Nú þegar 100 ár eru frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt er gott að líta yfir farinn veg og velta fyrir sér jafnréttisbaráttunni. Ég leiði hugann að því hvað er gott við að vera kona á Íslandi og einnig hvað má betur fara. Þetta eru merk tímamót þar sem vert er að staldra við og velta fyrir sér hvar við erum stödd í dag og hvernig við komumst þangað.
Fyrir konu af minni kynslóð er hugsunin um kosningabaráttu kvenna oft svo fjarlæg. Þó er hún mjög ofarlega í huga mínum þegar að kosningum kemur. Ég er svo innilega þakklát fyrir þá óeigingjörnu baráttu sem átti sér stað, sem í dag hefur áhrif á lífsgæði mín. Þar af leiðandi nýti ég kosningaréttinn minn alltaf því ég er meðvituð um að hann kom ekki að sjálfum sér.
En þó er ég alin upp á tímum þar sem ekkert er sjálfsagðara en að konur kjósi. Í hreinskilni sagt finnst mér mjög undarlegt að hugsa til þess að svo hafi ekki verið í eina tíð. En það er líka margt sem mér finnst sjálfsagt sem virðist því miður ekki vera það. Ekki ennþá. Þrátt fyrir að við höfum náð langt hér á Íslandi er jafnréttisbaráttan ekki nálægt því að vera búin og enn langt í land. Samfélag okkar er enn fullt af fordómum og mismunun sem á ekki rétt á sér.
Þetta er ekki bara spurning um breytingar út á við heldur snýst þetta einnig að miklu leyti um breytingar innra með okkur. Um leið og allir hafa breytt hugsunarhætti sínum er takmarkinu náð. Mér finnst t.d. margir hafa mjög svo sterka mynd af því hvað er kvenlegt eða karlmannlegt að gera. Ég sjálf er hjúkrunarnemi í Háskólanum á Akureyri og er því í þessari „týpísku” kvennastétt. En hver ákvað að svo væri? Hvaðan kemur þessi mýta að konur séu hjúkkur og karlar séu læknar? Þetta eru ekki sömu störfin og kyn þitt segir ekkert um hvað þú velur.
Þetta er ein af þessum hugmyndum sem er við lýði en þarf að eyða og við byrjum á okkur sjálfum. Ég á bekkjarbræður sem eiga eftir að verða alveg jafn góðir hjúkrunarfræðingar og ég, ef ekki betri, og ég þekki einnig konur sem eru frábærir læknar.
Ég hef fengið að heyra frá bæði íslenskum og erlendum vinum hvað það séu mikil forréttindi fyrir konur að búa á Íslandi; að við höfum það svo gott. Einnig hef ég verið spurð af hverju íslenskar konur eru enn að berjast fyrir jafnrétti þegar við erum nú þegar búnar að ná svo langt og fá svo miklu meira en konur í mörgum öðrum löndum. Mitt svar er að það sé vissulega margt gott við að búa á Íslandi. Baráttan hefur skilað mörgum sigrum en er svo sannarlega ekki búin fyrr en við erum öll orðin jöfn. Jafnrétti ætti auðvitað að vera alveg sjálfsagt mál og þá þyrfti ekki að berjast fyrir því en svo er því miður ekki.
Það að við stöndum framarlega í jafnréttismálum hérlendis lít ég ekki á sem forréttindi heldur sjálfsögð mannréttindi sem ætti ekki að þurfa að berjast fyrir. Það skiptir ekki máli af hvaða kyni eða kynþætti við erum eða hver kynhneigð okkar er. Við erum öll fólk sem búum saman í samfélagi og skoðanir okkar allra skipta jafn miklu máli. Þetta er ekki flókið!