Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Helga Baldvins og Bjargardóttir
Helga Baldvins og Bjargardóttir
starfskona hjá Stígamótum

Raunverulegt jafnrétti enn handan seilingar

Stuttu fyrir alþingiskosningarnar 1999 varð ég 18 ára og mátti því í fyrsta skipti taka þátt í að velja okkar þjóðkjörnu fulltrúa sem sitja á Alþingi. Ég man að ég upplifði þetta sem mikla ábyrgð og stórt skref í þá átt að verða fullorðin. Ég held ég hafi samt ekki alveg áttað mig á mikilvægi kosningaréttar kvenna fyrr en ég setti það í samhengi við mannréttindabaráttu ýmissa hópa og þá menningu sem viðheldur valdaójafnvægi í samfélaginu. Þegar ég áttaði mig á forréttindastöðu miðaldra, hvítra, cis gagnkynhneigðra, ófatlaðra karlmanna. Hvernig þeir væru normið, hefðu skilgreiningavaldið og löggjafarvaldið í höndum sér og þau áhrif það hefur haft á viðmið okkar fyrir það sem telst eðlilegt og æskilegt. Sérstaklega með tilliti til allra þeirra sem tilheyra valdaminni hópum samfélagsins.

Ég hef vissulega upplifað jafnréttisbaráttuna í mínu lífi að miklu leyti í gegnum forréttindi. Það voru konurnar á undan mér sem ruddu brautina til að ég gæti lifað því lífi sem ég lifi núna. Ég ræð mér sjálf, get menntað mig, keypt og selt eignir, ræð því hvort eða hvenær ég eignast börn, fæ sveigjanleika á vinnumarkaði tengt fæðingu og umönnun ungabarna, kemst aftur út á vinnumarkaðinn vegna daggæslu, get sinnt áhugamálum mínum, tekið þátt í stjórnmálum og svona mætti lengi telja. Það er auðvelt að verða værukær í þessari stöðu og finnast jafnrétti vera náð og stimpla áframhaldandi jafnréttisbaráttu sem frekju og yfirgang. Að mínu mati er það aftur á móti algjör vanvirðing við baráttu formæðra minna og alla sem ekki njóta sömu kjara, að taka ekki við keflinu og halda jafnréttisbaráttunni áfram.

Kosningaréttur kvenna var svo sannarlega mikill áfangi í jafnréttisbaráttunni. Hins vegar erum við enn aftarlega á merinni þegar kemur að því að skilgreina jafnrétti allra samkvæmt lögum. Jafnrétti sem tekur á öllum mismununarbreytum, á öllum sviðum og tæklar fjölþætta mismunun. Lagalegt jafnrétti er ein forsenda raunverulegs jafnréttis, en jafnrétti snýst ekki síður um virðingu og völd. Af því að á sama tíma og ég nýt allra þessara forréttinda, þá bý ég jafnframt í samfélagi útlitsdýrkunar, klámvæðingar, hlutgervingar kvenna og menningar sem afsakar, réttlætir og viðheldur ofbeldi.

Ég held ég hafi ekki verið eldri en 6 ára þegar ég hljóp grátandi til gangavarðarins á skólalóðinni því einhver skólabróðir minn hafði sparkað í afturendann á mér. Skilaboðin sem ég fékk voru þau að strákarnir væru örugglega bara skotnir í okkur. Réttarkerfið okkar byggir enn á karllægum viðmiðum þegar kemur að því að takast á við ofbeldi og nær sjaldnast að gera ofbeldismenn ábyrga fyrir því ofbeldi sem þeir kjósa að beita.

Samfélag þar sem orð eins og „stelpulegt“, „hommalegt“ eða „þroskaheft“ eru notuð til niðurlægingar, er ekki samfélag jafnréttis. Samfélag sem virðir ekki ólíka menningu, trú, kynhneigð eða stöðu er heldur ekki samfélag jafnréttis. Samfélag þar sem valdhafar eru einsleitur hópur, ómeðvitaður um forréttindastöðu sína og þar af leiðindi þá baráttu sem einstaklingar valdaminni hópa þurfa að heyja á hverjum degi, getur ekki verið samfélag jafnréttis.

Mig dreymur um að skapa samfélag þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir. Þar sem virðing er borin fyrir fjölbreytileika mannlífsins og sköpuð eru skilyrði fyrir allar manneskjur til að blómstra á eigin forsendum, með sínum sérkennum, frjálsar frá niðurnjörvuðum staðalímyndum. Ein leiðin er í gegnum kosningaréttinn minn, en byltingin þarf að eiga sér stað á öllum sviðum samfélagsins og byrja í eigin brjósti og eigin viðhorfum.