Ég ólst að mikilu leyti upp hjá ömmu minni sem fæddist árið 1898. Þegar konur á Íslandi fengu sinn skilyrta kosningarétt fyrir hundrað árum, var því ekki útlit fyrir að hún gæti kosið fyrr en árið 1938.
Vegna þess hvað ég varði miklum tíma með ömmu finnst mér ég hafa lifað mun lengur en raun ber vitni. Ég man sögur sem hún sagði mér frá því hún var lítil og mér finnst ég hafa verið með henni að skottast úti á Seltjarnarnesi að heimsækja Albert vin hennar út í vita og fá þykkar Gróttukökur með rabbabarasultu. Þvottadagarnir voru kvíðvænlegir því að þá þurfti að fara inn í þvottalaugar og eftir langan dag var erfitt að koma blautum þvottinum heim á Nes. Mér finnst ég líka hafa verið með henni heima í Litlabæ og hafa orðið vitni að því þegar langafi kom heim eftir að hafa verið tvö ár úti í Englandi að leita sér lækninga. Allan þann tíma stóð langamma vaktina með 4 börn auk fósturbarna sem hún hafði oftast líka.
Sagan okkar ömmu sýnir hvernig minningarnar tvinnast saman og hvað kynslóðaskiptin eru í raun óskýr. Hún gefur líka innsýn í líf íslenskra alþýðukvenna á þessum árum þegar ekki þótti sjálfsagt að konur segðu skoðun sína á þjóðmálum og gætu látið að sér kveða í stjórnun þeirra. Á sama tíma voru þær engu að síður afar sjálffærar og báru mikla ábyrgð.
Íslensk alþýðumenning hefur löngum einkennst af því að hafa sem fæst orð um hlutina, trana sér ekki fram, vinna helst myrkranna á milli og fyrirlíta utanaðkomandi vald. Þessi áhrif síuðust fyrirhafnarlaust inn í mig í æsku þegar ég var að stússast með ömmu. Hún hafði skoðanir, hún var sterk og seig og úrræðagóð en hún hélt sig alltaf til hlés. Það leyndi sér heldur ekki að amma hafði hreinan ímugust á hvers kyns valdi og hroka og þoldi ekki sýndarmennsku. Hún lét öðrum eftir að taka ákvarðanir um ytri málefni, að undanskildum þessum degi sem hún fór í sparifötin til að kjósa. Aldrei gaf hún upp hvaða stefnu hún aðhylltist fyrir utan það að segja, með glettnisblik í auga, að hún hefði kosið rétt.
Afstaða sem þessi er ekki vænleg til að ná árangri á sviði stjórnmála, njóta lýðhylli eða komast almennt til áhrifa. Til að öðlast slíka sigra þarf að hafa mikla trú á sjálfum sér og sterka framtíðarsýn. Íslensk alþýðumenning hefur ekki auðkennst af þeim þáttum. Karlar hafa þó staðið sterkari að vígi á valdasviðinu þótt vinnumenn hafi ekki fengið kosningarétt fyrr en hann kom í hlut kvenna. Málefnaleg umræða um stjórnmál held ég að hafi heldur ekki átt upp á pallborðið á íslenskum alþýðuheimilum. Slíkt tal tilheyrði lokuðum hópi þeirra sem fóru með völdin og hugsanlega kann skýringin á því hve stutt á veg stjórnmálaumræða er komin hérlendis að liggja í því hve fáir komu að þeim málaflokki þar til fyrir stuttu.
Núna stæra Íslendingar sig af stöðu jafnréttismála þótt karlar séu ennþá í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem valdið hafa. Konur bera ennþá þungann og hitann af barnauppeldi og heimilishaldi og eru því síður líklegar til metorða í atvinnulífinu og á sviði stjórnmála. Hugsanlega gætir ennþá áhrifa forveranna um að best sé að halda sig til hlés og trana sér ekki fram. Starfsskiptingin sem við lærum frá einni kynslóð til annarrar er líka ótrúlega lífseig og því má vera að það hvarfli ekki að þeim sem frelsi hafa til starfa utan heimilis að gefa það eftir.
Líkt og karlar voru tregir til að gefa eftir völd sín áður en konur fengu kosningarétt, gætir ennþá sömu tregðu við gera breytingar. Það liggur sennilega í mannlegu eðli að vilja helst ekki gefa eftir völd. Svo mikið er víst að herravaldið lifir enn góðu lífi ef marka má almennt áhugaleysi á að leggja af þann hvimleiða sið að nefna formenn í ríkisstjón ráðherra.
Kosningaréttur kvenna er tiltölulega nýr af nálinni. Mér finnst stutt síðan við amma höfðum engan slíkan rétt og kunnum ekkert fyrir okkur í stjórnmálafræðum. Okkur sveið hins vegar alltaf þegar litið var niður á okkur og komið fram við okkur eins og annars flokks fólk. Með fulltingi framsækinna og duglegra kvenna náði sú óánægja loks nægum hljómgrunni til að raddir okkar heyrðust og fundu samhljóm í pólitískri umræðu.