Ég átti afskaplega skemmtilegan afa. Hann sagði okkur kryddaðar sögur úr sveitinni, frá því er hann var krakki, á einstaklega spennandi hátt, t.d. af forvitna hestinum sem fannst grasið grænna hinum meginn við girðinguna. Hann spilaði líka endalaust við okkur, t.d. Manna, Marías og Löngu vitleysu, og leyfði mér að keyra Volkswagen-bjölluna sína í Grímsnesinu mörgum árum áður en ég náði bílprófsaldri. Hann skemmti sér konunglega við þá tilhugsun að „karlarnir“ á bæjunum héldu að hann væri drukkinn undir stýri þegar þeir sæju bílinn rykkjast og hlykkjast áfram eftir rauðum, bugðóttum veginum, sem var, sem betur fer, fáfarinn „hvunndags“ í þá daga.
Amma var stilltari í fasi og hafði meira gaman af að tala um ljóðlist, sérstaklega við pabba, og kunni enda ljóð við hvert tækifæri. Hún spilaði líka á orgel og söng með, einkum sálma, en sérstaklega „Blunda baddið góa“ fyrir litlu systur mína.
Í ljósi þess hvað hann afi minn var skemmtilegur og fullkominn í mínum huga, kom hann mér óþægilega á óvart um hvítasunnu þegar ég hef verið u.þ.b. 5 ára (1954) ... eða 6. Amma og mamma stóðu að baki glæsilegum hvítasunnudags-hádegisverði heima á Núpi (Austurvegi 7 á Selfossi); auk ömmu og afa og minnar fjölskyldu voru þarna staddir gestir úr Reykjavík, Geir Zoëga vegamálastjóri (afi var vegaverkstjóri í Árnessýslu), kona hans að mig minnir og kannski fleiri. Það er etið og spjallað, og fylgist ég ekkert sérstaklega með, fyrr en ég heyri að afi minn segir: „Þegiðu kona, ég er að tala“ ... ekkert höstuglega, heldur bara eins og ekkert væri eðlilegra, og ekki man ég til að umræður hafi orðið neitt vandræðalegar í framhaldi af því ... kannski augnabliks hik ... ? En krakkanum, mér, fannst að hann afi hefði ekki átt að sussa á hana ömmu, sem aldrei sagði neitt nema eitthvað góðlegt og gáfulegt. Ég þekkti þá ekki orðið karlremba og var reyndar ekki að velta mér lengi upp úr þessu atviki, enda afi fljótur að ná fyrri sessi í huga mér með skemmtilegheitum sínum.
Það var ekki fyrr en eftir andlát ömmu, árið 1968, að ég rifjaði þetta hvítasunnumatarboð upp við mömmu, sem var undrandi á að ég skyldi muna eftir því, hvað þá ósmekklegum orðum afa. En auðvitað er það einmitt þeirra vegna að man ég eftir boðinu... og að ég fór að veita ömmu meiri athygli.
Þegar amma lést var ég 19 ára og allt að gerast ... '68-kynslóðin að springa út, og oft hugsaði ég til ömmu minnar á þessum árum, að nú hefði hún átt að vera ung og njóta sín með minni kynslóð og vera metin að verðleikum, en hún hugsaði mikið um andleg efni, var Nýalssinni, kunni margt fyrir sér í jurtalækningum, var snillingur í hannyrðum og unni bókmentum og tónlist. Því miður hafði ég ekki vit á að spyrja ömmu hvenær hún kaus fyrst (var fædd 1886), en frá því að ég man fór hún alltaf frekar snemma dags að kjósa í sínum glæsilegu peysufötum. Engum sagði hún þó hvað hún kaus.
Við systur ólumst upp við þá skoðun mömmu og pabba, að manni beri skylda til að fara á kjörstað, annað sé vanvirðing við þá, sem barist hafa fyrir kosningarétti og mannréttindum (og jafnvel látið lífið fyrir) hvar sem er í heiminum. Ef fólk vill ekki kjósa eða getur ekki ákveðið sig, á það að skila auðu ... en alltaf að nota réttinn til að kjósa. Ég skrifa enn undir það og óska okkur öllum til hamingju með daginn.