Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Sigrún Eðvaldsdóttir
Sigrún Eðvaldsdóttir
konsertmeistari

Saman í átt að jafnrétti

Hér sit ég og hugleiði kosningarétt kvenna í 100 ár.

Í fljótu bragði finnst manni eins og þessi réttur hafi alltaf verið til staðar en sagan segir að svo hafi alls ekki verið.

Það þurfti að berjast fyrir þessum sjálfsögðu mannréttindum á sínum tíma og maður getur varla gert sér í hugarlund hvers konar valkyrjur þurfti til að fá þessu grettistaki lyft. En það þarf alltaf baráttu til að breyta hugsunargangi fólks virðist vera. Það þarf hugsjón til þess að standa á rétti sínum og sýna óbilgirni.

Síðan fæðist maður inn í ákveðinn tíðaranda og tekur hlutum sem sjálfsögðum þangað til að maður getur farið að hugsa sjálfstætt og getur farið að rýna í þjóðfélag sitt og sögu mannkyns.

Þrátt fyrir að ég sé mjög ópólitísk þenkjandi, og myndi lýsa sjálfri mér sem mannvini sem tjáir sig í gegnum listsköpun og þjóna listagyðjunni tónlist, þá eru nokkur mál sem snerta mig beint í þjóðfèlaginu og ég væri tilbúin til þess að berjast fyrir. Jafnrétti er eitt þeirra.

Ef að maður leiðir hugann að jafnrétti kynjanna í dag þá eigum við enn svo langt í land. Maður nánast fyrirverður sig að vera hluti af þjóðfélagi sem greiðir körlum hærri laun fyrir sömu störf og konur. Það er erfitt að sjá svonalagað á prenti. Einhvers staðar hef ég lesið að í atvinnuviðtölum þá meti karlmenn sig mun hærra í launakröfum heldur en konur gera. Hvaðan kemur þetta viðhorf? Verður maður ekki ætla að það komi úr uppeldinu?

Verandi kvenkyns fiðluleikari þá eru auðvitað staðreyndir í sögunni varðandi þátt kvenna í tónlist á liðnum öldum sem ég verð að kyngja. Konur fengu ekki að stunda nám í tónlist að staðaldri, þær áttu að vera heima á meðan karlmenn fengu tækifærin. Og þær konur sem fengu að stunda nám og höfðu hæfileika áttu samt erfitt uppdráttar. Konur fengu ekki inngöngu inn í sinfóníuhljómsveitir þótt þær væru jafngóðir og jafnvel betri hljóðfæraleikarar en karlmenn, vegna þess að þær voru konur. Og hversu oft þurfti ekki kona að gefa frama upp á bátinn til þess að geta sinnt búi og börnum. Þetta er ennþá staðreynd í dag.

Ég þarf ekki kvarta samt persónulega. Ég var alin upp á heimili þar sem faðir minn var mesti kvenréttindamaður sem èg hef þekkt og frá honum fékk ég þá hugsun í veganesti í lífinu að konur gætu allt  sem þær vildu og ætluðu sér og að enginn karlmaður hefði roð í klára og vel gefna konu.

Og ég held að ég geti sagt með vissu að aldrei hefur það verið mér þröskuldur sem fiðluleikari að vera kona, ég hef alltaf fengið þau tækifæri sem mér bar og ég hafði unnið fyrir. En við skulum ekki leiða hugann að því hvort hvort jafnrétti ríki á mínum vinnustað og hvort karlmaður fái hærri laun en ég. En ennþá eiga kvenkyns hljómsveitarstjórar erfitt uppdráttar. Við eigum enn langt í land. Ég hef lært að konur komast ekki áfram án stuðnings annarra kvenna. Og við konur verðum að vera sterkar og samstíga og við megum ekki vera hræddar við gagnrýni karlmanna.

En ég veit að karlmenn verða að styðja konurnar. Annars gerist ekki neitt.

Þegar frú Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan sem kosin var forseti á Íslandi þá klæddi móðir mín sig upp á þessu fagra sumarkvöldi og tók mig með sér í bæinn þar sem við stóðum ásamt fjölda fólks fyrir utan hús Vigdísar og hylltum hana. Það var ógleymanleg stund. Þá var pabbi á sjónum og eldri systir mín í sveit. Og það var ólíkt móður minni að breyta út af vananum og gera svona hvatvísan hlut. Sennilega hefur móðir mín og fjöldinn allur af konum fundið sigur í hjartanu sem aldrei fyrr. Það var gaman að vera til þetta kvöld.

Megi framtíð okkar allra vera björt og falleg og megum við stíga stórum og ákveðnum skrefum í átt að jafnræði, þar sem virðing og manngæska er í hávegum höfð.