Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Salome Þorkelsdóttir
Salome Þorkelsdóttir
fyrrv. alþingismaður og fyrsti forseti Alþingis

Kosningarétturinn 100 ára

Ég var ekki há í loftinu þegar ég gerði mér grein fyrir því að kosningar voru eitthvað mjög merkilegt og mikilvægt fyrirbæri sem tengdist föður mínum. Hann var vélstjóri á togara og reyndi ávallt að vera í landi þegar kosningar fóru fram. Hann var einn af þessum mönnum sem hafði brennandi áhuga á pólitík, vann ávallt fyrir sinn flokk, Sjálfstæðisflokkinn og sína menn,  þegar hann var í landi. Eftir að hann hætti á sjónum var hann jafnvel með kosningaskrifstofu heima hjá sér til að sinna hverfinu, þar sem hann bjó.

Líf sjómannskonunnar var ekki auðvelt á þessum árum. Þá var aukin tækni eins og tölvur eða farsímar ekki komin til sögunnar til að auðvelda samskiptin. Öll ábyrgðin á barnauppeldinu og heimilishaldinu var á herðum móðurinnar. Móðir mín deildi ekki pólitískum áhuga föður míns. Hennar orka fór öll í að sinna heimilinu og barnauppeldinu,  en hún fór að sjálfsögðu ætíð á kjörstað með honum og neytti kosningaréttar síns.

Ég minnist þess hve mér var mikið í mun strax á barnsaldri að standa með föður mínum þegar stjórnmál báru á góma, og hve ég gladdist fyrir hans hönd ef „flokknum okkar“, Sjálfstæðisflokknum farnaðist vel.  Ef til vil var þetta viðleitni barnsins til að gleðja föður sinn þegar hann dvaldist heima með fjölskyldunni, sem var alltof sjaldan.

Þessi pólitísku barnabrek mín snerust síðan upp í alvöru lífsins og hafa fylgt mér alla tíð.  Ég held að ég verði að segja að ég sé félagslynd að eðlisfari. Ég gekk t.d. í kvenfélag Lágafellssóknar  21 árs gömul fljótlega eftir að ég flutti í Mosfellssveitina (nú Mosfellsbæ). Ég hélt að það tilheyrði að ganga í kvenfélagið, en áttaði mig svo á að félagskonurnar voru eldri og ráðsettari en ég. En mér var vel tekið og ég starfaði á þeim vettvangi árum saman. Samhliða sótti ég alltaf pólitíska fundi þegar tilefni gáfust til. Ekki hafði ég þó sérstök áform um að komast til metorða á þeim vettvangi.

Ég var ung  húsmóðir og móðir þegar ég fékk kosningarétt 21 árs gömul. Fyrsta tækifæri mitt til að nota rétt minn og kjósa er mér mjög minnisstætt. Það voru hreppsnefndarkosningar og ég og eiginmaður minn vorum komin á kjörstað þegar til okkar kom framámaður í sveitinni og rétti mér lítinn miða inn um bílgluggann með nöfnum sem ég átti að skrifa á kjörseðilinn. Þá voru ekki komnar listakosningar hjá okkur og maður þurfti að skrifa nöfn þeirra sem maður vildi fá í hreppsnefndina. Ég fór að ábendingunni á miðanum í það sinn.

Síðar átti ég sjálf eftir að vera í framboði til hreppsnefndar og sat í hreppsnefnd Mosfellshrepps í 16 ár, þar til ég tók sæti á Alþingi. Á þessum tíma voru konur að byrja að hasla sér völl á þeim vettvangi og það þótti gott að hafa eina konu á lista svona upp á punt.  Ekki  voru nú allir sáttir við þetta kvennabrölt í framboðsmálum,  en smá saman fjölgaði okkur á þeim vettvangi eins og öðrum.

Sama má segja um kosningar til Alþingis. Það var seinni hálfleikur minn að fara í landsmálapólitíkina. Ég á önnur 16 ár að baki á þeim vettvangi. Tók sæti á Alþingi í desember kosningunum 1979. Í mínum huga var eðlilegt og reyndar bráðnauðsynlegt að konur til jafns við karla ættu sterka rödd á vettvangi stjórnmálanna. Ég vildi leggja mitt lóð á vogarskálina í þeim efnum  með því að láta rödd mína heyrast og vera virkur þátttakandi. 

Þann 19. júní  verður þess minnst að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Fyrsta konan Ingibjörg H. Bjarnason sem var kjörin til setu á Alþingi árið 1922, sat á þingi í 8 ár. Hlutur kvenna lengi framan af var oftast ein kona, stundum engin eða tvær samtímis á þingi, þar til árið 1971 verða þær þrjár, 1983 fjölgar þeim í níu (þá var Kvennalistinn kominn til sögunnar) og 1994 eiga 15 konur sæti á Alþingi.  Þetta var hægfara þróun þar til síðustu ár og nú eru konur 25 eða 40% þingmanna.

Við skulum vona að við höfum „gengið til góðs götuna fram eftir veg“ og áfram verði haldið með það að leiðarljósi, að saman viljum við vinna,  konur og karlar, og tryggja öryggi og velferð íslensku þjóðarinnar.