Á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna eru 100 konur beðnar um að líta yfir farinn veg og rifja upp eða gera sér í hugarlund þær aðstæður sem baráttukonur fyrri tíma þurftu búa við. Við stöndum í þakkarskuld við þessar stórkostlegu og framsýnu konur sem börðust fyrir og öfluðu okkur réttinda sem minni kynslóð þykja sjálfsögð í dag svo sem jafnrétti í menntunarmálum og kosningaréttur kvenna og kjörgengi til Alþingis. Ég á mjög erfitt með að ímynda mér lífið án þess að njóta sömu réttinda og karlmenn og að fá ekki að tjá mig á við aðra í samfélaginu. Kvenréttindabaráttan leiddi til þess að kynbundin mismunun var gerð ólögleg en þrátt fyrir lagalegan rétt kvenna hafa meðal annars rótgrónar staðalímyndir enn þau áhrif að lögum um jafnrétti er ekki framfylgt að fullu. Má þar nefna að þrátt fyrir lagalegan rétt kvenna til sömu launa fyrir sömu vinnu er enn kynbundinn launamunur ríkjandi.
Jákvæðar fyrirmyndir skipta veigamiklu máli í baráttunni fyrir áframhaldandi og auknu jafnrétti og upprætingu staðalímynda. Uppeldi mitt hefur mótað þá sýn sem ég hef á jafnrétti en fyrir mér var haft að ég geti gert allt sem ég ætla mér og nái því með áræðni og metnaði. Og ef ég hef einhvern tímann efast um að eiga það sama skilið og karlmaður vegna þrýstings frá samfélaginu hefur það jafnóðum verið leiðrétt. Ég get því þakkað foreldrum mínum að fullorðna ég læt ekki bjóða mér minna en aðrir. Ég neita að sjá og fara eftir þeim kynbundnu hömlum sem enn eru til staðar í samfélaginu. Það er hægt að ákveða að lifa ekki með þeim hömlum. Það er hægt að ákveða að láta ekki staðalímyndir móta eða stýra sér.
Ég var heppin að geta lært af miklum kjarnakonum þegar á vinnumarkað var komið og þá ber helst að nefna yfirmenn mína hjá Straumi-Burðarási á sínum tíma en þær áttu stóran þátt í að byggja upp sjálfstraust mitt og sýndu og hafa sýnt að konum er ekkert óyfirstíganlegt. En það hefur jafnframt kennt mér mikið að starfa með núverandi yfirmanni og fyrrum yfirmanni mínum hjá GreenQloud en þeir, ólíkt sumum karlmönnum gera engan greinarmun á kynjum. Foreldrar mínir og þessir einstaklingar sjá engar kynbundnar hömlur og setja ekki upp hömlur, hvorki fyrir sjálfa sig né aðra. Það er mikilvægt fyrir alla að hafa jákvæðar fyrirmyndir í lífinu, eins og ég hef haft, til að læra að meta sig að verðleikum og efla sjálfstraust.
Það hefur verið eftir því tekið hve ríkt jafnrétti er á mínum vinnustað. Og þar sem staðalímyndir eru enn það sterkar þá fannst mér vert að tala um það við mína nánustu þegar ég hóf þar störf, hvað mér þótti þetta jafnrétti sérstakt en svo rétt. Konur eru metnar til jafns við karla, þær hafa jafnan atkvæðisrétt, og konur og karlar fá sömu laun fyrir sömu stöðu hjá fyrirtækinu, en mikill metnaður er hjá fyrirtækinu að stuðla að jafnrétti.
Ég tel það vera mjög mikilvægt að standa upp og sýna gott fordæmi, sýna konum stuðning, slíta ekki keðjuna heldur koma þeim góðu gildum sem ég hef lært af mínum jákvæðu fyrirmyndum og leiðbeina öðrum konum. Það geta allir staðið upp og haft áhrif, þó það sé ekki nema á eina stúlku eða konu. Með áframhaldandi baráttu mun það ekki þykja tiltökumál í framtíðinni að á vinnustað í tæknigeiranum hafi ríkt fullkomið jafnrétti. Það mun þykja eins sjálfsagt og að hafa kosningarétt.