarétt hér á landi.
Þess vegna vona ég að þegar konur, íslenskar sem aðfluttar, taka ákvörðun um að sitja hjá og kjósa ekki, þá sé slík ákvörðun tekin eftir mjög vandlega íhugun.