Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
fjárfestir, framkvæmdastjóri og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu

Ingibjörg Sólrún undir koddanum

Það er sól, komið sumar og afar hátíðlegt yfir að litast. Íslenski fáninn blaktir í gjólunni og mamma og pabbi í hátíðarskapi. Pabbi komin með bláa Sjálfstæðibindið sitt og mamma í sumarkjólinn því nú skal haldið á kjörstað. Ekki hvarflaði að mér að réttur okkar til að kjósa hefði verið eitthvað annað en sjálfsagður hlutur í lýðræðisríki. Það er ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á að svo var ekki og að Ísland hefði verið með fyrstu ríkjum í heiminum að koma á kosningarétti fyrir almenning.  

Ég var forvitin og áhugasamur krakki og drakk í mig stemminguna og fylgdist spennt með kosningasjónvarpinu eins og um íþróttakappleik væri að ræða. Fannst lífið soldið skrítið, vorum við rík eða fátæk, vorum við hægra íhald eða kommúnistar? Átti Völlurinn að vera eða fara, hvað var fólk alltaf að ganga í kulda og trekki til Keflavíkur og af hverju fékk forseti Íslands ókeypis húsnæði? Ég hafi ekki mikinn skilning á samhengi hlutana en stemmingin fór ekki framhjá mér. Orð eins og óðaverðbólga, verkföll og mjólkurskortur var partur af mínu lífi en ekki skildi ég hvað þetta þýddi allt.  

Þrátt fyrir ungan aldur fór kvennabaráttan ekki framhjá mér. Ég varð ung afar ákveðin kvenréttindakona og var kvennafrídagurinn þann 24. október 1975 mikil upplifun og gríðarlega eftirminnilegur. Stemmingin og andrúmsloftið þennan dag breytti sýn minni og það var ekki aftur snúið. 10 ára gömul sá ég lífið með alveg nýjum augum. Ég var fljót að tileinka mér mikinn baráttuhug og hafa foreldrar mínir þurft að hlusta á margar dramatískar ræður af minni hálfu um jafnrétti og bræðralag. Ástríða mín gekk svo langt að ég lagði til allskyns breytingar á verklagi og skipulagi heimilisins. Aumingja faðir minn sem er mikill ljúflingur var allt í einu komin með bandvitlausa dóttir sem heimtaði jafnrétti, að hann skyldi sko læra að elda, þvo og sjá um heimilið jafnt við móður mína.  

Jafnréttisbaráttan náði svo inn í skólakerfið þegar við æskuvinkonurnar masseruðum á fund skólastjórans og kröfðumst þess að fá að fara í smíði jafnt við strákana sem hugsuðu okkur þegjandi þörfina því ekki voru þeir spenntir fyrir handavinnu frekar en við. Árin eftir 1975 voru mikil umbótaár og margt breyttist. Mæður okkar fóru í auknum mæli út á vinnumarkað og sóttu nám í kvöldskólum. Sjálf var ég afar stolt af móður minni sem einhenti sér í nám og lauk tveimur gráðum þrátt fyrir að vera í vinnu, með 4 börn og stórt heimili. Slíkt hefði verið óhugsandi áratugina á undan.

Um leið og ég fékk kosningarétt leit ég á það sem heilaga skyldu mína að mæta og kjósa og varð umræðan á heimilinu oft afar lífleg og oftast virtist vera að við værum öll með sitthvorar skoðunina. Ýmsar táknmyndir fóru að læðast inn á heimilið og fannst mér faðir minn vera heldur til of íhaldssamur og ekki taka breytingum fangandi. Eitt sinn fyrir sveitarstjórnar kosningar ákváðum við systkinin að stríða honum og tókum mynd af Ingibjörgu Sólrúnum, sem þá fór fyrir nýstofnuðum Reykjavíkurlista, og settum hana undir koddann hans. Í von um að með að sofa á nýjum hugmyndum myndi íhaldssemin víkja út fyrir nýjum hugmyndum. Faðir okkar hafði verulega gaman af þessu brölti og gengum við oft fram af honum með löngum ræðum um nútímann og allskyns uppátækjum eins og t.d. að líma á útidyrahurðina kosninga skilaboð. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir á stjórnmálum á heimilinu og smá stríðni lærðum við þó að virða skoðanir hvers annars og kosningaréttinn.

Forfeður okkar sem efuðust um hæfi kvenna og vinnumanna til að taka þátt í stjórnmálum höfðu í raun ekkert að óttast. Konur og menn hafa tekið þátt í stjórnmálum undanfarin 100 ár og margsannað er að fjölbreytileiki í aðkomu að stjórnun og áhrifum hefur margfalt betri útkomu í heild og til langs tíma en einsleitni. Okkur Íslendingum hefur borið gæfa til þess að búa til og byggja upp gott samfélag. Partur af því að mínu mati er þátttaka kvenna í atvinnulífi, í stjórnun samfélagsins í gegnum kosningaþátttöku og þáttöku í stjórnmálum. En betur má ef duga skal og þurfa konur í auknum mæli að taka sér sess á sviði stjórnmála og menn að víkja og búa til það rými sem þarf til að halda í og tryggja fjölbreytileikann.