Að fá að kjósa í fyrsta sinn var mikilvægt fyrir mig sem unga manneskju frekar en unga konu, enda var jafnréttistilfinning ungs fólks á góðri siglingu árið 1985. Sjálfstæði mitt varð mér umhugsunarefni, ekki síst vegna þess að stórfjölskyldan var höll undir ákveðinn flokk en ég athugaði minn gang vel í hvert sinn sem ég kaus þann flokk – eða annan.
Í litlu sveitarfélagi snérust kosningar um fólk. Fólk sem vissulega fylkti sér saman í hóp, setti saman lista og sigldi undir flaggi ákveðins hugmyndakerfis en samt sem áður – fólk. Alþingiskosningar snérust um stefnumál, fannst mér, og stóra samhengið. Sá þingmaður úr mínu sveitarfélagi sem mest lét að sér kveða þegar ég var yngri, er kona. Ég þekkti hana og hennar umhverfi vel og vissi að henni var treystandi og að hún fór ekki með fleipur. Æ síðan hef ég hlustað á innsæið þegar kemur þessu. Hver er fyrsta tilfinningin sem ég finn fyrir, svona rétt áður en merking orðanna síast að inn að fullu – get ég treyst þessum einstaklingi?
Þegar ég stundaði nám við Tónstarskólann í Reykjavík, á háskólastigi síðustu tvö ár skólagöngunnar, átti sér stað atburður sem hafði mikil áhrif á hvaða augum ég lít lýðræðið. Það var verið að kjósa til stúdentaráðs og þó ég tæki ekki þátt í þeirri kosningu þá var ég stödd í ljómandi góðu kosningapartýi þegar úrslitin voru tilkynnt. Annar listinn hafði unnið – með eins atkvæðis mun. Eitt atkvæði réði úrslitum þessara kosninga. Fagnaðarlætin voru mikil, en ég man eftir mér hálf ringlaðri yfir þessari staðreynd og ég var uppnumin af hugmyndinni um þetta eina atkvæði sem réði úrslitum það sem eftir var kvöldsins.
Sögukennari minn í menntaskóla kenndi mér að setja spurningamerki við ágæti sterkra leiðtoga og þörfina á þeim. Kennarinn í enskum bókmenntum lagði áherslu á að við temdum okkur gagnrýna hugsum og gætum jafnframt rökstutt allt sem við héldum fram. Það vekur tortryggni mína þegar einhver leitast við að upphefja sig á kostnað annarra. Ekki aðlaðandi skapgerðareinkenni hjá einstaklingum eða flokkum, hvað þá heilum þjóðum eða þeim sem telja sig fulltrúa þeirra.
Kerfin sem við höfum búið til sem eiga að halda utan um samfélagið og meðlimi þess eru mannanna verk og eru sum við það að falla saman og þjóna jafnvel sjálfum sér frekar en þeim sem þau eiga að þjóna. Straumar og stefnur sem hugmyndakerfi tuttugustu aldarinnar mótuðust af eru augljóslega gengin sér til húðar og sagan sannar margfaldlega vankanta þeirra og takmörk. Þessi hugmyndakerfi eru nefnilega öll til þess fallin að þjónar þeirra valti yfir einstaklinginn og þarfir hans. Hugmyndakerfin öðlast sjálfstætt líf og heilar þjóðir leyfa þeim að hlaupa með sig í gönur með hörmulegum afleiðingum.
Ég get ekki varist þeirri hugsun að þeir sem eru í stjórnmálum núna þurfi að gera sér grein fyrir því að þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst allt um manneskjur. Ekki stefnur eða flokkslínur. Fólkið sem við ætlum að kjósa, fólkið sem ætlar að gera sitt besta til að þjóna. Bara fólk. Ekkert annað.
Ef við setjumst við borð, frambjóðandi öðru megin og kjósandi hinum megin og gerum grein fyrir þörfum okkar og skoðunum, skiptum svo um sæti, hvað þá? Er einhver munur? Af hverju?
Við frambjóðendur tuttugustu og fyrstu aldarinnar langar mig að segja: Stefna og hagsmunir, flokkslínur og kerfi, þurfa nú að víkja fyrir því hvaða mann þú hefur að geyma. Það er sá maður sem við viljum sjá vinna fyrir okkur og erum reiðubúin að vinna með.
Við kjósendur tuttugustu og fyrstu aldarinnar langar mig að segja: Við þurfum að mynda okkur eigin skoðun frekar en að gleypa hrátt það sem er rétt að okkur. Reynslan sýnir að við þurfum að draga í efa fyrsta uppkast að öllum gylliboðum og skyndilausnum. Ef við viljum breyta þessari reynslu til batnaðar í framtíðinni þurfum við að trúa því að við höfum áhrif; sem neytendur, launþegar, launagreiðendur, frumkvöðlar og síðast en ekki síst, kjósendur.