Í forsetakjörinu árið 1980 var kosningaaldurinn 20 ár en sjálf var ég þá illu heilli aðeins 19 ára. Ég mátti því ekki taka þátt í að kjósa til forseta, þegar kona var í framboði í fyrsta sinn á Íslandi, það voru mér talsverð vonbrigði.
Vigdís var sjálfkjörin árið 1984 svo að ég gat ekki heldur kosið hana þá. En fjórum árum síðar vildi svo heppilega til að hún fékk mótframbjóðanda. Þá loks skyldi ég fá að kjósa hana!
Það var þó ekki þrautalaust. Á þessum tíma, árið 1988, vorum við eiginmaður minn nefnilega við nám í San Francisco. Ekki kom þó til greina að sleppa því að kjósa. Ég hafði uppi á ræðismanni Íslands, sem reyndist vera í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð fá okkur. Honum fannst þetta mikið tilstand af litlu tilefni - bæði fyrir okkur en kannski ekki síður fyrir hann sjálfan - því Vigdís væri algerlega örugg um sigur. Þessi rök höfðu ekkert vægi í mínum huga; hann skyldi vinsamlega gera viðeigandi ráðstafanir því við værum á leiðinni.
Við fórum því hópur Íslendinga í sjö-manna bíl í ökuferð í Kaliforníufylki til þess að hitta ræðismanninn og leggja okkar lóð á vogarskálarnar í einverjum minnst spennandi kosningum sögunnar.
Þegar á hólminn var komið var enga byggingu af neinu tagi að sjá við uppgefið heimilisfang heldur stóðu þar yfir einhvers konar framkvæmdir á lóðinni. Ræðismaðurinn fannst að lokum í vinnuskúr. Hann spurði okkur hvaða ofurframbjóðandi þetta væri, sem Vigdísi forseta stæði slík ógn af að við teldum þessa fyrirhöfn nauðsynlega. Þegar hann komst að því að við kunnum varla nein deili á mótframbjóðandanum féll honum allur ketill í eld.
En atkvæðin skiluðu sér og ég gat glaðst - og gleðst enn - yfir því að hafa loksins fengið að kjósa Vigdísi. - Ég tek þó fram að ég hef enga vissu fyrir því hvorn frambjóðandann ferðafélagarnir kusu!
Ég er alin upp við að á kjördag dragi maður fram sparifötin og taki athöfnina hátíðlega. Ég kappkosta að kjósa í hverjum þeim kosningum sem ég hef rétt til að taka þátt í og hef hvatt dætur mínar til að gera það líka. Það er ekki alltaf svo að hvert atkvæði ráði úrslitum kosninga, en hvert atkvæði er um leið mikilvæg táknræn stuðningsyfirlýsing við kosningaréttinn, sem ræður úrslitum um hvernig samfélagi við búum í.