Fyrsta landið í heiminum til að veita konum kosningarétt var Nýja Sjáland árið 1893, íslenskar konur fengu þennan rétt einungis 22 árum síðar. Síðasta landið var svo Sviss, en þar fengu konur ekki rétt til kosninga fyrr en 1973.
Við höfum greinilega átt framsýnar konur sem vissu hversu mikið réttindamál kosningarétturinn er.
Efst í huga mér á þessum tímamótum er að sjálfsögðu þakklæti til þeirra kvenna sem ruddu veginn fyrir svo mikilvæga og róttæka hugmynd sem þessi réttur hefur verið.
Á tímum þar sem réttur kvenna var það lítill að heimili voru oft á tíðum leyst upp ef ekki var heimilisfaðir eða karlmaður til staðar sem fyrirvinna.
Í dag finnst mér rétturinn miklu merkilegri, en mér fannst sem ungri konu.
Ég gat kosið í fyrsta skipti til Alþingiskosninga árið 1983 og kaus ég þá Kvennalistann. Frú Vigdís var forseti, og búið var að lögleiða rétt kvenna til fóstureyðinga, getnaðarvarnir voru aðgengilegar og menntun kvenna var sjálfsagt mál.
Er nema von að ég hafi haldið að þetta væri bara komið, nema þetta með launin. Það þurfti bara að redda því, sem ég hélt nú að væri ekki mikið mál.
En enn erum við þar, ástæðan fyrir þessu launamisrétti er algjörlega óskiljanleg í mínum huga og hefur þetta margvísleg neikvæð áhrif á samfélagið. Misrétti sem ég tel stærsta réttindamál okkar íslenskra kvenna í dag.
Við verðum vitni að því daglega í fréttum og á netinu að mannréttindi eiga undir högg að sækja, víða í heiminum.
Það er sennilega skýringin á því hvað kosningarétturinn og mannréttindi almennt hafa í mínum huga orðið merkilegri með árunum. Þau eru ekki sjálfsögð og við þurfum að standa vörð um áunnin réttindi okkar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að nýta kosningaréttinn okkar, kosningaþátttaka hefur dregist saman undanfarið á Íslandi sem mér finnst miður. Ég hvet konur og þjóðina alla til að sleppa því aldrei að nota þennan rétt, þó ekki sé nema með dýrmætum auðum seðli, og minna okkur í leiðinni á alla þá sem hafa barist og eru enn að berjast fyrir þessum mikilvægu mannréttindum.
Takk hugsjónafólk sem sníðið ykkur ekki alltaf stakk eftir vexti, heldur farið í allt of stóran stakk sem við hinar höfum og erum enn þann dag í dag að nýta okkur.