Í kosningaréttinum felst réttur til að velja. Kosningarétturinn er nátengdur rétti kvenna til að ráða sér sjálfar, velja sér starf, vera fjárráða, geta framfleytt sér og til þess að hafa skoðun og rödd í íslensku samfélagi. Þetta var ekki gefið fyrir íslenskar konur í byrjun síðustu aldar.
Sem ung stúlka varð ég hugfangin af lagalegri stöðu kvenna fyrr á öldum, skorti þeirra á réttarstöðu og ekki síst stöðu kvenna sem voru hjú. Þeirri staðreynd að helsta velgengnismarkmiðið var að ganga í hjónaband. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir því vali sem mér hefur verið veitt af þeim hugrökku konum sem börðust fyrir þeim rétti. Ég hef nýtt mér kosningaréttinn og það aukna jafnrétti sem við njótum í dag. Ég gat valið að fara í nám og valdi mér með því starfsvettvang. Vegna þess get ég verið fjárhagslega sjálfstæð og séð fyrir mér og fjölskyldu minni ef á þarf að halda. Það skapar grundvöll til frekara vals, frelsis og jafnréttis bæði fyrir mig og maka minn. Frelsi sem ég tek ekki sem sjálfsögðu en sem ég tel vera rétt minn og kynsystra minna.
Enn er að finna talsvert af kynbundnum staðalmyndum í íslensku þjóðfélagi sem hafa þau áhrif að takmarka rétt kvenna til sjálfsákvörðunar. Má þar m.a. nefna væntingar varðandi náms- og starfsval sem enn er mjög kynbundið. Ég tók þátt í verkefni á vegum Háskóla Íslands og samstarfsaðila um síðustu aldamót sem var m.a. ætlað að stuðla að jafnara námsvali kynjanna. Við beindum sjónum okkar sérstaklega að því að leita leiða til að auka hlut kvenna í raungreinum í Háskóla Íslands og karla í hjúkrunarfræði, þar sem kynjamunurinn var þá mestur. Unnið var að því að sýna ungum konum og körlum fyrirmyndir. Kvenkyns nemum í framhaldsskólum var boðið í heimsókn til fyrirtækja í tæknigeiranum þar sem konur með raungreinamenntun tóku á móti þeim og sögðu frá náms- og starfsvali sínu og starfsvettvangi. Námsval í raungreinum, þá sérstaklega verkfræði er nú mun jafnara milli kynja en þá var. Er það þó ekki enn orðið svo að karlmenn sæki í verulega auknum mæli í nám í hjúkrunarfræði eða öðrum námsgreinum sem hafa verið hefbundinn vettvangur kvenna. Kannski verður það að einhverju leyti rakið til þeirra ríkjandi gilda um að karlmenn eigi því miður enn ekki að finna sér fyrirmyndir í konum, þó að við konur höfum um langt skeið mátt fylgja fordæmi karlmanna. Enn er t.d. talað í háði um að vera „eins og kerling“.
Við erum ekki búin að ná jafnrétti kynjanna. Launajafnrétti bíður t.d. enn. Ég er einn höfunda að jafnlaunastaðli sem kom út haustið 2012 hjá Staðlaráði Íslands, þess fyrsta sem hefur verið gerður á þessu sviði. Staðallinn er nú að komast í aukna notkun. Vonandi náum við sem þjóðfélag að stíga nokkuð hröð og örugg skref í átt að auknu launajafnrétti á næstu misserum. Skref sem leiða til betra jafnræðis í fjölskyldum okkar og ekki síst til aukins vals beggja kynja svo sem vals um starfsvettvang og skiptingu framfærslu- og fjölskylduábyrgðar. Jafnrétti kynjanna er gildi sem við þurfum að hlúa að til framtíðar. Kosningaréttur kvenna hefur verið grunnur þess árangurs til aukins jafnréttis sem orðið hefur síðustu 100 árin.