Þeir hjá QuizUp. Þeir hjá Facebook. Þeir í Kjarnanum. Þeir hjá Pinterest. Þeir hjá Landsbankanum. Þeir hjá Google. Þeir hjá Buzzfeed.
Það segir kannski margt um hversu langt við erum komin í jafnréttisbaráttu, að vilhalla karllæga vísunin til alls í kringum mig sé eitt það sem mér finnst hvað erfiðast í daglegu lífi. Mér er óljóst hvort fólk gerir raunverulega ráð fyrir því að þau sem reki þessi fyrirtæki séu einvörðungu karlar, eða hvort karlkyn sé einfaldlega sjálfgefna kynið í allri umræðu.
Fyrra tilfellið er einfaldara að leysa; við minnum einfaldlega á að ekki öll fyrirtæki samanstandi af einvörðungu strákum.
Vandamálið er óljósara í seinna tilfellinu. Það er tengt tungumálinu okkar, sem er mjög kynjað í samanburði við mörg önnur, til dæmis ensku. Þegar ég mana mig upp í að benda á kynjaða tilvísun, eins og „við erum búnir að leysa þetta vandamál“, felur fólk sig gjarnan á bakvið það að vísað sé til starfsmannanna. Eða stjórnendanna. Eða forritaranna. Eða verkfræðinganna. Eða læknanna. Eða framleiðendanna. Eða nemendanna. Sem séu allt karlkyns orð, og því eðlilegt að nota „þeir“.
Þetta er eitt af því sem gerir íslensku flókna; rétt þykir að nota það kyn sem nafnorðið bendir til, ekki kynið sem stendur að baki orðinu. „Ég lærði þetta af starfsfélaga mínum. Hann heitir Rebekka.“ Þetta er mjög ruglingslegt, og ég held að ég sé komin á þá skoðun að ég sé ósammála þessari málfræði.
Annað sem vekur athygli mína er að þrátt fyrir að einnig séu til kvenkyns nafnorð sem vísa almennt til fólks, þá stingur það frekar í stúf að vísa til kvenkyns. Þær í QuizUp. Þær sem eru í tölvunarfræði. Þær á Alþingi. Þær sem koma í kvöld. Þær sem vilja mjólk í kaffið rétti upp hönd. Þessar málsgreinar geta allar vísað í manneskjur, en máltilfinningin gefur til kynna að sérstaklega sé verið að ræða konur. Hvernig upplifum við til dæmis „allir velkomnir“ í samanburði við „allar velkomnar“?
Þessi hefð, og uppreisn mín gegn henni, veldur mér ákveðnum vandkvæðum í samskiptum við fólk. Ég skrifa málsgreinar, sem eru málfræðilega réttar væri ég að vísa í blandað kyn eða kvenkyn, en vegna málhefðanna um karllægar vísanir hljóma þær kengbognar. „Hver ættum við að velja?“, hljómar til dæmis eins og það vanti ja eða jar til að mynda hverja eða hverjar. Málsgreinin er hins vegar rétt ef hver vísar til kynjablandaðs hóps; „Hver kvennanna og karlanna ættum við að velja?“ – þótt hún hljómi ennþá bogin. Tökum svo aftur eftir muninum á því hvernig við upplifum „Hverjar ættum við að velja?“ í samanburði við „Hverja ættum við að velja?“ Hver þarf kynjadreifing hópsins að vera til að við leyfum okkur að vísa í hann með kvenkyni, í samanburði við hvenær við leyfum okkur að vísa í hann með karlkyni?
Ég finn að ég á erfitt með að ræða þetta opinberlega, vegna þess að þessi umræða um orðnotkun bliknar í samanburði við mörg önnur baráttumál. Þar með talið baráttumál íslenskra kvenna síðustu áratugi. Eins og baráttan fyrir almennum kosningarétti íslenskra kvenna – sem er mér svo fjarri að ég þekki enga sem man þá tíð að konur mættu ekki kjósa. Eða kvennafrídagskröfugangan gegn því að kyn fólks réði því hver laun þess væru. Sú barátta er mér ekki svo fjarri að ég þekki enga sem man hana, en nægilega fjarri til að ég finni ekki þörfina til að mæta árlega í kröfugöngu. #takkfyriraðhreinsatilmæður! Eða baráttan gegn því að klæðaburður geti undir nokkrum kringumstæðum réttlætt nauðgun. #drusluganga. Eða vitundarvakningin á orðræðunni sem gefur til kynna að það sé óæðra að gera eitthvað „eins og stelpa“. #likeagirl. Eða baráttan gegn hefndarklámi og dómum samfélagsins á líkama og hegðun kvenna. #freethenipple.
Þrátt fyrir að í þessu samhengi hljómi umræðan um ofnotkun karlkyns ábendingarfornafna lítilvæg, þá velti ég fyrir mér hversu mikil áhrif öll þessi tilvísun í „þá“ hefur. Ég hef áhyggjur af því að oftar en rétt er, drögum við þá ályktun að þau sem vísað er til með karlkyns nafnorðinu, séu karlkyns. Ef svo er, þá stuðlar þessi orðræða að áframhaldandi hugmynd okkar um að karlmenn standi að baki efnahag heimsins.
Er það nægilegt áhyggjuefni til að óska eftir því að við höfum orðaval okkar í huga, og séum meðvituð um að við erum ekki öll þeir?