Mínar minningar um að fá að kjósa í fyrsta sinn eru mér mikilvægar þar sem á æskuheimili mínu var frekar pólitíkskt andrúmsloft. Foreldrar mínir voru ekki sammála en virtu hvort annað í skoðunum. Málin voru rædd og vissir flokkar alveg út úr myndinni. Svo fór ég í sveit á bæ þar sem pólitík voru trúarbrögð og fólk ekki í lagi ef það kaus annað. Ég kom alveg snarrugluð í bæinn. Svo liðu árin og nú fór að hilla í að maður fengi að kjósa. Merkilegt að upplifa það. Kosningarétturinn var mikilvægur í minni fjölskyldu svo maður klæddi sig upp og fór á kjörstað.
Mig minnir að ég hafi fyrst kosið í Miðbæjarskóla og að fánaborgin hafi setið í minningunni. Þá vakti maður fram á nætur að fylgjast með niðurstöðum. Út voru gefnar kosningahandbækur og fólk setti inn tölur úr kjördæmum. Þetta var upplifun. Ég man ekki betur en að ég hafi alltaf kosið eftir þetta en líka utan kjörfundar ef svo hefur staðið á. Flottustu staðirnir til að kjósa á voru Sjómannaskólinn en það var svo bjart yfir öllu þar og auðfundið. Þar vann faðir minn og síðar sonur við löggæslu í kosningum svo það setti svip á daginn. Svo urðu kosningahandbækur úreltar og blöðin settu inn blaðauka fyrir fólk að fylla í ef áhugi var fyrir hendi en um leið varð sjónvarpið allsráðandi um að kynna tölur frá kjörfundum. Stundum vakti maður yfir því en hætti svo þegar leið á ævina.
Seinna kaus ég í Álftamýrarskóla og þar var maðurinn minn við gæslustörf svo sú stund varð líka á annan hátt minnisstæð. Hann þurfti að vakna fyrr og flagga við skólann. Síðustu árin höfum við svo kosið í Breiðagerðisskóla og náð að mæta það snemma að sjá hinn forna sið að kallari kæmi út og kynnti að kjörfundur hæfist. Þar er þægilegt að kjósa og aldrei biðröð.
Hins vegar hef ég aldrei skilið hvers vegna kjörfundur er opinn langt fram á kvöld. Það er engin þörf á því lengur og víðast erlendis er þessu lokið frá kl. 18.00- 20.00. Er markmiðið að láta fólk vaka alla nóttina sem er skaðlegt heilsu fólks?
Ég hef haft mikil afskipti af jafnréttismálum og var fyrst í svokallaðri '85 nefnd sem undirbjó 10 ára afmæli kvennafrídagsins. Síðan var ég tilnefnd í Jafnréttisráð í a.m.k. 3 kjörtímabil. Það var lærdómsríkt og gefandi og gríðarlega flottar konur að vinna að margþættri baráttu kvenna til launajafnréttis, fæðingarorlofs, jafnréttis kynjanna í víðum skilningi. Rannsóknir voru settar af stað sem opnuðu augu fólks t.d. fyrir auknu álagi á konur við að vinna úti og hafa síðan megnið af ábyrgð heimilis til viðbótar. Þetta er sífelld barátta en þokast þó þar sem við sem þarna vorum að ala upp unga syni breyttum uppeldisaðferðum okkar verulega svo eldhúsið var opnað fyrir drengjunum. Auk þess sem þeir margir lærðu á þvottavélina.
Síðar tók ég við jafnréttisnefnd ASÍ og á því tímabili vann ég með Halldóri Grönvold að útfærslu samninga um fæðingar- og foreldraorlof. Það urðu mikilvæg tímamót þegar það varð að veruleika um sveigjanleikann milli foreldra auk lengingarinnar.
Við Lára V. Júlíusdóttir áttum langt og gott samstarf um fræslu um jafnréttismál og fræðslufundi. Sóttum m.a. slíkar ráðstefnur á Norðurlöndunum og heilluðumst af hversu lengra þau voru komin. Mikið af þeirri reynslu var flutt heim og þannig varð t.d. Nordisk Forum til og í framhaldinu hin mikla þátttaka meðal íslenskra kvenna.
En með árunum minnkar áhuginn á pólitík og kosningum þar sem flestum finnst þetta allt eins og karpið á Alþingi ekki oft í fullum tengslum við þjóðina.
Maður verður hinsvegar að nýta réttinn til að kjósa þar sem barátta kvenna fyrir þessum rétti var langvinn. Með því að nýta ekki réttinn er það vanvirðing við þær öflugu konur sem ruddu brautina.