Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Jónína Leósdóttir
Jónína Leósdóttir
rithöfundur

Hnyklum lýðræðisvöðvann

Enska orðatiltækið „use it or lose it“ kemur iðulega upp í huga minn í tengslum við þann dýrmæta rétt íbúa lýðræðisríkja að kjósa sér forystufólk og -flokka. Sérstaklega þegar fréttir berast af lítilli kosningaþátttöku. Þá fer hrollur um mig.

Já, mér finnst hrollvekjandi að hugsa til þess hvaða örlög gætu beðið þjóðar sem hættir að þjálfa lýðræðisvöðvann, nennir ekki að nota kosningaréttinn. Í kosningum til sveitarstjórna og Alþingis er jú verið að útdeila völdum og ég er algjörlega ósammála einsrassakenningunni. Það skiptir víst máli hverjir stjórna. Það sést meðal annars vel við samanburð á núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu.

Ég hef þó alls ekki verið við eina fjölina felld í pólitík. Kannski má rekja það til þess að ég ólst upp í margflokka fjölskyldu. Pabbi var alþýðuflokksmaður af lífi og sál, enda höfðu foreldrar hans verið bláfátækt verkafólk sem tók þátt í stofnun flokksins af brennandi hugsjón. Þau börðust fyrir vökulögunum, kosningarétti kvenna og ótal öðrum mikilvægum málum í upphafi tuttugustu aldar. Bakgrunnur móður minnar var allt annar og þegar ég var krakki aðhylltist hún Sjálfstæðisflokkinn. En það átti reyndar eftir að breytast.

Við systkinin uxum þannig úr grasi við óm af ólíkum stjórnmálaskoðunum þótt aldrei væri beinlínis rifist um pólitík. Foreldrar okkar sættust einfaldlega á að vera ósammála. En sitthvað síaðist inn í okkur krakkana og við velktumst meðal annars ekki í vafa um hverjir væru góðu gæjarnir í kalda stríðinu. Eitt sinn fagnaði litli bróðir minn til dæmis frétt um að sovésk orrustuflugvél hefði brotlent. Gott á kommana, fannst smábarninu. Þá hrökk mamma við og dró úr Rússagrýlutalinu.

Kommarnir voru þó ekki langt undan á æskuheimili okkar, eða að minnsta kosti einn meintur kommi. Á hæðinni fyrir neðan okkur bjó kær föðursystir mín sem var sterklega grunuð um að kjósa Alþýðubandalagið.

Þegar ég var lítil og undir áhrifum frá sjálfstæðiskonunni, móður minni, fannst mér þetta hræðileg tilhugsun. Núna vona ég að orðrómurinn hafi verið réttur. En þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékk ég frænkuna aldrei til að játa því eða neita að hún styddi Allaballa. Hún tók kosningar mjög alvarlega, enda fædd áður en íslenskar konur öðluðust rétt til að kjósa, og útskýrði að það sem fólk gerði í kjörklefanum væri einkamál.  

Loks kom svo að því að ég gat sjálf arkað upp í Melaskóla og framið bernskubrek með því að krossa við dé. En þegar kosið var til borgarstjórnar 1982 var ég farin að nálgast þrítugt, orðin mamma og hafði uppgötvað að konur stóðu ekki jafnfætis körlum í samfélaginu. Ég treysti Sjálfstæðisflokknum hreint ekki til að leiðrétta þann mismun og þar með skildu leiðir. Atkvæði mitt fór til Kvennaframboðsins og ég yfirgaf kjörstað einstaklega sátt.

Árið eftir hefði ég eflaust kosið Kvennalistann, sem þá bauð fram til þings í fyrsta sinn, ef ég hefði ekki óvart álpast í framboð fyrir nýstofnað Bandalag jafnaðarmanna. En bandalagið varð því miður ekki langlíft fremur en stofnandi þess, Vilmundur Gylfason, og þar með var ég orðin hálfmunaðarlaus í pólitík. Og þó ekki. Ég færði mig yfir í flokk alþýðunnar, pabba til ómældrar gleði, og síðar fylgdi ég ástkonu minni í Þjóðvaka og þaðan í Samfylkinguna. Nema hvað. Engum treysti ég betur en henni fyrir mínu dýrmæta atkvæði.

Vonandi á ég eftir að lifa margar kosningar til viðbótar. Ég vil fá að hnykla lýðræðisvöðvann sem oftast. Kannski á ég eftir að bæta fleiri framboðum í sarpinn – til dæmis kosningabandalagi á vinstri vængnum, í síðasta lagi vorið 2017.