Litla stelpan snýst í kringum mömmu sína í eldhúsinu, mamma er að ganga frá eftir matinnn og gera klárt nestið sem á að hafa með á engjarnar á eftir. Þar liggur þurrt hey sem á að fara að taka saman, en mikið voðalega gengur þetta allt hægt fyrir sig, þolinmæðin þrýtur og sú stutta þýtur út. Úti er suðvestan gola og sól, á leiðinni heyrir hún lagið Sippoghoj með Ragga Bjarna hljóma í sjómannaþættinum í útvarpinu og afi raular með, afi er harmonikkuleikari og kann öll lög.
Fyrir utan stendur Farmal Cub tilbúinn með hjólasleðann aftan í, það er langur trévagn á fjórum járnhjólum, búið er að hlaða á hann brigðum til að breiða á sáturnar þegar búið er að setja heyið upp, svo eru hrífur og heykvíslar. Eftir langan tíma, að stelpunni finnst, er allt tilbúið, hún, mamma, afi og litli bróðir tylla sér á vagninn en pabbi keyrir. Þessi vagn er ekki uppáhaldsfarartækið á holóttum sveitaveginum og hávaðinn maður, stelpan er alveg viss um að það heyrist alla leið út í þorpið, sem er fimm kílómetra í burtu, þegar þau fara af stað.
Þessi stelpa er mjög ákveðin og aðal keppikeflið er að vera jafnoki karlanna í vinnu sem og öðru hvað sem tautar, þessu heldur hún mjög til streitu eftir því sem hún eldist, hún púar gjarnan á skoðanir þeirra og hugsanlegan yfirgang. Þetta er einskonar hefnd fyrir kynsystur hennar til forna, en stelpan hefur lesið fullt af bókum sem fjalla um hvað konur í þá daga máttu þola, höfðu stundum ekki málfrelsi og tillögurétt á eigin heimili, oft verður hún rosalega reið fyrir þeirra hönd og alveg gengur það fram af henni að feðurnir réðu því hverjum dæturnar giftust, eins gott að það þekkist ekki lengur, þá gengi nú eitthvað á. Stelpan á einn stóran draum, að verða bóndi og eiga 500 ær eins og frændur hennar á innsta bænum í sveitinni, en þann draum hefur hún bara fyrir sig.
Árin líða, grunnskóla lýkur en lengra nær námið ekki vegna heilsubrests foreldranna, þá tekur skóli lífsins við, stelpan vinnur við búið næstu árin, stundar fiskvinnu með á sumrin og sláturhúsvinnu á haustin, hvort tveggja er í þorpinu litla, mest öll hýran fer í púkk til að bæta vélakost og stækka búið. Svo er byggt nýtt íbúðarhús, sama haust og flutt er í það flytur stelpan til tilvonandi eiginmanns í næstu sveit. Á þeim bæ er blandað bú og komin tími á að byggja upp, og þau búa í haginn fyrir sig og framtíðina.
Nú er þessi stelpa miðaldra kona sem á þrjú börn, þrjú tengdabörn og þrjú barnabörn. Ýmis ný áhugamál komu til sögunnar sem hún sinnti eftir bestu getu ásamt bústörfunum, svo sem allskonar handverk, ljóðagerð og að taka myndir. Einnig gegndi hún í trúnaðarstörfum í sveitinni.
Þessi stelpa lærði það í skóla lífsins að ekki rætast allir draumar, en með því að vinna vel og hlúa að því sem maður hefur, er hægt að hafa það mjög gott, grasið er ekki endilega grænna hinu megin við lækinn.