Með lagasetningu um kosningarétt kvenna til Alþingis árið 1915 var stigið eitt stærsta skrefið í áttina að því að gera Ísland að einni þjóð. Þetta eru ein markverðustu tímamót í sögu lands og þjóðar.
Það er svo ótrúlegt til þess að hugsa að við Íslendingar skulum einhvern tíma hafa búið við þvílíka smán að konum var ekki treyst til að taka þátt í ákvörðunum um sitt eigið samfélag. Konum sem höfðu axlað ýmis konar ábyrgð, sinnt margvíslegum verkefnum og ræktað þau af trúmennsku.
Þetta stóra, mikilvæga skref ýtti við kyrrstöðu sem þjóðin var í. Þjóðin áttaði sig á því að konur höfðu getu til að takast á við viðfangsefni umfram þau verkefni sem þær höfðu alltaf sinnt. Það voru ef grannt er skoðað ef til vill mikilvægustu verkefni samfélagsins, að hlúa að grunnþörfum einstaklinganna sem byggja landið; börnum, ellihrumum og öðrum þurfandi einstaklingum. Konur sjálfar vöknuðu til meðvitundar um rétt sinn og getu en einnig skyldur sínar að axla ábyrgð á samfélaginu í heild. Þennan rétt og þessar skyldur hafa konur á Íslandi ræktað vel en engan veginn án fyrirhafnar.
Með lagasetningunni voru mörkuð þáttaskil í íslensku samfélagi sem þá tók fyrsta skrefið í að nýta til jafns auðlegðina sem býr í konum og körlum. Með þessu má segja að íslenska þjóðin hafi vaxið um helming.
Þótt lagasetning um kosningarétt kvenna hafi skipt sköpum er ekki þar með sagt að að fullnaðarsigri í jafnrétti kynjanna hafi verið náð. Svo langt því frá.
Við verðum öll stöðugt að að halda vöku okkar. Ekkert varðandi jafnrétti kemur að sjálfu sér. Við þurfum öll, konur og karlar, að rækja okkar hlutverk til fulls, virða hvert annað og bæta hag hvers annars í öllu tilliti. Þetta er ekki sérstakt hlutverk kvenna, einhverra ákveðinna hópa eða stofnana heldur er þetta hlutverk hvers einstaklings og samfélagsins í heild.
Í öllu okkar lífi skipta fyrirmyndir miklu máli hvert sem viðfangsefnið er. Í jafnréttismálum skipta fyrirmyndir jafn miklu máli fyrir stráka og stelpu, sem og konur og karla. Ég hef verið einstaklega lánsöm að alast upp, þroskast og lifa við sterkar fyrirmyndir. Þar stendur mamma mín Inga Þorgeirsdóttir fremst allra. Á sinn hugprúða, markvissa en hljóðláta hátt sýndi hún sjálfri sér og öðrum þá virðingu að standa alltaf með fólki sama hver átti í hlut. Hún var kennari í yfir fjörtíu ár og einstæð móðir til margra ára. Hún gafst ekki upp gagnvart úrtölum margra um að leggja svona hart að sér við að mennta dætur sínar fimm og koma þeim til manns. Hún vissi að menntun, þekking og víðsýni var undirstaða jafnréttis kynjanna. Hún var fyrirmynd svo margra, þótt sumir hafi ekki skilið fyrr en miklu seinna hvers konar áhrifavaldur hún var á umhverfi sitt í víðum skilningi þess orðs.
Ísland hefur náð mun lengra hvað varðar jafnrétti kynjanna en mörg lönd um víða veröld. Því höfum við sem þjóð einnig skyldum að gegna gagnvart öðrum þjóðum. Skyldan felst einkum í að upplýsa aðra, benda á þætti sem hafa áhrif og láta ójafnræði ekki líðast í samstarfi okkar við aðrar þjóðir. Íslenskt samfélag og heimurinn allur getur ekki verið án eiginleika og sjónarmiða kvenna og karla í öllum málum.
Ég, þú og við öll skiptum máli í að treysta og tryggja jafnrétti hér á landi og um allan heim.