Þegar Kvennalistinn byrjaði man ég að pabbi útskýrði þá fyrir mér að Kvennalisti þessi væri fyrir konur og hugsandi karlmenn. Þetta þótti mér merkilegt. Mér þótti ekki síður merkilegt þegar ég nokkrum árum síðar heyrði af því að Sviss hefði ekki veitt konum kosningarétt fyrr en árið 1971, örfáum árum áður en ég fæddist. Mér þótti þetta mjög undarlegt því í barnshuganum var Sviss bara nokkuð gott land, hafði teflt fram nokkrum ágætum atriðum í Eurovision og bjó til meiriháttar súkkulaði sem og Quartz-úrin sem voru það allra flottasta sem hægt var að eiga í lok níunda áratugarins. Hvurnig í ósköpunum gátu þeir þá ekki gefið konum kosningarétt fyrr en 1971? Þá var meira að segja stóra systir mín fædd? Þetta hlutu að vera einhver mistök.
Þarna á diskóskotnum níunda áratugnum mótuðust sem sagt mínar fyrstu vangaveltur um kvenréttindi. Þær vangaveltur hafa staðið yfir í hausnum mínum linnulítið síðan. Og ætli það megi ekki segja að ég hafi verið í baráttu við sjálfa mig um hvað er best til þess fallið að stuðla að jafnrétti svo gott sem allan tímann. Í mínum jafnréttishaus hefur farið fram reiptog hugmynda um að annars vegar sé frelsi einstaklingsins best til þess fallið að ná fram jafnrétti og hins vegar að frekar eigi að draga allar konur í sama dilk þess sem er minni máttar og fá ívilnanir í verðlaun. Báðar hliðar hafa nokkuð til síns máls, hafa styrkleika og veikleika og reiptogið því verið jafnt svona lengst af.
Svo fór ég í pólitík. Og eins og stúlka sem ólst upp með Quartz-úr um úlniðinn og munninn fullan af Toblerone bjó ég við þau forréttindi á níunda áratugnum að þykja sjálfsagt að frú Vigdís væri forseti lýðveldisins. Það skal enginn vanmeta þau áhrif. Ótrúlega margir viðruðu þá skoðun á þessum tíma að einstæð móðir myndi nú aldrei valda hlutverki forseta. Sem betur fer létu þeir fordómar í minni pokann, þó tæpt væri, og heilu kynslóðir kvenna fengu þarna ómetanlega fyrirmynd. Ég var því bara nokkuð keik í mínum fyrstu skrefum í pólitík. Var þarna út af mínum eigin verðleikum og hugmyndum að mér fannst, og fannst ég að öðru leyti ekkert þurfa að biðjast afsökunar á því.
Svo sljákkaði smá í mér í pólitíska starfinu þegar ég fann mig ítrekað vera að starfa í einhverjum kynjakvótum heldur en sem talsmaður hugmynda. Ég starfa í borginni og þar eru reglurnar um að í öllum ráðum, nefndum og stjórnum verði að vera svo gott sem jafnt kynjahlutfall. Eins og staðan er í dag eru þar nánast jafnmargar konur kjörnir fulltrúar og karlar og því verður alltaf meira og meira hjákátlegt þegar ítrekað er valið í nefndir út frá kyni eingöngu og reynsla, menntun og áhugasvið því látið mæta afgangi í þessu púsli. Ég veit ekki með það. Enda er ég líka frekar skeptísk á þá kröfu að allar stjórnir og öll ráð og öll önnur heimsins mengi séu betri með hnífjafnri kynjaskiptingu. Ég held faktískt að konur séu alls konar annað en að vera bara konur. Ég er til dæmis líka frjálslynd og frjálshyggin og alls konar annað en að vera kona. En gott og vel. Í reiptoginu get ég annars vegar sannfært mig um að þessir kvótar hafi ýtt undir nauðsynlega þróun fyrr en ella – en á hinum endanum finnst mér þetta verða meira og meira niðurlægjandi með hverjum deginum.
Hverju sem því líður þá óska ég þess að reiptogið verði útkljáð með að okkur auðnist að afnema ívilnanir og kvóta þegar hægt er að færa rök fyrir að slíkar aðgerðir séu orðnar óþarfi áður en þær eru mögulega orðnar að bjarnargreiða fyrir konur. Ég vona að á þessari vegferð auðnist okkur því að horfa rökrétt á stöðu mála og hvaða skref eru sanngjörn gagnvart okkur öllum. Pabbi sagði á níunda áratugnum - eflaust réttilega - að Kvennalistinn væri flokkur fyrir konur og hugsandi karlmenn. Núna ættum við að vera komin á þann stað að jafnréttið sé fyrir allt hugsandi fólk. Við megum þá heldur ekki gleyma að hugsa um að það er til fleiri en ein sort af jafnréttisbaráttu og sú barátta á að vera laus við kreddur og rétttrúnað ef hún á að skila árangri.