Það var alltaf mikil viðhöfn í kringum kosningar þegar ég var að alast upp. Þetta var hátíðisdagur. Fjölskyldan klæddist upp áður en haldið var á kjörstað og yfirleitt var síðan farið í kosningakaffi til afa og ömmu í kjölfarið. Allir sem náð höfðu aldri kusu og ávallt var mikil eftirvænting eftir niðurstöðum. Ömmur mínar og mamma gáfu karlmönnunum í lífi okkar ekkert eftir þegar málin voru skeggrædd. Ég ólst upp við sterkar stjórnmálaskoðanir af hálfu beggja kynja.
Það var því óneitanlega áþreifanlegt hvað þátttakan skipti miklu máli og hversu mikil áhrif hvert atkvæði hafði í raun og veru. Á þennan hátt var mér kennt að bera virðingu fyrir kosningaréttinum og er afar þakklátt foreldrum mínum því veganesti.
Mín kynslóð er það lánsöm að kosningaréttur kvenna þykir jafn sjálfsagður og súrefnið sem við öndum að okkur. Því eigum við að þakka ötulum kvenfyrirmyndum fyrri áratuga, sem stigu fram, ófeimnar við að láta skoðanir sínar í ljós og létu mótlætið efla sig. Barátta sem var unnin með málefnalegum hætti.
Hvað jafnréttismál varðar eigum við Íslendingar enn mörg verk að vinna sem snúa að launamismun kynjanna, hvernig ákvarðanir eru teknar, staðalímyndum og stjórnun. En á sama tíma og við megum ekki sofna á verðinum skulum við heldur ekki gleyma þeim árangri sem náðst hefur á síðustu áratugum. Við viljum vera fyrirmyndir heimsbyggðarinnar og því fylgir ábyrgð.
Mín skoðun er sú að eiginlegt jafnrétti náist ekki nema með samstarfi og vináttu beggja kynja. Það er engum blöðum um það að fletta að hagsmunir þjóðarinnar eru fólgnir í því að konur og karlar sitji til jafns við borð þegar kemur að ákvarðanatöku og stjórnun. Mýmargar rannsóknir sýna það og sanna ásamt ótal raundæmum. Saman erum við sterkari.
Það er hins vegar aðferðin sem við þurfum að skoða.
Mín upplifun er sú að tengsl og persónubönd hafi stundum of mikið vægi þegar kemur að starfsmannaráðningum, boði í stjórnarsetu, vali á fyrirlesara eða viðmælanda í fjölmiðlum, algjörlega að ólöstuðum styrkleikum þeirra sem fyrir valinu verða. Þeir sem eru duglegir að koma sér á framfæri koma sömuleiðis frekar upp í huga þeirra sem ábyrgir eru fyrir vali þessara einstaklinga.
Oft held ég að við tökum jafnrétti sem svo sjálfsögðum hlut að við gleymum því að við þurfum meðvitað enn að taka konur sérstaklega með í reikninginn. Þeir sem eru í þeirri stöðu að velja einstaklinga í ofangreind verkefni verða því að staldra við og átta sig á þeirri samfélagslegu ábyrgð sem þeim er fengin.
Hitt er það að við konur þurfum stundum bara að „láta vaða“. Við eigum það til að vilja koma svo vel fyrir að við erum farnar að vanda okkur um of. Í frumkvöðlaheiminum er stundum sagt „better is done than perfect“. Það er einmitt viðhorfið sem ég tel að við þurfum að tileinka okkur í meira mæli. Við þurfum að stíga ákveðið fram og vera óhræddar við að taka pláss og tala um sigra okkar og skoðanir. Óhræddar við að gera mistök.
Við þurfum líka að forðast það að líta á kynsystur okkar sem samkeppnisaðila og vanda okkur við að greiða götu þeirra hvenær sem færi gefst. Þegar við lyftum hvor annarri upp þá förum við ofar sjálfar. Við höfum allar eitthvað að gefa, óháð starfstitli eða launaupphæð.
Fjölmiðlar spila einnig veigamikið hlutverk í jafnréttisbaráttu okkar. Félag kvenna í atvinnulífinu hefur til dæmis unnið að því með miklum metnaði að mynda tengingar fyrir sínar félagskonur inn í fjölmiðla og hvatt þær til að stíga fram. Fjöldinn allur af faghópum kvenna er til staðar og margs konar tengslavettvangur; Konur í tækni, Exemplur, Exedra, Ungar athafnakonur, Leiðtogaauður o.fl. o.fl. Aðgangur að öflugum kvenfyrirmyndum hefur því sjaldan verið betri.
Þetta helst allt í hendur.
Jafnréttisbaráttan krefst þess að við séum meðvituð. Niðurstaðan er í okkar höndum. Hver aðgerð og hver ákvörðun skiptir máli.