Að geta kosið er svipað og að geta hallað sér niður að næsta læk og fengið sér sopa af tæru lindarvatni.
Á Íslandi. Fyrir mér. Sjálfsagt.
Ég ólst upp á mjög venjulegu íslensku sveitaheimili, sem var eflaust í huga einhvers óvenjulegt í alla staði. Við geymdum saltkjöt í tunnu úti á tröppum og gripum í skástu bitana þegar stutt var í mánaðamót og lítið sem ekkert eftir í ísskápnum. Hamborgarar til hátíðarbrigða voru mótaðir úr hakki og borðaðir milli tveggja samlokubrauðsneiða. Gos fékkst á jólum og afmælum. Kex sömuleiðis. Samt var þetta nú bara í kringum 1990.
Á heimilinu var mjög skýr verkaskipting sem stjórnaðist ekki af því hver vann verkið heldur hvaða verk þurfti að vinna. Pabbi eldaði stundum, mamma stundum. Mamma saumaði fötin á okkur, pabbi smíðaði lítil skip á lækinn. Pabbi straujaði og mamma fann spotta í skipin svo að við töpuðum þeim ekki. Mamma las sögur, líka pabbi. Þau keyrði bæði og ef sprakk á bílnum skipti bílstjórinn um dekk. Hvort sem það var mamma eða pabbi. Ég og bræður mínir tveir lékum okkur saman eftir skóla og fram að háttatíma. Við fórum í búðarleiki, bökuðum drullukökur og smökkuðum þær jafnvel. Klifruðum í klettum og stálumst upp á fjall. Við gerðumst verkamenn og byggðum stíflu í læknum. Veiddum fiska. Okkur var kennt að drepa þá og gera að þeim eftir að við höfðum dregið þá á land. Lærðum þannig um hringrás lífsins. Lömbin voru sæt og heimalingarnir vinir okkar. En þau voru jafnframt matur. Við lærðum að lífið getur virst ósanngjarnt, að slysin gera ekki boð á undan sér og að alltaf, sama hvað, ættum við að vera trú sjálfum okkur. Það mikilvægasta var þó að við lærðum að ef okkur langaði í eitthvað urðum við að vinna fyrir því. Hvort sem það var nýtt dót, tónlistarnám, íþróttir, skóli eða seinna meir atvinna. Ekkert fékkst án þess að þú legðir þig fram, sæktist eftir því og stæðir þig vel.
Það var veganestið sem ég fór með út í lífið. Ég byrjaði í björgunarsveit og lagði mig að sjálfsögðu alla fram í það líkt og uppeldið bauð mér. Sótti námskeið og einsetti mér að standa mig vel. Fór að hreyfa mig meira til að vera í betra formi, því björgunarsveitarmaður er lítils virði ef hann getur varla bjargað sér sjálfur. Sat í stjórn í minni björgunarsveit í tvö ár og reyndi hvað ég gat að leggja mitt af mörkum, gefa eitthvað til baka af þeim tíma sem aðrir höfðu gefið mér þegar ég var að byrja.
Eftir fjögurra mánaða heimsreisu ein á báti veturinn 2014 skildi ég loksins að einhverju leiti hversu heppin ég er. Ég og þið hin sem tilheyrum þessum 330.000 hræðum sem virðast hafa unnið í lífslottóinu. Ég get valið hvað ég vil læra, eina skilyrðið er að ég standi mig í náminu. Ég get valið mér maka, þess vegna af sama kyni ef mér snérist svo hugur. Ég get unnið við það sem mér þykir skemmtilegt og ég get sagt upp vinnunni minni og fundið mér aðra ef mér hættir að finnast hún skemmtileg. Ég hef val, ég hef möguleika og ég hef sjálf mest um það að segja hvaða stefnu líf mitt tekur.
Konum á Íslandi eru allir vegir færir. Ég get lagt á brattann.
Það eina sem ég þarf að gera er að leggja mig eftir því sem ég vil og standa mig.