Ég er enn tiltölulega ung, umdeilanlega kannski, en það eru þó ekki nema hér um bil sex ár síðan ég fór að viðurkenna fyrir sjálfri mér, og öðrum, að ég væri femínisti. Á táningsárum mínum vissi ég satt best að segja ekki almennilega hver merkingin á bakvið orðið var, auk þess sem margt var mér ofar í huga en jafnréttisbarátta. Hægt og rólega þroskaðist ég þó og fór að gera mér grein fyrir og horfast í augu við óréttlæti samfélagsins sem ég er óaðskiljanlegur hluti af. Samhliða því áttaði ég mig þó einnig á þeim forréttindum sem ég lifði við sem íslensk kona í nútímasamfélagi og ákvað fljótt að nýta þessa aðstöðu sem ég hafði nýlega borið skyn á til góðra verka.
Eftir að ég opnaði augun fyrir jafnréttisbaráttu hér á landi hef ég orðið vitni að mörgum stórum skrefum í rétta átt. Ég man léttilega eftir viðtalinu við ungu mennina í Borgarholtsskóla sem dásömuðu kynjafræðikennslu sem var þá tiltölulega ný af nálinni, skorin var upp herör gegn hefndarklámi með Free the Nipple byltingunni, #6dagsleikinn náði flugi á Twitter og varpaði ljósi á hversdagslegt kynjamisrétti, kynjakvóta var komið á í Gettu Betur, Druslugangan er orðin að árlegum viðburði þar sem gengið er fyrir þolendur kynferðisofbeldis, auk þess sem ég gleymi seint dramatískri auglýsingu VR þar sem ung kona gengur beint á ósýnilegan vegg undir áhrifamiklum tónum Hendels og vakti þannig athygli á launamuni kynjanna.
Óneitanlega hefur kennt ýmissa grasa í jafnréttisbaráttu hér á landi undanfarin misseri og það er svo sannarlega fagnaðarefni. Þátttaka ungs fólks er það sem gleður mig hvað mest. Þessir framhaldsskólatöffarar sem kynda bál í brjóstum eldri kynslóða með nýstárlegum og byltingarkenndum aðferðum í viðureigninni við óréttlætið og vekja upp von í brjósti um að á endanum muni þetta allt saman hafast.
Baráttan er á blússandi ferð en það er einnig gott að staldra annað slagið við og rifja upp það sem hefur nú þegar áunnist. Sem dæmi hafa bæði kyn jafnan aðgang að námi, lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur verið komið á, jafnrétti kynjanna hefur mælst mest í Íslandi nú sex ár í röð og jú, við átján ára aldur megum við öll ganga að kjörkassanum og kjósa. Fyrir 100 árum var engin íslensk kona með kosningarétt. Mér hrýs hugur við tilhugsunina um að sitja heima þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Sem betur fer fæ ég reglulega tækifæri til að brjóta upp hin hversdagslegu vanaverk og tjá mína skoðun í formi þess að setja X við það sem mér finnst réttast hverju sinni. Ég elska að eiga rétt á að hafa áhrif á samfélagið sem ég lifi og hrærist í með þessum hætti. Svona kem ég skoðun minni á framfæri og svona legg ég mitt á vogaskálarnar til að gera samfélagið að þeim stað sem ég vil að það verði.
Mér þykir kosningarétturinn minn, sem ég hlaut réttilega við átján ára aldur og hef því haft í farteskinu í næstum því sex ár, sjálfsagt fyrirbæri sem mér ber að nýta við hvert tækifæri sem gefst. Með áframhaldandi jafnréttisbaráttu mun okkur takast að útrýma því misrétti sem enn ríkir og þá getum við talað um hið sjálfsagða jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.