Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þuríður Backman
Þuríður Backman
hjúkrunarfræðingur og f.v. þingmaður

Hver rödd, hvert atkvæði skiptir máli

Ég er af þeirri kynslóð sem kom í heiminn eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar.  Ein af stóru árgöngunum, sem fæddust á uppgangstímum eftirstríðsáranna, þegar bjartsýni ríkti og þjóðin trúði því að varanlegur friður væri tryggður til langrar framtíðar í allri Evrópu. Mín kynslóð upplifði ekki basl og réttindaleysi aldamótafólksins, né atvinnuleysi og fátækt kreppuáranna, upp var runnin braut framfara á flestum sviðum við uppvöxt „baby boom“ kynslóðarinnar.   

Ömmur mínar voru báðar friðelskandi og róttækar konur, þær bárust ekki á en voru fastar fyrir og stóðu á  sannfæringu sinni, þó hún gengi móti ríkjandi andrúmslofti og pólitískum straumum þess tíma.  Þær þurftu báðar að hafa fyrir lífinu og stunda atvinnu utan heimilis, án sömu réttinda og karlar og þá eins og nú dag á lægri launum. Þegar konur hlutu kosningarétt 1915 var móðuramma unglingur en föðuramma tvítug, tveimur áratugum of ung til að hafa kosningarétt!

Móðir mín hefur alla tíð verið róttækur friðarsinni, henni var það hjartans mál að fólk stæði vörð um lýðræðið með þátttöku í kosningum til alþingis og sveitastjórna. Hún brýndi fyrir mér mikilvægi þess að nota atkvæðisréttinn, fara á kjörstað og skila auðu ef ekki vildi betur. Kjördagar voru altaf hátíðisdagar, fjölskyldan fór uppáklædd á kjörstað, helst snemma svo atkvæðin skiluðu sér fljótt í talninguna og að sjálfsögðu vorum við systkinin tekin með á þennan merkis viðburð. Á unglingsárunum kom það eins og sjálfsagður hlutur að vinna sem sjálfboðaliði á kjörstað sem pólitískur fulltrúi við skráningu eða merkja við kjósendur eins og þá tíðkaðist. Eftir að ég var sjálf komin með kosningarétt þá man ég ekki til þess að foreldrar mínir hafi spurt mig hvað ég hafi kosið, en þau voru ekki róleg fyrr en þau vissu að ég hefði farið til að kjósa.  Ég gæti trúað að mínum börnum finnist ég halda við þessum sið.

Ef gengið er að réttindum og þar með lífsgæðum sem sjálfsögðum hlut er hætt við að maður kunni ekki að meta þau að verðleikum og glati þeim jafnvel vegna sinnuleysis. Lýðræði og þingræði er ekki sjálfgefið stjórnarfyrirkomulag, það sjáum við af okkar sögu og stjórnmálaástandsins víða um heim. Lýðræðisríki eða lýðræðisþróun eru brotin niður, einvaldar, herstjórnir eða öfgasinnaðir trúarhópar hafa tekið völdin af  lýðræðiskjörnum fulltrúm.  Við horfum uppá þjóðernishreinsanir, fólk flokkað og beitt ofbeldi eftir stjórnmálskoðunum, trúarbrögðum, kynstofni eða kynhneigð. Á þessum svæðum eða ríkjum er ekki virkt lýðræði,  raddir og vilji heilu þjóðanna heyrast ekki, þær hafa ekker val og fá engu breytt í lýðræðislegum kosningum með þátttöku karla og kvenna.

Ég hef verið svo lánsöm að kynnast þingkosningum í nokkrum löndum, fyrst sem leiðbeinandi á kjörstað og síðar sem eftirlitsmaður með framkvæmd kosninga. Það var einkennileg upplifun að þurfa að standa skil á reglum um aðstoð í kjörklefa, aðallega til þess að koma í veg fyrir að „húsbóndinn“ á heimilinu fylgdi öllu kvenfólki heimilisins inn í kjörklefa til að segja þeim hvar ætti að krossa.   

Líklega er fátt sem gefur á skömmum tíma betri innsýn í menningu og stöðu þjóða en þingkosningar, allt frá kosningabaráttu til talningar atkvæða. Tjáningarfrelsi og framboð ólíkra sjórnmálaflokka er mikilvægur mælikvarði á stöðu lýðræðis í viðkomandi landi, en kosningaþátttaka almennings endurspeglar oft traust á stjórnvöldum og á  heiðarlegum niðurstöðum kosninga.

Framkvæmd kosninga segir mikið til um styrk á innra skipulag í hverju sveitafélagi eða þorpi m.a.  hver gegnir formennsku í kjörstjórn, hvernig verkferlar ganga fyrir sig, hvar og hvernig kjörstaðurinn er útbúinn.

Ég hef komið á svæði og fámenna kjörstaði þar sem búskapur var frumstæður og fátækt var mikil. Skólarnir voru bestu húsakynnin í þorpunum,  fátt innandyra sem okkur hefði þótt ásættanlegt fyrir okkar börn, kamrar úti á túni. Þrátt fyrir allsleysið var augljóst að íbúarnir báru mikla virðingu fyrir kjördeginum, húsin hrein og skreytt með dúkum og öðru til hátíðarbrigða. Karlarnir sátu prúðbúnir í kosningaeftirliti, kosningaþátttaka var góð þrátt fyrir að margir áttu um langan veg að fara gangandi, hestakerrum eða traktorum. Augljóst var að fólkið var stolt af skólunum, börnin fengu menntun sem flest eldra fólkið hafði ekki fengið, enda margir sem hvorki kunnu að lesa né skrifa. Við þessar aðstæður reynir á heiðarleika við aðstoð í kjörklefa.  Eftir áralanga erlenda valdastjórn kunnu íbúar landsins að meta rétt sinn til að greiða atkvæði í frjálsum kosningum, þrátt fyrir að flestir hefðu kosið að framfarir í lýðræðisátt hefðu gengið hraðar fyrir sig en raunin var.

Lýðræði verður ekki varið nema íbúar landsins haldi vöku sinni, nýti kosningaréttinn og láti í sér heyra ef valdamenn fara út fyrir umboð sitt eða misbjóði réttlætiskennd almennings. Raddir kvenna skipta máli. Konur hafa aðra sýn, aðra forgangsröðun og aðrar lausnir en karlar á vandamálum daglegs lífs.

Hver rödd, hvert atkvæði skiptir máli!