Í menntaskóla tók ég þátt í félagsstarfi, í háskólanum tók ég þátt í háskólapólitíkinni í Röskvu ásamt því að stofna Femínistafélag Háskóla Íslands og nokkrum árum eftir útskrift bauð ég mig fram til Stjórnlagaþings.
Á kjördegi klæði ég mig upp og ég fer að kjósa. Jafnvel þótt ég skili auðu þá skiptir mig máli að geta tekið þátt, með því að taka þátt lýsi ég yfir skoðun minni, ég fæ að hafa áhrif. Eitt atkvæði getur skipt sköpum, en það getur líka skipt engu máli. Ég get haft áhrif á það hvernig samfélagi ég bý í og það sem meira máli skiptir; hvernig samfélagi ég vil búa í. Það gleymist gjarnan, á fjögurra ára kjörtímabilum, að við þurfum að hugsa til lengri tíma, til framtíðarinnar, til samfélagsins sem við viljum skilja eftir fyrir börnin okkar.
Minn áhugi á stjórnmálum og þátttöku kom ekki af sjálfu sér og var mér alls ekki eðlislægur. Það var fólk víðs vegar í mínu nærumhverfi sem hafði áhrif á það að ég tæki þátt en það var allt mjög tilviljanakennt. Ég hef sterka réttlætiskennd og þess vegna er ég eflaust þar sem ég er í dag. Ég vil hafa áhrif og reyni í sífellu að finna nýjar leiðir til að hafa áhrif á mitt nærumhverfi og heiminn sjálfan. Það er nauðsynlegt að sjá út fyrir sjálfan sig og þó það geti verið erfitt að leggja egóið til hliðar, þá breytum við ekki heiminum með neitt annað en auðmýkt og samkennd að leiðarljósi.
Þegar konur fengu kosningarétt á Íslandi, breyttust íslensk stjórnmál. Þá komust ýmis mál á döfina sem skiptu konur verulegu máli. Svo stjórnmálin gangi upp þá þarf að taka allskonar sjónarhorn til greina og þegar litið er framhjá stórum hluta samfélagsins mun samfélagið ekki ganga upp, allavega ekki nema fyrir lítinn hluta þess og það er ekki samfélag sem ég styð.
Á Íslandi er kosningaþátttaka ein sú mesta í heiminum, en síðustu ár hefur hún farið ört minnkandi. Sérstaklega á meðal ungs fólks, bæði karla og kvenna. Eflaust eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á þetta. Mín tilfinning er sú að okkur sé ekki að takast nægilega vel að vekja áhuga hjá ungu fólki á stjórnmálum og þátttöku. Stjórnmál hafa áhrif á allt okkar daglega líf, en því er ekki komið nægilega til skila og því sér margt ungt fólk, þar með talið nýjir kjósendur, ekki tilganginn í því að taka þátt.
Áhugi á stjórnmálum er ekki eðlislægur, það þarf að kenna einstaklingum frá unga aldri að þátttaka þeirra skipti máli og það þarf að gefa þeim tækifæri til að taka þátt. Með kosningaréttinum þarf að fylgja fræðsla til að kveikja áhuga og vilja einstaklingsins til að nýta hann. Með því að sinna ekki þeirri skyldu, sem sannarlega er okkar skylda, erum við sjálf að útiloka stóran hluta okkar eigin samfélags frá því að stjórna og hafa áhrif á það hvernig samfélagi við búum í og viljum búa í. Það er ekki samfélag sem ég hef áhuga á því að búa í.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi í febrúar 2013. Sáttmálinn veitir börnum víðtæk réttindi og tryggir þeim sérstaka vernd, umönnun og rétt til fræðslu og þátttöku. Við eigum ekki einungis að fræða börn um tungumál, stærðfræði og sögu. Við eigum einnig að fræða þau um réttindi sín og um möguleikann á því að hafa áhrif á sitt nærsamfélag. Þó þau fái ekki formlegan kosningarétt þar til þau eru 18 ára þá felst mikið gildi í því að fá fræðslu og möguleika á að hafa áhrif.
Börn læra og leika sér, og alveg eins og við, þá hafa þau skoðanir á því hvað þau vilja læra og hvar þau vilja leika sér. Með því að innleiða Barnasáttmálann í starf skóla og leikskóla fá börn ekki aðeins fræðslu um réttindi sín, heldur eru þau sjálf þátttakendur í sínu samfélagi og læra frá unga aldri hvernig þau geta haft áhrif á sitt nærsamfélag og sitt líf.