Hún er nuddar auma upphandleggina en kveinkar sér ekki. Hún hafði fyrir löngu lært að það var ekki til neins. Enda var að mörgu að huga. Ekki bara skepnunum. Kaffið var tilbúið og grauturinn var tekin að þykkjast á eldavélinni. Hún hafði meira að segja bakað brauð. Þeir færu að koma inn sársvangir eftir nætursetuna. Enn bar ekkert á kálfinum.
Hún settist við borðið með kaffibolla. Kökkurinn í hálsinu ágerðist. Kannski færu þeir ekkert úteftir í dag? Það er að segja ef að kálfurinn kæmi ekki? Hann myndi líklega ekki treysta neinum öðrum til að taka á móti kálfinum. Og varla færu þeir án hans? Eða hvað?
Hún hugsaði ekki oft til móður sinnar enda hafði það ekkert upp á sig. Nema kannski í atvikum sem þessu. Þær höfðu þá allavega verið tvær konur á heimilinu áður. Hún vissi að hann reyndi sitt besta en sumt gat hann ekki – eða hinir skilið. Móðir hennar hafði margt oft sagt henni að gefast ekki upp. Þess vegna reyndi hún að útskýra þetta fyrir honum. Kökkurinn gerði henni erfitt fyrir. Hann hlustaði í fyrstu skiptin. Leyfði henni að tala og kinkaði kolli einu sinni eða tvisvar. Einn af vinnumönnunum hafði meira að segja sagt henni að hann hefði borið þetta á borð við sveitastjórann í kirkjunni fyrir nokkru en fengið bágt fyrir. Nú vissi hún ekki hvort kökkurinn stafaði af sársauka yfir að hafa fengið hann til að tala við sveitastjórann eða afþví að hann hafði hæðst að honum. Og allt fyrir ekkert. Hann hafði ekki sagt orð þegar hann kom til baka. Rétti henni kandíspoka eins og þegar hún var lítil.
Hann reyndi þó.
En það breytti engu.
Þeir færu allir í dag. Uppábúnir með „hugvitið“ sitt undir sparihöttunum. Hún sæti eftir heima með bólgna fingur eftir þvott og tilgangslausar hugsanir. Hennar álit skipti ekki neinu máli. Hún sá það ef hún reyndi að útskýra þetta fyrir fleirum en heimilisfólkinu að fólk varð vandræðalegt. Flóttalegt til augnanna. Fannst hún kjánaleg og með mikilmennskubrjálæði. „Ekki hugsa svona mikið,“ hafði konan á næsta bæ sagt vinalega og klappað henni á handarbakið eins og hún gerði gjarnan við börn og gamalmenni. Hún vissi að þegar hún snéri sér við hvísluðu þau öll um hana. Vorkenndu honum að eiga „svona“ dóttur. Þó hún vissi að hún hefði lesið sér meira til og vissi í raun betur hvernig þessum málum var háttað heldur en flestir sveitungar hennar.
Það skipti ekki máli.
Hún fengi ekki að kjósa.
Hún var kona.