„Leggjum niður kosningarétt kvenna og látum karlana kjósa sig sjálfa“, hvæsti ég grimmilega í hópi vinkvenna fyrir aldarfjórðungi eða svo. Umræðan hófst vegna fyrirhugaðra hátíðahalda kringum 75 ára afmæli kosningaréttarinar og okkur þótti sem ástandið í jafnréttisumræðunni og staða kvenna í stjórnmálum gæfi ekki mikið tilefni til hátíðahalda. Nær væri að ögra umræðunni og horfast í augu við deyfðina og doðann í róttækri jafnréttisbaráttu og þá afneitun sem okkur þótti ríkja í samfélaginu um allt misrétti og helst af öllu misrétti kynjanna. „Er þetta ekki allt komið?“, var viðkvæðið og „konur verða nú bara sjálfar að sækjast eftir stöðum og embættum og pólitískum áhrifum“ eða jafnvel að „það væri nú bara við konur sjálfar að sakast ef þær væru ekki ánægðar með sitt hlutskipti“.
Rauðsokkurnar voru löngu horfnar, Kvennalistinn ekki lengur að ögra pólitíkinni, grasrótarpólitík kvenna frá níunda áratugnum var horfin – það var einfaldlega ekkert að gerast. Tilfinning mín var að komin væri kerfisbundin þöggun á þeim kerfisvanda að jafnrétti kynjanna væri langt í frá í höfn og þess vegna lét ég framangreind orð falla og málaði þau meira að segja á kröfuspjöld. Síðan mættum við þrjár vinkonur í hátíðagöngu 75 ára afmælisins með kröfuna á lofti um aflögn kosningaréttar; við skyldum láta blessaða piltana um þetta því konur væru hvort sem er valdalausar nema rétt til að kjósa þá.
Við slógum ekki í gegn þennan daginn enda var það ekki ætlunin, heldur þvert á móti. Aðgerð okkar var ögrun og áminning um að formleg réttindi eru okkur gagnlaus ef við notum þau ekki sem áhald til að halda áfram og sækja lengra fram heldur en fyrri barátta hafði fleytt okkur. Þannig er ég ávallt reiðubúin til að hneigja höfuð mitt í auðmýkt fyrir afrekum þeirra sem börðust fyrir kosningarétti kvenna en best heiðrum við minningu þeirra og málstaðinn með áframhaldandi djarfri sókn, ekki afmælum og hátíðahöldum og sú er skoðun mín enn á aldarafmælinu.
Hins vegar var mér ekki alvara að vinna að afnámi kosningaréttarins – þvert á móti. Kosningar eru mér heilagar, kjördagar eru fagnaðarstundir og í hvert skipti sem ég neyti kosningaréttar í mikilvægum málum, ríkir fögnuður í hjarta mínu. Sannast sagna vil ég að bæði ég og þjóðin æfum lýðræðið við öll hugsanleg tækifæri og kjósum um öll helstu mál. Innsti kjarni kosningaréttarins er nefnilega í mínum huga lýðræðistrúin á það að hver atkvæðisbær kona sem og karl séu fullkomlega fær um að vega og meta mál og taka afstöðu í lokaafgreiðslu. Ef kosningaréttur er aðeins til að kjósa flokka, fer mesti lýðræðisbjarminn af hugmyndinni í mínum huga.
Virðing mín er svo mikil að ég fer ekki á kjörstað nema á hreinum bíl – rétt eins og hann faðir minn sem ók stoltur fyrir Kvennalistann á kjördag fyrir norðan á sínum tíma og sagði brosmildur að það væri það minnsta sem hann gæti gert fyrir móður sína, eiginkonu og dætur. Móðir hans fæddist án kosningaréttar og eiginkonan með kosningaréttinn sem hún nýtti alltaf en sagði stundum að hún segði engum frá hvert hennar atkvæði hefði farið, slíkur væri réttur sinn. Þá vissi ég reyndar alltaf að í það skiptið hefði hún kosið öðruvísi en pabbi.