Konur þurfa að standa á sínu
Ég er nýkomin á kosningaaldur en hef því miður ekki ennþá haft tækifæri til þess að nýta kosningarétt minn. Ég hef samt sem áður sterkar skoðanir á kosningum og á því að nýta kosningaréttinn. Mér finnst að maður ætti alltaf að nýta kosningaréttinn því að hvert atkvæði skiptir máli og hefur væg,i hvort sem að maður krossar í einn reit eða skilar auðu, því að það sendir líka skilaboð.
Það er jafn mikilvægt að konur hafi kosningarétt og að karlar hafi kosningarétt, því þær eiga að hafa jafn mikinn rétt og karlar. Sérstaklega í kosningum sem hafa áhrif á alla þjóðina, því konur eru jafn mikilvægur mikill hluti af henni og karlar. Það er ömurlegt að hugsa út í það að ef að ég eignast börn í framtíðinni, strák og stelpu, að þau fái ekki sömu réttindi.
Jafnréttisbaráttan er mjög mikilvæg barátta. Af hverju hafa karlar hærri laun en konur sem eru í sambærilegu starfi með jafna menntun og reynslu? Er vinna kvenna ekki metin að jafn miklum verðleikum og karla? Mér finnst fáránlegt að það sé ennþá einhver munur á milli launanna árið 2015! Tímarnir hafa breyst og konur hafa sannað það í gegnum tíðina að þær skipta jafn miklu máli og karlar. Það sem vantar hinsvegar kannski uppá hjá konum er að þær sæki í sömu störf og karlmenn. Að konur hafi trú á sér sem stjórnendur og yfirmenn í þjóðfélaginu. Stór ástæða fyrir því að karlmenn eru í flestum stjórnunarstöðum á Íslandi er vegna þess að konur einfaldlega sækja ekki um slík störf. Þá eru konur einfaldlega ekki jafn grimmar í að sækja sér hærri laun. Karlmenn biðja almennt um hærri laun fyrir sömu stöður og konur. Þeir ætlast til þess að fá hærra kaup, ekki vegna þess að þeir eru karlmenn, heldur vegna þess að þeim finnst þeirra tími og vinna vera svo verðmæt. Mörgum konum vantar þetta, að krefjast þess að fá hærri laun fyrir sína vinnu, svo það er ekkert endilega bara við þjóðfélagið að sakast að það sé munur á launum kynjana heldur líka okkur. Við þurfum að standa á okkar og krefjast þeirra launa sem við eigum skilið.
Ísland er að mínu mati að standa sig vel í jafnréttisbaráttunni. Já, það er margt sem hægt er að gera betur en við erum að fara í rétta átt. T.d. eru karlar og konur nú komin með jafnan rétt til fæðingarorlofs.
Allir eiga að skipta jafn miklu máli hvort sem maður er kona, karl, sonur, dóttir, mamma, pabbi, amma, afi, og svo framvegis.
Metum einstaklinga að verðleikum.