Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ásta Björg Pálmadóttir
Ásta Björg Pálmadóttir
sveitarstjóri Skagafirði

Besta landkynning þjóðarinnar

Aðeins 100 ár eru síðan konur á Íslandi fengu að kjósa. Karlmenn höfðu einir kosningarétt fram til ársins 1915 en þá var gerð veruleg breyting á, konur fengu þá kosningarétt og einnig allir sem orðnir voru 25 ára og skulduðu ekki sveitarstyrk. Baráttan um kosningaréttinn hafði þá staðið yfir frá árinu 1885. Kosningaréttur var einfaldlega ekki talinn til almennra mannréttinda líkt og nú, á hann var litið sem tæki til að velja góða löggjafa. Menn voru að prófa sig áfram með fulltrúalýðræði og fóru, kannski eðlilega, varlega í sakirnar.

Þegar kosningaréttur kvenna til sveitastjórnar var til umræðu á Alþingi árið 1881 sýndist þingmönnum sitt hverjum. Ætli þeim hafi ekki fundist það skrítin tilhugsun að hafa konur í bæjarstjórn.

Konur máttu berjast fyrir réttindum sínum og ef telja á til einhverja eina konu sem stóð upp úr í réttindabarattu 19. aldarinnar þá var það Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Með ótrúlegri þrautseigju lagði hún grunninn að nýrri hugsun og vakti kvenfólk til vitundar um stöðu sína á tímum þegar þær nutu lítilla sem engra réttinda á við karla. Eftir Bríeti ef m.a. haft: „Það er vonandi að konur sjái nú sjálfar að hér er um heill og réttindi þeirra að tefla og að þær sitji ekki lengur aðgjörðalausar og horfi þegjandi á. Það er vonandi að þær finni sannleika málsháttarins: Þekking er veldi.“ En lítið var um skólamenntun fyrir stúlkur á þessum árum þar sem hvorki Latínuskólinn í Reykjavík, prestaskólinn, læknaskólinn né gagnfræðskólinn á Möðruvöllum tóku við konum. Það breyttist ekki fyrr en á 20. öldinni, en árið 1904 byrjaði Latínuskólinn í Reykjavík að hleypa konum inn í skólann.

Á 20. öldinni kom fram kona sem sýndi ótrúlega þrautsegju en Vigdís Louise Finnbogadóttir var kjörin fjórði forseti Íslands þann 29. júní 1980, fimm dögum fyrir sextán ára afmælið mitt. Hún var fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Íslendingar brutu blað í mannkynssögunni með því að velja konu sem forseta lands síns fyrstir allra og þótti íslensk þjóð hafa sýnt nokkra dirfsku með því. Óhætt er að segja að sögulegt kjör Vigdísar Finnbogadóttur og farsælt starf hennar, jafnt heima sem heiman, hafi reynst ein besta landkynning sem íslenska þjóðin hefur fengið. Fleiri þjóðir en áður vildu meira um eylandið í Norðurhöfum vita og treysta vináttubönd.

Ég man þetta vor vel. Þrír karlar og ein kona voru í framboði. Ég fylgdist með kosningabaráttunni af kostgæfni, drakk í mig allt sem sagt var um konuna Vigdísi, las blöð og fylgdist með öllum umræðuþáttum í sjónvarpi sem voru reyndar töluvert færri en tíðkast nú til dags. Mig langaði svo til að geta kosið þessa konu sem átti ekki sjö dagana sæla og enginn frambjóðandi hefur í forsetakosningum á Íslandi mátt þola eins ítarlega skoðun á einkalífi sínu og hún. Ástæðan var að hún var kona, einhleyp og einstæð móðir. Mátti Vigdís svara ótrúlegustu spurningum um það efni. Mótframbjóðendur hennar töldu allir rétt að á Bessastöðum sætu hjón. Forsetafrúin hefði í nógu að snúast og ef hennar nyti ekki, hver ætti þá að skipuleggja veislurnar, var spurt. Einnig  heyrðist að konur væru veikgeðja og einkum gerði ástúð þeirra í garð annarra þær óhæfar til að takast á við það vandasama og yfirvegaða verkefni að hlutast til um opinber málefni og heildarhagsmuni fjöldans. Í blaðagreinum sáust setningar eins og „Við látum okkur ekki detta í hug að gera æðsta býli Íslendinga að einsetubæli, það væri niðurlæging“.   

Mér fannst þetta ósanngjörn framkoma gagnvart henni og ómakleg. En Vígdís stóð þetta af sér og það fór svo að hún var kjörin forseti, fékk 34 prósent atkvæða. Hún gegndi embætti forseta Íslands í fjögur kjörtímabil eða allt til ársins 1996. Það var afar stoltur kjósandi sem kaus Vigdísi Finnbogadóttur þegar ég hafði aldur til.