Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Sigþrúður Guðmundsdóttir
Sigþrúður Guðmundsdóttir
framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins

Að gjörnýta kosningaréttinn

Kosningarétturinn er mér afar mikilvægur enda höfðu konur á Íslandi ekki haft kosningarétt í nema rétt um 70 ár þegar ég mátti kjósa fyrst (ég held reyndar að mér hafi fundist það býsna langur tími þá). Ég er meðvituð um það að ekki hafa allir möguleika á taka þátt í kosningum og meðal annars þess vegna hef ég lagt áherslu á að nýta kosningaréttinn minn. Vissulega ekki alltaf vandræðalaust, ég hef  lent í veseni vegna skilríkjaleysis með týnt ökuskírteini og vegabréfið einhvers staðar í erlendu sendiráði. Ég er ekkert sérstaklega góð í því að vera á réttum stað á réttum tíma og það hefur þurft að ræsa út fólk á síðustu stundu fyrir brottför mína til útlanda svo ég geti kosið. En ég held að ég hafi alltaf náð að kjósa þegar ég hef viljað það. Og einu sinni að auki, þegar ég vildi það hreint ekki. Ég er nefnilega ekki heilsteyptari en svo að þrátt fyrir dálæti mitt á kosningaréttinum hef ég misnotað hann og notað atkvæðið mitt sem vinargreiða. Ég er nokkuð viss um að ég muni ekki gera það aftur, þess vegna finnst mér óhætt að segja frá þessu.

Þennan vetur bjó ég í litlum bæ úti á landi og var oft á þvælingi til höfuðborgarinnar. Veður gátu verið válynd, iðulega hugaði ég ekki nóg að veðri og færð áður en ég lagði af stað og lenti í vandræðum uppi á heiði. Oftast bjargaði ég mér sjálf úr ógöngunum en tvisvar sinnum þurfti ég aðstoð og hringdi þá í vin minn sem bjó í nágrenninu. Hann átti stærri bíl en ég og hafði betra lag á vetrarakstri. Hann sótti okkur mæðgur og bauð okkur gistingu þar til veðrinu slotaði, kom okkur svo aftur í bílinn og honum af stað. Ég kvaddi hann með þeim orðum að hann skyldi ekki hika við að hafa samband þegar hann lenti í svipuðum vandræðum, ég skyldi þá bjarga honum eins og hann mér. Hann lofaði að hringja þegar það kæmi upp. En svo hafði hann samband um vorið og benti á hið augljósa; að ég myndi auðvitað aldrei bjarga einum eða neinum af ófærum vegum en tilkynnti í leiðinni að ég gæti endurgoldið greiðann á annan hátt. Mér datt strax ýmislegt misjafnt í hug, sérstaklega þar sem hann tók fram að mér myndi ef til vill ekki hugnast þessi leið, en að stundum þyrfti fólk að gera fleira en því líkaði. Svo bað hann mig að skjótast og taka þátt í prófkjöri hjá flokki sem við vissum bæði að var hreint ekki minn. „Við þurfum að koma að manni!“ sagði hann. Ég maldaði í móinn, fannst ég hálfpartinn vera að ofgjalda björgunarafrekin á heiðinni en lét mig á endanum, brunaði í næsta bæ, setti  tiltekinn mann í efsta sæti og svo þau sem mér fannst að gætu hugnast mér í hin sætin, enda hafði ég engu lofað um þau.

„Okkar maður“ sigraði prófkjörið, hann varð í framhaldinu ráðherra og við fengum brú yfir fjörðinn, sem gerði það reyndar að verkum að ég þurfti ekki að þvælast yfir heiðina oftar en mér sýndist. Síðan þá hef ég átt atkvæðið mitt sjálf, enda ekki farið heiðina nema í rjómablíðu og rennifæri.