Átta ára gömul flutti ég til Ítalíu með móður minni og hrósunum byrjaði að rigna yfir mig. „Þú munt fá allt sem þú vilt í lífinu með þessi bláu augu og þetta ljósa hár“. Þessa setningu, sem átti að vera hrós í minn garð og móður minnar, átti ég erfitt með að skilja því þrátt fyrir ungan aldur fannst mér þetta fáranleg staðhæfing og mér þótti miður að ég skyldi metin eftir norrænu útliti mínu frekar en hæfileikum mínum, persónuleika eða metnaði. Öll árin mín á Ítalíu upplifði ég það að vera talin af „veikara kyninu“ og sem unglingur tók ég meðvitaða ákvörðun um að það gæti ég ekki sætt mig við. Ég hugsaði mikið um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, skipti ótal oft um skoðun en var þó alltaf ákveðin í því að ætlaði að verða sjálfstæð.
Ísland varð í mínum huga nokkurs konar paradís þar sem ég fengi frelsi til að blómstra og vera ég sjálf. Að vera ég sjálf var í fyrsta lagi að leyfa mér að sætta mig við eigin tilfinningar og í öðru lagi að lifa óhrædd og óháð samfélagslegri kúgun sem getur fylgt því að vera kona, og lesbía í þokkabót. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið mín paradís sem barn og sé það enn að miklu leyti þá veit ég líka að við eigum enn langt í land í okkar jafnréttisbaráttu. Jafnréttisbaráttan snýst ekki einungis um jafnrétti milli kynja, hún er ekki svört og hvít, hún er mun litríkari en svo. Hún er lífstíll og heilbrigður hugsunarháttur samfélaga þar sem jafnræði og virðing ríkir óháð kyni, kynþætti, kynvitund, kynhneigð eða kyntjáningu.
Kosningaréttur er ein af grundvallarforsendum lýðræðis en þrátt fyrir að lagalegum áföngum sé náð, eins og kosningarrétti kvenna, þýðir það alls ekki að baráttunni sé lokið. Fyrir um hundrað árum var tekið skref í rétta átt í lýðræðislegri þróun landsins en skrefin eru mun þyngri þegar kemur að því að ná framþróun í viðhorfsbreytingum í samfélaginu. Við erum reglulega minnt á það að fengin réttindi eru ekki endanleg lausn. Við sem lítum á okkur sem upplýst nútímasamfélag erum enn að bjóða konum landsins að meðaltali upp á 18% lægri laun en körlum. Við erum enn föst í svokölluðum hefðbundnum kynjahlutverkum og enn að nota setningar eins og „Ekki vera svona mikil kerling“ til að lýsa hugleysi eða viðkvæmni og „Þú tókst þessu sem sannur karlmaður!“ til að hrósa fyrir þor eða dugnað (jú eða svokallaða karlmennsku).
Ég viðurkenni að ég hugsa afar sjaldan um að tækifæri mín séu takmarkaðri en hjá gagnstæðu kyni þannig að ég dreg þá ályktun að ég hljóti að lifa lífinu sem sannur karlmaður. Reyndar getur verið að ég sé búin að læra að umkringja mig mínum líkum, þ.e.a.s. fólki sem hefur svipaðar skoðanir og lífssýn og ég. Þetta er fólkið sem ég umgengst daglega og það gerir það að verkum að ég er frekar ósnert af fordómum og fáfræði í samfélaginu. Þrátt fyrir það hrekk ég líka stundum upp og er minnt á það að við eigum enn margt óunnið þegar kemur að jafnréttismálum. Því að öðlast aukin réttindi ber að fagna en því fylgir líka ábyrgð. Við berum ábyrgð gagnvart þeim konum sem á undan okkur komu og börðust fyrir virkri þátttöku í þróun samfélagsins og við þurfum að halda baráttunni áfram og standa vörð um okkar mannréttindi um ókomna tíð.
Áfram jafnrétti, áfram fjölbreytni, áfram frelsi!