Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Birna Ketilsdóttir Schram
Birna Ketilsdóttir Schram
ritstjóri Blær.is

Þakklát formæðrunum

Ég er afar þakklát fyrir að hafa fæðst í landi sem er í fremstu röð þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Ég er þakklát því að hafa alist upp umkringd sterkum kvenfyrirmyndum sem hafa mótað mig, rutt brautina og kennt mér að nýta þau tækifæri sem því miður ekki allar konur í heiminum fá að njóta. Ég er þakklát formæðrum mínum sem börðust fyrir þeim rétti sem í dag virðist vera svo sjálfsagður, kosningarétti kvenna og kjörgengi til Alþingis. Formlegum rétti til þess að taka þátt í að móta samfélagið sem við búum í, að láta í okkur heyra og hafa áhrif. Þessi réttur er svo sjálfsagður að við pælum varla í honum nema á tímamótum sem þessum. Og allt of margir nýta sér hann ekki einu sinni þegar tækifæri gefast til.

Fyrir hundrað árum snerist jafnréttisbaráttan um þessi grundvallarréttindi sem hafa á langri leið fært okkur það samfélag sem við búum við í dag.  Margt hefur áunnist í jafnréttisbaráttunni en fullkomnu jafnrétti er enn ekki náð. Frá því ég man eftir mér hef ég verið meðvituð um að réttindi kynjanna þurfi að vera jöfn en ég hef aldrei upplifað jafnréttisbaráttuna eins sterkt og á undanförnum vikum. Það er eins og það hafi orðið einhver vakning. Við yngri kynslóðin höfum notið góðs af því sem á undan er gengið en við höfum einnig innleitt nýja strauma og viðhorf og miðlað því áfram til þeirra sem eldri eru. Það kom bersýnilega í ljós með nipplubyltingunni sem fór fram á samfélagsmiðlum fyrr í vetur þar sem ungar konur um allt land tóku valdið í sínar eigin hendur. Það var ótrúlegt að finna samtakamáttinn og  átta sig á því hvað samstaðan getur fleytt okkur langt.

Baráttan heldur því áfram þótt hún sé á öðrum vígstöðvum nú en fyrir hundrað árum. Markmiðið er hins vegar það sama; að konur njóti sömu tækifæri og karlmenn án sýnilegra og ósýnilegra hindrana. Formæður okkar náðu árangri og færðu okkur réttindi sem skipta okkur máli og samfélag sem vert er að búa í en það er líka mikilvægt að minnast þess að þær færðu okkur baráttuandann. Þær sýndu okkur að við eigum að berjast fyrir því sem við trúum á. Þess vegna megum við ekki sofna á verðinum. Við eigum að taka við kyndli þeirra og láta raddir okkar heyrast. Byltingar, stórar sem smáar, færa okkur á endanum nær og nær fullkomnu jafnrétti.

Þegar ég lít til baka er ég stolt af formæðrum mínum sem börðust fyrir jafnara samfélagi. Ósk mín er sú að afkomendur mínir eigi einn góðan veðurdag eftir að líta til baka og vera stolt af okkur; formæðrum sínum sem lögðu sitt af mörkum til betra samfélags þeim til handa.