Ég skrifa þessa grein í minningu móður minnar sem ávallt reyndi að leiða okkur systkinunum fyrir sjónir hversu helgur réttur kosningarétturinn er.
Á kirkjuþinginu í Róm um 500 eftir Krist var þráttað um hvort konur skyldu yfirleitt teljast til manna og með eins atkvæðis mun var það að lokum samþykkt. Um fjórtánhundruð árum síðar var samþykkt að konur á Íslandi fengju kosningarétt. Sú barátta sem því fylgdi var mikil og ekki öllum að skapi því miður bæði hjá konum og körlum. En þetta tókst og kosningarétturinn öðlaðist gildi árið 1915.
Móðir mín sem var fædd árið 1899 ræddi oft þessi tímamót og eitt það fyrsta sem hún reyndi að innprenta í okkur krakkana þegar við höfðum aldur til var að við mættum aldrei vanvirða kosningaréttinn. Þið skuluð alltaf kjósa þegar tækifæri býðst. Þessi réttur kom ekki af sjálfu sér, hann er heilagur og það eru grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif á lífið í kringum sig og taka afstöðu til ýmissa mála með þessum eina litla krossi sem settur er á kjörseðilinn þegar svo ber undir.
Þegar ég var unglingur fannst mér þetta tal um kosningaréttinn bara tuð og ekkert sérstakt að konur hefðu kosningarétt, bara sjálfsagður hlutur, enda búin að fá þennan rétt fyrirhafnarlaust. Það var ekki fyrr móðir mín fór að segja frá þeim kjörum sem hún ólst upp við í koti norður á Ströndum, þar sem barist var um hvern bita af hörku, að mér fór að skiljast hvað í orðum hennar fólst. Foreldrar hennar voru bláfátækt alþýðufólk sem hröktust í húsmennsku milli bæja þar til að lokum að þau fengu varanlega ábúð við nyrsta haf. Mér var seinna sagt að afi hefði fengið kotið af því hann hafði svo góða söngrödd og var gerður að forsöngvara í kirkjunni. Ekki svo slæm listamannalaun eða hvað.
Ef konur ætla sér að komast áfram í lífinu til jafns við karla verða þær að mennta sig og láta meira í sér heyra, sagði hún oft gamla konan en hún var líka alveg með það á hreinu að það þarf meira en menntun til að láta gott af sér leiða fyrir land og lýð. Það þarf að hafa að hafa að leiðarljósi jöfnuð og réttlæti sem leiðir til betra samfélags öllum til handa og þá er besta leiðin til að hafa áhrif að nýta sér kosningaréttinn.
Kvennafrídagurinn 1975 var ótrúlegt ævintýri. Þar sýndu konur að þær geta staðið saman óháð stjórnmálaskoðunum og störfum. Í kjölfarið var Kvennalistinn stofnaður og náði góðri kosningu til Alþingis og í sveitastjórnarkosningum. En það sem stóð upp úr á þessum árum var að 1980 bárum við gæfu til að kjósa okkur kvenforseta og var hún jafnframt fyrsta konan í heiminum sem kosin var lýðræðiskosningu til forseta. Svona gátu góðir hlutir gerst á Íslandinu okkar góða.
Að framansögðu er ljóst að margt hefur áunnist síðan konur fengu kosningarétt en meira þurfum við að gera og láta vel í okkur heyrast. Hvað veldur því að konur eru til dæmis bara 40% á þingi núna og 25,5% í stjórnum fyrirtækja sem greiða laun og skráð eru í hlutafélagaskrá? En svo mikið er víst að minnkandi kosningarþátttaka síðustu ára er mikið áhyggjuefni og eitthvað verður að gera, því kosningarétturinn er einskis virði ef hann er ekki nýttur. Kosningarétturinn á að vera okkur helgur réttur, við skulum alltaf bera virðingu fyrir honum og skoðunum annarra og kjósa samkvæmt okkar bestu sannfæringu.