Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þórdís Nadia Óskarsdóttir
Þórdís Nadia Óskarsdóttir
nemi við LHÍ og danskennari

Takk fyrir og höldum áfram

Mamma mín er 30 árum eldri en ég. Ég spurði hana um daginn hvort hún hugsaði einhvern tímann til þess að hún hefði kosningarétt. „Nei, ekkert sérstaklega. Mér þykir það bara sjálfsagður hlutur.“ Það sama gildir um sjálfa mig. Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef kosið oft yfir ævina, en ég hef ávallt kosið á þeim forsendum að ég taldi mitt atkvæði skipta máli, ekki vegna þess að ég taldi það vera skyldu mína sem kona að nýta rétt minn. Í flestum löndum í heiminum hafa konur lagalegan rétt til að kjósa, hvort þær nýta þennan rétt er svo annað mál.

Fyrir u.þ.b. 10 árum gerði leikkonan Drew Barrymore heimildarmynd um kosningaþátttöku ungs fólks í Bandaríkjunum. Í myndinni kom fram að tölfræðin sýndi að aðeins lítill hluti ungs fólks nýtti kosningarétt sinn og enn færri konur, ungar konur sem tilheyrðu minnihlutahópum voru þær fæstu. Í myndinni var reynt að svara spurningunni hvers vegna þessi hópur fólks nýtti ekki kosningarétt sinn og upp komu áhugaverðir punktar, t.a.m. hversu erfitt það var fyrir ungt fólk að tengja við miðaldra hvítan mann sem notaði orðaforða sem það hafði ekki skilning á. Það er kannski skrítið að hugsa til þess að þetta sé vandamál í landi hinna frjálsu og hugrökku.

Túnis er t.a.m. mun fátækara land en Bandaríkin og hefur þurft að þola einræði í aldaraðir, þar sem lagalega séð var lýðræði en refsingin fyrir að kjósa rangan forseta var of þung til að fólk gæti nýtt kosningarétt sinn til fulls. Eftir byltinguna 2011, þegar forsetanum var steypt af stóli, fengu Túnisbúar í fyrsta skipti það frelsi að nýta kosningarétt sinn eins og þeir vildu. Það hafa verið nokkrar kosningar síðan þá þar sem þátttaka kvenna hefur verið tiltölulega jöfn á við karla. Þátttaka kvenna í kosningum á Íslandi hefur síðustu ár verið frekar mikil, í sumum tilfellum hafa fleiri konur tekið þátt í kosningum en karlmenn. Punkturinn er sá að kjör kvenna í Túnis eru mun verri en í Bandaríkjunum og á Íslandi, vegna þess að ójafnréttið er sýnilegra á öðrum stöðum en í þátttöku kvenna í kosningum.

Það að konur hafi rétt til að kjósa hefur komið af stað byltingu sem felst í auknum tækifærum og betri kjörum. Það að konur fengu kosningarétt er bara eitt af verkfærunum í baráttunni en engin endastöð. Það að konur geta kosið endurspeglar ekkert endilega í dag það ójafnrétti sem á sér stað innan samfélagsins og ekki virðist kosningaréttur kvenna alltaf vera í beinu sambandi við önnur lífskjör þegnanna. Auðvitað er það mikilvægt að konur hafi kosningarétt, ég er hins vegar bara ekki viss um að það umræðuefni eigi við í dag á Íslandi. Eigum við ekki bara að þakka fyrir okkur og halda áfram?