Ég man eftir því hvað afi minn, fæddur 1902, bar mikla virðingu fyrir þeim réttindum sem Íslendingar áunnu sér á 20. öldinni – réttinum til að ráða sínum málum sjálfir, fullum kosningarétti og jöfnum rétti til menntunar. Hann lagði ríka áherslu á að móðir mín og móðursystur tækju stúdentspróf ekki síður en synirnir. Í augum afa, eins og svo margra af hans kynslóð, var kjördagur hátíðisdagur. Hann fór ávallt prúðbúinn á kjörstað, í sparifötum, stífburstuðum skóm og með virðulegan hatt.
Mér finnst íhugunarvert að þótt konum hafi á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar verið tryggð formleg réttindi til að kjósa, sækja þá menntun sem hugur þeirra stóð til og gegna öllum embættum, liðu fimm til sex áratugir þar til samfélagsgerðin gerði þeim kleift að nýta réttindin til fulls. Íslensk kona varð til að mynda fyrst ráðherra árið 1970. Konum sem tóku stúdentspróf fjölgaði vissulega jafnt og þétt, en á hálfrar aldar starfstíma Háskóla Íslands 1961 voru aðeins 5% kandídata við skólann konur.
Stofnun Háskóla Íslands 17. júní 1911 átti sér nokkuð langan aðdraganda og konur áttu mikilvægan þátt í undirbúningi að stofnun skólans, m.a. með því að beita sér fyrir fjársöfnun. Framtak kvenna var í raun mjög merkilegt, ekki síst því á þessum tíma hafði engin íslensk kona sótt háskólanám. Ólafía Jóhannsdóttir skrifaði 1895 um mikilvægi þess að háskólamenntun væri í boði á innlendum vettvangi til að koma að fullu gagni fyrir íslenskt samfélag, og hún víkur einnig að réttindum kvenna til náms.
Sama ár og Háskóli Íslands var stofnaður samþykkti Alþingi lög um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta. Þegar skólinn tók til starfa var Kristín Ólafsdóttir ein kvenna í hópi 45 nemenda sem hófu nám. Þegar Kristín lauk embættisprófi í læknisfræði 1917 höfðu konur á Íslandi eldri en fertugar fengið kosningarétt.
Kristín stundaði framhaldsnám á Norðurlöndum og átti farsælan feril sem læknir, á Ísafirði og í Reykjavík. Hún var auk þess virk í félagsmálum og stundaði ritstörf. Kristín þýddi ævisögu Marie Curie, sem hlaut Nóbelsverðlaun fyrst kvenna 1911, einmitt árið sem Kristín innritaðist í nýstofnaðan Háskóla Íslands. Þótt Marie Curie hafi verið afkastamikill vísindamaður og frumkvöðull, er athyglisvert, að konur í Frakklandi fengu ekki kosningarétt fyrr en 1945.
Kvenstúdentum við Háskóla Íslands fjölgaði hægt fyrstu áratugina. Af 460 stúdentum sem útskrifuðust fram til ársins 1940 voru aðeins sjö konur. Á hálfrar aldar afmæli skólans, 1961, minntist Ármann Snævarr rektor sérstaklega á að frá stofnun skólans hefðu aðeins 5% kandidata verið konur. Árið 1987 urðu konur í fyrsta sinn meirihluti nemenda, og í dag eru þær um tveir þriðju hluti stúdenta. Þær eru í meirihluta á öllum námsstigum, þar á meðal í doktorsnámi. Margrét Guðnadóttir var fyrsta konan til að gegna embætti prófessors við Háskóla Íslands, skipuð við Læknadeild 1969. Nú eru konur um 30% prófessora.
Ég held að konur á mínum aldri og yngri hafi almennt litið á kosningarétt og menntun sem sjálfsagðan hlut. Það er samt ekki fyrr en með okkar kynslóð að samfélagsgerðin gerir konum fært að nýta sér til fulls þau réttindi sem baráttukonur og karlar tryggðu okkur löngu fyrr. Það hefur verið áhrifaríkt að verða vitni að vaxandi þátttöku kvenna í stjórnmálum og á Alþingi á örfáum áratugum. Þar hefur haldist í hendur aukin menntun, vaxandi þáttur kvenna í vísindum og virk þátttaka í stjórnmálum. Ég man vel þegar lög voru sett um kynjahlutföll í nefndarskipan á vegum ríkisins og opinberra stofnana. Ég var þá prófessor í Lyfjafræðideild háskólans og hafði efasemdir um að þetta væri rétta leiðin til að auka jafnrétti því mér fannst oft niðurlægjandi að vera beðin um að sitja í nefndum „því það vantar konu.“ Menn voru reyndar misklaufalegir við slíka málaleitan! Ég sá hins vegar eftir á að þetta hafði verið mikilvægt skref af hálfu löggjafans. Framlag kvenna til mikilvægra mála var dýrmætt og til lengdar veitti þessi þátttaka konum aukið sjálfstraust og tækifæri til að láta til sín taka. Í dag þykir nefndarskipan ekki eðlileg nema hlutur kvenna og karla sé jafn. Með sama hætti held ég að framtak löggjafans til að auka þátt kvenna í stjórnum fyrirtækja hafi verið tímabært og muni leiða til góðs.