Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þrúður Kristjánsdóttir
Þrúður Kristjánsdóttir
fyrrverandi skólastjóri

Viðmiðin enn ekki þau sömu

Þegar ég var að alast upp höfðu konur fengið kosningarétt og sem ung stúlka gerði ég mér ekki grein fyrir þeirri baráttu sem það hafði kostað. Á bernskuheimili mínu var nánast aldrei rætt um pólitík. Pabbi var alla tíð sannfærður sjálfstæðismaður og ég veit ekki annað en að mamma hafi fylgt honum að málum. Einu skiptin sem pólitík var rædd, var þegar bróðir pabba kom í heimsókn. Pabbi hafði gaman af því að stríða honum og æsa hann upp, en þessi bróðir hans var eldheitur kommúnisti alla tíð. Þegar ég var tvítug giftist ég inn í mikla sjálfstæðisfjölskyldu og leiddi því einhvernvegin af sjálfu sér að ég fylgdi þeim flokki að málum. Þegar ég flutti út á land í lítið samfélag fór ég að taka aukinn þátt í félagsmálum og þar með pólitík. Ég hef alltaf nýtt mér kosningaréttinn og finnst mikilvægt að gera það. Eftir að ég fór að taka meiri þátt í fundum og félagsstarfi fór ég að velta alvarlega fyrir mér stefnumálum stjórnmálaflokkanna og komst að því að þar var mikið um fögur orð og háleitar hugsjónir.

Á vissum tímapunkti hreifst ég af málflutningi Alþýðubandalagsins og líkaði vel hugsjónir um félagshyggju og samhjálp. Ákveðin atvik urðu þó til þess að mér fannst koma í ljós að lítið yrði úr þessum hugsjónum þegar á reyndi og ákvað að styðja Sjálfstæðisflokkinn áfram. Því fer þó víðs fjarri að ég samþykki allt það sem þar er borið á borð. Ég var mikil kvenréttindakona, „rauðsokka“, og kvennafrídagurinn var ógleymanlegur dagur. Ég held að þessi viðhorf mín hafi síast inn í uppeldi barna minna.

Um tíma tók ég virkan þátt í pólitík og var m.a. ofarlega á lista sjálfstæðismanna í mínu kjördæmi. Þó ég væri varaþingmaður eitt kjörtímabil fékk ég aldrei að prófa að sitja á þingi. Á listanum fyrir ofan mig var ungur mjög metnaðargjarn maður sem settist á þing í öllum forföllum þingmanna okkar og hefur síðan klifrað metorðastigann hratt og örugglega.

Mér þótti kosningabaráttan merkileg reynsla og gaman að hafa prófað þetta. Ekki er ég þó viss um að málflutningur minn hafi alltaf verið eftir flokkslínunni. Í næstu kosningum var ungur maður valinn í 4. sætið og mér boðið heiðursæti listans, neðsta sætið, en ég afþakkaði það. Kærði mig ekki um að „vera upp á punt“.

Kosningarétturinn er hornsteinn lýðræðisins og vonandi skilur unga kynslóðin hve mikils virði er að nota hann í hvert sinn sem tækifæri er til. Hlutur kvenna í stjórnmálum hefur batnað, en alls ekki nóg. Ennþá finnur maður það viðhorf að karlarnir séu mikilvægari. Konur og karlar eru ennþá ekki metin eftir sömu viðmiðum. Karl sem talar hátt og mikið með sterkar skoðanir, er skeleggur, en kona sem gerir það sama er frekjudós.

Ég vona að jafnréttisbarátta haldi áfram og að fleiri karlar skilji miklvægi hennar. Það þarf að huga vel að uppeldi drengja, því ótrúlegt er hversu mikil karlremba virðist virðist ríkja meðal unglinga og ungra manna. Ég vil líka minna á að jafnrétti á að ríkja gagnvart eldri borgurum. Ekki er langt síðan ung vel menntuð kona lét í ljós þá skoðun í MbL að ekki væri talandi við fólk yfir sextugt, var hún samt að hneykslast á fordómum annarra í skrifum sinum. Íslenskar konur: Munið að nýta kosningaréttinn og að réttindum fylgja skyldur. Ekki hika við að taka að ykkur forystu þar sem hún býðst og sýnið hvað í ykkur býr!