Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Guðrún Pétursdóttir
Guðrún Pétursdóttir
framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða

Ástæða til að vera á varðbergi

Það er hollt að leiða hugann að því hvað stutt er síðan konur fengu þann rétt sem okkur finnst svo sjálfsagður í dag, réttinn til að kjósa. Það er líka hollt að minnast þess hvernig klipið var af kosningaréttinum í meðförum þingsins þá og hvernig því var tekið eins og hverju öðru hundsbiti. Það kennir okkur eitthvað um hvernig breytingar gerast í samfélögum. Hvað þær verða oft með brokkgengum, órökréttum og óskilvirkum hætti.  Samfélög geta þróast í  átt til meiri siðmenningar, jafnræðis og réttætis – en þau geta svo sannarlega líka runnið afturábak niður brekkuna. Við erum aldrei óhult. Í dag eru óhugnanlegar blikur á lofti í Evrópu, innan seilingar frá okkur hér.  Þar láta nú á sér kræla hreyfingar sem full ástæða er til að vara við.

Þær minna á Veröld sem var eftir austurríska rithöfundinn Stephan Zweig,  sem horfði skelfingu lostinn á siðmenninguna fuðra upp í aðdraganda síðari heimstyrjaldarinnar,  og reyndar að því marki að hann gat ekki afborið það og stytti sér aldur.  Zweig skrifar um það hvernig borgararnir í Vín umbáru ungu nasistana þegar þeir stormuðu háværir inn á kaffihúsin þar sem holdgervingar siðmenningarinnar drukku heitt súkkulaði og borðuðu Sachertert,  og ef þeim ofbuðu lætin, þá stóðu þeir pent á fætur og gengu út, því þessir ungu háværu menn áttu rétt á sínum skoðunum. Eins þegar ofbeldisseggirnir mættu síðar með keðjur og brutu og brömluðu, þá stóðu menn þegjandi upp og gengu út. Loks kom að því að hávaðaseggirnir mættu heim til þeirra og smöluðu þeim út í trukk til tortímingar. Því þarna tókust á siðmenningin og fordæða ómenningarinnar – og það eru sumir hlutir og sumar hugmyndir sem verður að kæfa í fæðingu.

Manni finnst óskiljanlegt að atburðir seinni heimstyrjaldarinnar, og þar með hin brjálæðislegu grimmdarverk helfararinnar, hafi raunverulega átt sér stað rétt í næsta herbergi við okkur, og það nánast í gær. Nú eru 70 ár frá lokum heimstyrjaldarinnar, frá því að hliðum Auschwitz var upp lokið og skelfingin blasti við. Í vor var myndin Listi Schindlers sýnd í sjónvarpinu og þótt menn hafi margt við svona kvikmyndir að athuga, þá eru þær rosalega máttugar við að vekja fólk til umhugsunar og halda minningum lifandi.  

Við vísindanördarnir höfum miklar áhyggjur af því að að enginn hlusti á okkur. Skýrasta dæmið þessi árin eru staðreyndir um hvert stefnir í umhverfismálum, hvernig umgengni okkar kynslóða um Jörðina ber glötun í sér. Þetta er svo óþægilegur sannleikur að það nennir enginn að hlusta. Almenningur heyrir ekki það sem vísindamenn segja, enda tjá þeir sig þannig að þeir heyra bara hver í öðrum. Þess vegna verða vísindi og listir að vinna saman til að koma lífsnauðsynlegum skilaboðum á framfæri.  Og þess vegna skipta myndir eins og Listi Schindlers máli.

Og þegar við, í öryggi okkar alsnægta og friðartíma, sjáum svona mynd, verður okkur ljóst hvað  veðrabrigði geta orðið skjót. Hvað straumskiptin geta verið afdrifarík og hrifið marga með sér.

Þess vegna verðm við alltaf að vera vakandi og taka afstöðu. Þess vegna eru málfrelsi og kosningaréttur heilagur réttur.  Það er svo auðvelt að sofna og fljóta meðvitundarlaus. Það er nokkuð sem við verðum öll að berjast gegn.