Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Guðrún Jónsdóttir
Guðrún Jónsdóttir
forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar

Frelsið

Ég er fædd árið 1957. Þá var hlutverk kvenna að mestu hefðbundið og konur yfirleitt heimavinnandi. Á kvennafrídaginn 1975 var ég svo sautján ára nemi í Menntaskólanum við Tjörnina og fór niður á Lækjartorg til að minna á hversu mikilvægar konur væru á vinnumarkaði – tímarnir voru að breytast.

Áður voru konur bundnar í fjötra síns kyns. Menntunarkostir voru fáir og húsmóðurstarfið eitt beið handan við hornið.  Á 19. öld var sú kona heppin sem lærði að lesa og enn minni líkur voru á að hún fengi að læra að skrifa. Langamma mín var fædd upp úr miðri 19. öld. Þegar hún fékk að kjósa leit hún ekki á það sem sjálfsagðan hlut. Hún gladdist yfir að vera álitin jafnvíg körlum til að leggja línur varðandi stjórnun landsins sem var nú loksins innan seilingar, svo lengi sem eiginmaðurinn heimilaði henni að fara á kjörstað. Sjálfur reið hann þangað í sínu fínasta pússi, sem konan hans hafði saumað.

„Þetta var tíðarandinn“ er sagt, en fyrir margar konur hefur tilveran verið eitt stórt fangelsi og jafnvel þrælkunarbúðir. Á 20. öld varð breyting í jákvæða átt, fræðslulög tóku gildi í upphafi aldarinnar og konur fengu kosningarétt 1915. Árið 1980 eignuðumst við okkar dáða kvenforseta Vigdísi Finnbogadóttur, en margur hafði áður talið slíka upphefð konu óhugsandi. Ef við lítum nær okkur í tíma má sjá að æ fleiri konur fá sæti í stjórnum fyrirtækja, þó að reyndar hafi þurft að setja lög til að flýta fyrir þeirri þróun.  En ánægjulegt er að konum hefur fjölgað mun meira í háskólanámi en körlum og nýta sér það að námsleiðirnar skipta hundruðum.

Frelsið hefur hefur mikið vægi í lífi okkar og það er mikilvægt að eiga val. Að geta kosið samkvæmt eigin samvisku er ein birtingarmynd þess. Einnig að geta tekið þátt í þjóðfélagsumræðu, beita gagnrýnni hugsun og vera sjálfstæð. Við vitnum í orð Conchitu Wurst sem sagði að fólk ætti að geta gert það sem það vill svo lengi sem það skaði ekki aðra með gjörðum sínum.

Hömlur á frjálsa hugsun geta hins vegar verið með ýmsum hætti og erfitt að vara sig á þeim. Ég var fyrir stuttu stödd í tískuverslun þegar ung stúlka kom inn og var vart búin að líta í kringum sig þegar hún spurði: „Hvaða sídd er í tísku núna?“ Spurningunni var svarað með viðeigandi hætti og hún valdi sér pils. Hún virtist ekki hafa neina skoðun á því hvaða sídd færi henni best, hún lagði frekar lögmál tískunnar til grundvallar. Við þetta má bæta að í tímaritum sem ætluð eru aðallega konum eru föt og snyrtivörur mikill meiri hluti innihaldsins. Það efni hlýtur því að höfða til stórs hóps kvenna. Hvert er svigrúm þess sem ekki ástundar gagnrýna hugsun, hvernig stendur hann að vígi gagnvart markaðsöflunum?

Árið 2015 er sjálfsagt að njóta þess einstaklingsfrelsis að kjósa. Sjálf kýs ég eftir málefnaskrá og mannkostum en ekki kyni frambjóðenda. Að vísu er veruleikinn oftast sá að eftir kosningar hreppa formenn flokkanna æðstu völd og þeir eru oftast karlkyns. Varaformaðurinn er hins vegar kvenkyns. Skyldi kona fá stuðning í fyrsta sæti meirihluta flokkanna í næstu kosningum? Mér finnst ég bera ábyrgð því ég er hluti af samfelldri keðju. Í langri röð hafa konur gengið götuna á undan mér. Ég hugsa til þeirra með þakklæti og virðingu um leið og ég velti fyrir mér hvernig líf þeirra verður sem á eftir mér koma.