Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Guðríður Kristín Þórðardóttir
Guðríður Kristín Þórðardóttir
formaður hjúkrunarráðs Landspítala Íslands

Að missa trúna á atkvæðisréttinum

Fyrir mér er kosningaréttur kvenna sjálfsagður. Fyrir mér er líka jafnrétti kynjanna nokkuð sjálfsagður hlutur, þó betur megi ef duga skal. Ég er alin upp við jafnrétti kynja og ég er líka alin upp við að kosningaréttur er nýttur. Á mínu æskuheimili voru þjóðfélagsmál rædd og einstaka menn og konur lofaðar og lastaðar eins og gengur, en ég vissi aldrei hvað foreldrar mínir kusu. Ég er ekki einu sinni viss um að þau hafi alltaf kosið það sama. Þegar ég steig mín fyrstu skref í kosningum var mér gert grein fyrir ábyrgð minni með mínu atkvæði. Ég yrði að kynna mér málefni flokkanna, mynda mér skoðanir og kjósa rétt. Það var veganestið sem pabbi minn gaf mér: „Kjóstu rétt!“. Mitt var svo að velja hvað væri hið rétta.

Fyrsta skiptið sem ég setti kjörseðil í kassa er mér fjarlægt í dag en samt svo minnisstætt. Fjarlægt vegna þess að svo ótal margt hefur breyst í mínu lífi síðan þá. Ég kaus fyrst árið 1998 á útskriftardegi mínum úr fjölbrautaskóla. Þetta var í fyrsta og síðasta sinn sem ég kaus í kjördæmi æskuslóða minna, Vogum á Vatnsleysuströnd. Ég stóð á tímamótum. Möguleikar mínir til náms og frama voru óendanlegir, ég var búin að finna lífsförunaut minn og var í þann mund að fljúga úr hreiðrinu. Lífið beið mín og ég tók á móti því bjartsýn og opin fyrir öllu því sem það hafði upp á að bjóða. Ég hafði frelsi og vald til að skapa mér framtíð. Kosningaréttur er stór þáttur í völdum og frelsi.

Síðan ég kaus í Vogum um árið hef ég nær undantekningalaust kosið flokka sem ná kjöri. Í kosningum kýs ég frekar einstaklinga og fyrir hvað þeir standa en flokka. Því miður hafa þó stjórnmálamenn brugðist trausti mínu. Bæði í borgarstjórnar- og alþingiskosningum. Aðdragandi kosninga snýst um lof. Þegar ég svo upplifði mig svikna aftur og aftur fór ég að missa trú. Það er auðvelt að ávinna sér traust, en tapað traust getur verið nær ómögulegt að vinna aftur. Ég tel það vera eitt af mikilvægustu lífsviðhorfum mínum sem ég legg mikla áherslu á í uppeldi barna minna: Ekki bregðast trausti. Þegar þeir sem fengu atkvæði mitt brugðust trausti mínu voru það ekki bara þeir sem misstu traustið. Ég missti trú á atkvæðarétti mínum.

Undanfarna mánuði hef ég velt þessu mikið fyrir mér. Í ljósi þess að ég virðist kjósa sama og flestir samlandar mínir gef ég mér að ég sé meðal þeirra efstu á bjöllukúrfunni hvað stjórnmálaskoðanir varðar. Ég velti því þá fyrir mér hvort það geti verið að stór hluti þjóðfélagsþegna hafi misst trúna á atkvæðarétti sínum, eins og ég. Má búast við hruni í kosningaþátttöku á Íslandi? Í maí síðastliðnum lýsti ég því yfir alvarleg og með mikilli áherslu í viðurvist nánustu ættingja okkar hjóna, að ég efaðist stórlega um að ég muni nýta mér kosningarétt minn í kosningum komandi ára. Ég hefði ekki trú á atkvæðarétti mínum. Á mánudegi fékk ég svo símtal með beiðni um að skrifa þennan pistil, sem fékk mig til að ígrunda hlutina upp á nýtt. Ígrunda hvers virði kosningaréttur minn er sem kona og að sá réttur hefur ekki alltaf verið sjálfsagður.

Í dag er ég eiginkona, móðir þriggja barna og hjúkrunarfræðingur. Ég er þakklát fyrir að hafa haft frelsi og tækifæri til að byggja mér það líf sem ég lifi. Ólíkt nýstúdentinum sem setti sinn fyrsta kjörseðil í kassann með hvítu húfuna á höfðinu ber ég í dag mikla ábyrgð. Ég lít á mig sem mikilvægan talsmann barnanna minna og sjúklinga minna. Kosningaþátttaka mín er því gífurlega mikilvæg og með því að bera virðingu fyrir réttinum er ég fyrirmynd barnanna minna eins og foreldrar mínir voru mér. Það sem ég á þó sameiginlegt sjálfri mér árið 1998 er að framtíðin er enn óskrifuð. Ég tek deginum á morgun með opnum hug og óttalaus. Ég hef val og atkvæði mitt er skilaboð um hvernig samfélagi ég vil búa í. Ég mun því mæta á kjörstað, vel undir búin og kjósa rétt!