Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Kristín Pétursdóttir
Kristín Pétursdóttir
nemi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands

Kosningar og jafnrétti á Íslandi

Ég er 25 ára gömul en frá því ég öðlaðist kosningarétt hefur þrisvar verið blásið til kosninga. Það má vel vera að stjórnmál hafi verið óvenju atburðarík á þessum stutta tíma en mín upplifun hefur hingað til verið sú að íslensk pólitík sé ekkert annað en sirkus.

Mín fyrstu kynni við kosningaréttinn voru 2007, árið fyrir hrun. Ég sat á skólabekk í Verzlunarskóla Íslands, skóla sem mér líkaði mjög vel í og átti þar fjögur frábær ár. Ekki veit ég hvort að mikið hafi breyst á þeim fimm árum sem hafa liðið frá minni útskrift, hlutirnir gerast hratt í nútímasamfélagi og því má alveg eins gera ráð fyrir róttækum breytingum, en á þeim tíma voru Verzlingar oft bendlaðir við Sjálfstæðisflokkinn. Mín kenning er hins vegar sú að þeir sem aðhylltust flokkinn hafi einfaldlega verið háværari en við hin. Sjálfstæðisflokkurinn hafði í það minnsta töluverð áhrif á mína fyrstu upplifun af kosningaréttinum. Það tíðkaðist nefninlega að fyrrnefndir háværir stuðningsmenn flokksins væru fengnir til að hringja í alla þá nemendur sem þeir þekktu, eða þekktu einhvern sem þeir þekktu, og bjóða pizzu, bjór og rútuferð á kosningastað fyrir að nýta sér kosningaréttinn. Auðvitað voru allir upplýstir í leiðinni um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn væri besti kosturinn. Sjálf ólst ég upp á heimili þar sem Sjálfstæðisflokkurinn var óvinsæll og það hafði, og hefur eflaust ennþá, áhrif á mína skoðun. Þessi aðferð flokksins við að safna atkvæðum fór í taugarnar á mér og ég fann að áhugi minn á að kynna mér málefni flokkanna minnkaði, frekar en að aukast. Ég nýtti mér ekki kosningaréttinn það árið.

Efnahagshrunið skall á ári síðar og hafði gífurleg áhrif á íslenskt samfélag. Sviptingar í stjórnmálum hér á landi hafa verið töluverðar síðan þá, sem hefur líka haft neikvæð áhrif á mína upplifun af stjórnmálum. Eftir menntaskóla flutti ég erlendis og lagði mig sérstaklega fram við að forðast íslenska fréttavefi. Ég missti því af kosningum 2009 þar sem íslenska þjóðin refsaði þeim sem voru taldir bera ábyrgð á efnahagshruninu. Það þurfti þó ekki lengri tíma en fjögur ár til að fyrirgefa allar syndir. Ég fylgdist vel með síðustu kosningabaráttu, hlustaði á fulltrúa flokkanna rökræða helstu baráttumálin og ákvað að nú skyldi ég taka vel upplýsta og málefnalega afstöðu. Það reyndist mun erfiðara en ég bjóst við. Mér fannst flokkarnir tala í hringi, allir með tölu. Ég var staðráðin í að nýta mér loksins kosningaréttinn og stóð við það en niðurstaða mín var samt sem áður sú að íslensk pólitík snúist um að klekkja á andstæðingnum, frekar en vinna að betra samfélagi.

Mín upplifun af jafnréttisbaráttu kynjanna er blessunarlega sú að um hana ríki meiri samstaða en hægt er að finna í pólitík á Íslandi. Ég er heppin að búa í landi þar sem ég hef ekki upplifað mismunun vegna þess að ég er stelpa. Það er sárt að hugsa til allra þeirra kvenna í heiminum sem búa við frelsisskerðingu og óvirðingu. Ég er þakklát hverri einustu konu og hverjum einasta einstakling sem hefur lagt sitt af mörkum í jafnréttisbaráttu kynjanna. Nú vil ég jafnrétti allra. Ég vil að börn, fátækir, fatlaðir, eldri borgarar og útlendingar fái sömu tækifæri og virðingu og við hin. Ég er viss um að ég, sem kona, hafi ekki upplifað óréttlætið sem þessir hópar hafa upplifað og því vil ég beina athyglinni að þeim. Jafnrétti fyrir alla.