Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Henný Hinz
Henný Hinz
hagfræðingur

Af samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs

Í árdaga kosningaréttar íslenskra kvenna voru langömmur mínar ungar konur með stóra barnahópa sem þær eignuðust og ólu upp í aðstæðum og samfélagi sem virðast nú víðsfjarri. Ein þeirra var Gunnarína langamma mín sem eignaðist og missti sitt fyrsta barn árið sem íslenskar konur gengu fyrst að kjörborðinu. Hún var ekki meðal þeirra enda aðeins 24 ára gömul. Hún eignaðist síðar sex börn til viðbótar en þrjú þeirra dóu fyrir tveggja ára afmælisdaginn.

Gunnarína var húsfreyja á fjölmennu heimili sem var í senn framleiðslufyrirtæki fyrir matvæli og fatnað heimilismanna, dagvistunarstofnun, elliheimili, sjúkrahús og samkomuhús. Atvinna og fjölskyldulíf var samtvinnað og þurfti svo sannarlega að samræma. Dóttir hennar Gyðríður, móðuramma mín, fluttist á mölina og missti eins og móðir sín frumburð sinn á fyrsta ári. Hún kom síðar fimm börnum til manns eftir að eiginmaður hennar lést í kjölfar erfiðra veikinda þegar yngsta dóttirin var á öðru ári. Það var því aldrei um annað að ræða en að stunda launuð störf samhliða heimilisstörfum og barnauppeldi. Leikskólar og frístundaheimili, skólamáltíðir og veikindadagar vegna barna komu hér hvergi við sögu. Þá var ekki annað en að samræma fjölskyldulíf og atvinnu með útsjónasemi, elju og samhjálp annarra kvenna. Vakna fyrir allar aldir til að skúra skrifstofur áður en krakkarnir voru vaktir í skólann og sauma sessur fyrir bólstrarann við eldhúsborðið heima á kvöldin.

Sjálf man ég ekki annað en að móðir mín væri alla tíð útivinnandi en áfram þurfti að laga atvinnuþátttökuna fjölskyldulífinu með hlutastörfum og aukavinnu á kvöldin og um helgar. Mig rekur minni til margra mæðra sem voru í sambærilegri stöðu í mínum uppvexti en ég man ekki eftir einum einasta pabba. Sögur þessara formæðra minna eru ekkert einsdæmi, þær eru sögur fjölmargra íslenskra kvenna. Mikil atvinnuþátttaka kvenna eru engin nýmæli hér á landi, konur hafa alla tíð verið mikilsvirkir þátttakendur á vinnumarkaði þó oft mætti ætla af umræðunni að svo hafi ekki verið. Atvinnuþátttaka þeirra hefur hins vegar oft verið lítt sýnileg, verulega vanmetin og starfsmöguleikarnir takmarkaðir.

Samræming atvinnu og fjölskyldulífs er þannig langt frá því að vera nýtt viðfangsefni nútímakvenna. Okkur hefur hins vegar á síðustu 100 árum tekist hægum skrefum að færa málefnið frá því að vera einkamál hverrar konu yfir í að verða samfélagslegt viðfangsefni stjórnmálanna. Mér er til efs að langömmur mínar hafi látið sig dreyma um að dagvistun barna og launað fæðingarorlof yrði sett á stefnuskrá stjórnmálaflokkanna og rætt í sölum hins háa Alþingis. En það gerðist ekki af sjálfum sér og ekki án fyrirhafnar. Aðeins með aukinni stjórnmálaþátttöku kvenna tókst að koma raunverulegum hversdagslegum málefnum fjölskyldna á dagskrá og gera þau að sameiginlegu úrlausnarefni samfélagsins.

Stjórnmálamönnum dagsins í dag kemur fáum annað í hug en að þessi málefni séu hluti af stefnuskránni. Þótt enn séu ekki allir sigrar unnir höfum við náð óralangt. Myndin af húsfreyjunni sem er ósýnilegur þátttakandi á vinnumarkaði hefur vikið fyrir hinni útvinnandi konu sem gerir kröfu um að geta með góðu móti samræmt ólík hlutverk sín og haft val til jafns við karlana. Þótt þetta takist kannski ekki alltaf og margar samtíðarkonur mínar séu margklofnar á milli heimilis, vinnu, skóla og félagslífs kemur samt engum lengur til hugar að konur séu ekki fullgildir þátttakendur á vinnumarkaði eða eigi að hætta þátttöku í félagsstörfum. Það er til marks um breytta tíma að fækkun á fæðingarorlofsdögum feðra er álitið vandamál sem stjórnmálamenn telja nauðsynlegt að bregðast við. Við höfum þannig að minnsta kosti náð þeim árangri að krafan um möguleika til að samræma ólík hlutverk okkar er í dag sjálfsögð og viðurkennd þótt viðfangsefnið sé vissulega enn til úrlausnar.