Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Eva María Jónsdóttir
Eva María Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður

Hvar eru kvenréttindakarlarnir?

Lok maí 1990. Þetta er góður dagur, því ég er að útskrifast úr menntaskóla. Þetta er líka kjördagur í lýðveldinu Íslandi, en mér finnst það ekki eins merkilegt og að ég sé orðin stúdent. Ég leiddi aldrei hugann að því að konur höfðu aðeins haft kosningarétt í 75 ár. Enda var ég sjálfsupptekinn unglingur og vildi bara fagna áfanganum, ótrufluð af lýðræðislegum skylduverkum.

Ég pældi því um stund í möguleikanum að nýta ekki kosningaréttinn og hafa stúdentsveisluna frekar endalausa. Spáði líka í möguleikann að skjótast úr veislunni og kjósa, koma svo aftur og halda áfram að skála við gesti og hugsaði hvað þetta væri mikið vesen – að þurfa að fara að kjósa.

Þó fór nú svo að ég skipti um föt, fór úr peysufötunum og tók ofan skotthúfuna, sem ég útskrifaðist með og fór í hversdagslegri fatnað. Ég man að það voru laxableikar satínbuxur og sandalar. Með ylvolgt stúdentshjarta og kaldar tær þrammaði ég svo háglansandi út í bæ til að kjósa. Ég man að ég hlakkaði til að fara á útskriftarballið og ég man að það var sól. En ég man ekki hvað ég kaus. Get alls ekki munað það.

Núna aldarfjórðungi síðar er kosningaþátttaka ungs fólk orðin minni en nokkru sinni fyrr og ég velti fyrir mér hvers vegna ég rauf sjálfshátíðina, braut í sundur dagskrá nýstúdentsins og mætti á kjörstað? Það var engin flokkspólitík stunduð í mínu nánasta umhverfi, ég fylgdi engum sérstökum flokki að málum og hafði engum skyldum að gegna við neinn annan en sjálfa mig og samvisku mína.

Á þessum tíma lá í loftinu ákveðin skylda, að nota kosningaréttinn. Þá gengu enn um götur konur sem mundu baráttuna fyrir þessum réttindum kvenkynsins. Það sagði samt enginn neitt við mig og enginn hefði orðið reiður þó maður hefði slegið fyrsta tækifærinu til að ganga til kosninga upp í enn eina skælbrosandi skál í boðinu. Það er erfitt að greina hvernig þessi skylda fann sér leið inn í samvisku unglings og fékk hann allt í einu til að verða þegn í lýðræðisríki, þrátt fyrir að kæruleysi nýstúdentsins væri í hámarki. Með herkjum tekst mér þó að rekja einn þráð.

Ég hafði átt ömmu sem sagði sögur. Hún sagði sögur af frænku sinni Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hún fór með okkur barnabörnin upp í Árbæ og sýndi okkur valtara, sem hafði fengið nafnið Bríet, í höfuðið á þessari mikilvirku kvenréttindakonu, sem átti að hafa valtað yfir karlana, alveg þangað til allar konur voru komnar með kosningarétt. Þessar sögur lét amma ekki nægja, því hún sagði líka frá körlum, sem fannst ekkert valtað yfir sig þó konur fengju jafnan rétt og þeir. Hún sagði okkur frá kvenréttindakörlunum, sem börðust við hlið kvenna fyrir kosningaréttinum. Ég man sérstaklega að hún nefndi Skúla Thoroddsen. Hann hafði barist með konunum, en það var ekki skrítið, sagði amma, hann átti svo öfluga konu, hana Theodóru, sem orti þulur og vísur og var mikil listakona og svo hefur hún eflaust sungið „Tunglið, tunglið taktu mig“ til að undirstrika söguna.

Ég sakna stundum ömmu og sagna hennar um gamla daga. Ég sakna þess líka að ungt fólk finni fyrir skyldu innra með sér til að nota atkvæðisrétt sinn í kosningum. Kvenréttindakarlanna sakna ég þó mest. Og þó þeir finnist í dag, þá mættu þeir mynda breiðfylkingu, áberandi og hávaðasama sem hefði ákveðin markmið: að skera upp herör gegn því að vinna kvenna sé 18% minna virði en vinna karla. Því það má telja ráðgátu að meira en hálf öld er síðan sett voru lög sem bönnuðu það að borga kynjunum mismunandi laun fyrir sömu vinnu. Að framfylgja þeim lögum hefur reynst Íslendingum þraut þyngri. Það er kannski ekki undarlegt að ungt fólk sjái lítinn tilgang með því að kjósa fólk til að sitja á löggjafarsamkundunni Alþingi, ef ekki tekst á hálfri öld að uppræta jafn augljóst óréttlæti og launamun kynjanna. Hvar skyldi fyrirstaðan liggja? Nýstúdentar, er ekki verðugt markmið menntunar ykkar að afhjúpa þessa ráðgátu?!