Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera alin upp af kvenskörungi og með sterkar konur allt í kringum mig. Mín æskuupplifun í tilverunni var sú að konur bæru hitann og þungann af því sem virkilega skipti máli.
Móðir mín, Halldóra Einarsdóttir frá Kaldrananesi í Mýrdal, var framan af minni æsku heimavinnandi húsmóðir með öllu því sem tilheyrir. Stórt heimili var útgjaldafrekt og störfin sem ættmóðirin innti af hendi fóru smátt og smátt að læðast út fyrir veggi heimilisins líka.
Hæfileikum hennar voru engin takmörk sett, ofan á önnur heimilisstörf saumaði hún á okkur fötin, innréttaði, flísalagði, teppalagði, smíðaði og skar út í tré, svo eitthvað sé nefnt. Umfram allt kom hún til skila því sem mestu máli skipti í uppeldinu, að láta gott af sér leiða með hjartahlýju og náungakærleika.
Hún vildi allt fyrir alla gera, fyrir jólin bakaði hún laufabrauð og kökur, saumaði föt og sendi út á land til þeirra sem hún vissi að áttu um sárt að binda. Hún var sú sem fólk leitaði til og ég man ekki eftir æskuheimilinu mínu öðruvísi en iðandi af lífi. Eldhúsborðið stóð sjaldan autt, nema þá helst yfir blánóttina. Þar var aldrei setið auðum höndum, annaðhvort var verið að bera veitingar í gesti eða sinna mikilvægum verkefnum, saumaskap eða kennslu. Mamma kenndi okkur systkinunum heima fyrstu þrjú skólaárin, þrátt fyrir að hafa verið sjálf í skóla aðeins til 12 ára aldurs.
Jafnrétti er hugtak sem tekur yfir mörg svið mannlegrar tilveru. Jafnrétti kynjanna er eitt af þessum sviðum. Önnur sem má nefna snúa t.d. að litarhætti, trúarbrögðum, kynhneigð, aldri, fötlun og svo mætti lengi telja.
Að alast upp hjá sjálfstæðum baráttujaxli eins og henni móður minni sem lét ekkert stoppa sig hefur sjálfsagt haft mikil áhrif á viðhorf mitt til jafnréttis kynjanna. Ég stóð í þeirri trú og stend enn að okkur konum jafnt sem körlum séu allir vegir færir bara ef við stöndum saman með viljann að vopni!
Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að hlutirnir gerast ekki að sjálfu sér og við eigum mörgum að þakka að haldið verður upp á það þann 19. júní að 100 ár eru frá því að lögleiddur var réttur íslenskra kvenna, 40 ára og eldri til kjörgengis og kosninga.
Íslenskir karlmenn fengu kosningarétt rúmum 70 árum fyrr eða árið 1843, með takmörkunum þó. Kosningarétturinn var til handa þeim sem höfðu náð 25 ára aldri, áttu eignir og skulduðu ekki skatt til ríkisins.
„Takmarkanir á kosningarétti frá upphafi lýðveldisbaráttu má rekja til þess að verið var að prófa nýtt stjórnkerfi. Á einveldistímum kom mestallt, sumstaðar allt ríkisvald að ofan frá konungum eða furstum til embættismanna þeirra. Konungar sóttu réttlætinguna til hefðar eða til Guðs. Fulltrúalýðræði þar sem handhafar ríkisvalds sóttu valdatilkall sitt til almennings var nýjung. Mörgum þótti hún djörf og jafnvel glannaleg. Því væri eðlilegt að einskorða kosningaréttinn við þá sem voru taldir ábyrgir og greindir.
Jafnaðarsjónarmið hafa skipt máli líka því vinnuhjú með kosningarétt hefðu getað aukið kosningarétt auðugra stórbænda margfalt. Eðli mannsins er einnig þannig háttað, að láta ógjarnan af þeim völdum sem hann hefur þegar öðlast.’’ (Gunnar Karlsson)
Kosningaréttur fólks er réttur til að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Hann hefur jafnt og þétt verið víkkaður út eftir því sem lýðræðislegar umbætur hafa átt sér stað um víða veröld.
Konur um heim allan hafa frá örófi alda þurft að berjast fyrir réttindum sínum. Með samstöðu, náungakærleika, baráttuanda og aukinni menntun fyrir alla nálgumst við takmark okkar.
En það eru ekki bara konur sem hafa þurft að berjast fyrir réttindum sínum, í sumum heimshornum er ástandið hræðilegt og brotið er á mannréttindum fólks á hverjum degi. Mig langar að slá botninn í þennan stutta pistil með því að hvetja ykkur kæru Íslendingar til þess að rísa upp og láta ykkur varða réttindi allra þeirra sem minna mega sín. Við getum lagt okkar af mörkunum, munið viljinn er allt sem þarf!