Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Anna Kristjánsdóttir
Anna Kristjánsdóttir
vélstýra

Hvað um launajafnréttið?

Það var löngu fyrir hrun sem kona ein sem ég þekki og baráttumanneskja um jafnrétti kynjanna kom reið útaf fundi um nýgerða kjarasamninga sem þá hafði verið samið um og átti ekki falleg orð um kynsystur sínar: „Það er vonlaust að ná einhverjum árangri í launabaráttunni á meðan helmingur kvennanna hér lítur á launin sín sem vasapeninga á meðan karlinn þrælar fyrir heimilinu.“

Svo satt, svo satt. Þegar vinkona mín lét þessi orð falla voru komin 85-90 ár frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi og aðeins fimm árum skemur sem kosningaréttur kvenna og karla taldist hafa verið jafn svo ekki virðist kosningarétturinn hafa gefið mikið í budduna á þessum 95-100 árum. En hvað þá um launajafnréttið? Það er liðin rúm hálf öld frá því lög um jöfn laun kvenna og karla voru samþykkt frá Alþingi og enn voru konur háðar launum eiginmanna sinna fjörutíu árum síðar.

Ég horfi aftur í tímann til erfiðleika formæðra minna. Tvær þriggja af langömmum mínum sem lifðu nógu lengi til að sjá kosningarétt kvenna verða að veruleika áttu illa ævi. Sem lesblindur hreppsómagi gat móðuramma föður míns vart dregið til stafs er hún gekk til prests fyrir ferminguna á árunum fyrir 1860. Hún var því dæmd til vinnukonustarfa vestur í Eyrarsveit og hefði vafalaust endað sem slík og öllum gleymd ef ekki hefði verið fyrir þá sök að hún eignaðist dóttur með uppgjafa bónda sem var orðinn ekkill og hóf að búa með honum í koti einu úti við sjóinn. Með föðurömmu minni var kominn græðlingur til seinni tíma kynslóðar. Eftir lát ömmu minnar var langamma mín einmana og efast ég um að hún hafi haft rænu á að nýta sér nýfenginn kosningarétt sinn, en hún lést ekki fyrr en 1927, þá orðin 84 ára gömul og aftur orðin hreppsómagi á sinni sveit, þá flestum gleymd og vafalaust þótt sveitarsjóði til ama. Önnur langamman sem lifði bjó hinsvegar góðu búi ásamt maka sínum í nágrenni Reykjavíkur og undi hag sínum vel og varð flestra kerlinga elst, varð 96 ára gömul. Sú hin þriðja átti einnig erfiða ævi en átti nokkur góð ár í skjóli barna sinna við ævikvöld.

Föðuramma mín náði sennilega aldrei að kjósa til Alþingis. Öfugt við móður sína var hún talin skarpgreind að mati prestsins, giftist vel en lést ung, einungis 34 ára gömul vestur í Stykkishólmi. Móðuramman stóð sig betur. Hún átti eigið hús ásamt eiginmanni sínum efst á Skólavörðuholtinu og kaus íhaldið af miklum móð að sögn sona sinna sem lifðu hana, en lést samt löngu fyrir aldur fram, einungis 48 ára gömul.

Dóttir hennar og móðir mín var engin baráttumanneskja í verkalýðsmálum, en hún gerði samt sitt. Ég hefi ekki hugmynd um hvað hún kaus í kosningum, en veit þó að faðir minn studdi Vigdísi Finnbogadóttur í kosningunum 1980. Ég skil hann vel. Ég gerði það líka. Móðir mín vann sem aðstoðarverkstjóri við saltfiskvinnslu BÚR, trúnaðarmaður verkakvennafélagsins Framsóknar og stóð með sínu fólki. Það gladdi mig svo þegar ég stóð á sviði eins vinstrisinnuðu andstöðuhópanna 1. maí og hélt mína ræðu að sjá foreldra mína nálægt ræðupallinum og gleypa í sig sérhvert orð og fagna orðum mínum rétt eins og mörgum árum yngri róttæklingarnir allt í kringum þau.

Þann daginn var ég stolt af foreldrum mínum eins og ég hefi reyndar oftast verið, bæði fyrr og síðar, en af hverju þurfti þessi barátta fyrir launajafnrétti að taka svo langan tíma? Vinkona mín sem var reið út í stallsystur sínar var kannski svarið. Þegar hún kom út af fundinum um kjarasamninga sýndi hún með orðum sínum og látbragði að henni var ekki sama um launin. Hún átti rétt á betri kjörum og var einfaldlega tilbúin til að berjast fyrir launajafnrétti eins og flestar ungar konur í dag. Hún var einfaldlega framtíðin.