Það er vægast sagt skrítið að hugsa til þess að fyrir aðeins 100 árum höfðu íslenskar konur ekki leyfi til að kjósa um sína eigin framtíð og velferð. Þó svo að Ísland hafi ekki verið með fyrstu löndunum til að iðnvæðast þá vorum við Íslendingar fljótir að segja til okkar í jafnréttismálum. Iðnbyltingin á Íslandi átti sér stað um 100 árum á eftir Vestur-Evrópu en íslenskar konur fengu kosningarrétt aðeins 22 árum á eftir þeim fyrstu í heiminum. Fyrir honum þurfti þó að berjast og er ég ákaflega þakklát fyrir baráttu kvenna um aldamótin 1900 til að öðlast þennan rétt. Verandi aðeins 23 ára gömul hef ég ekki þurft að upplifa mikið mótlæti eins og margar aðrar konur áður fyrr og nýt góðs af mikilvægri baráttu þeirra. Ég þekki ekki tilfinninguna að finnast það vera einhverskonar forréttindi að kjósa, enda á það að vera eins sjálfsagt og að geta valið sér það nám eða þá starfsgrein sem maður hefur áhuga á, óháð kyni.
Það sem hefur verið áberandi í mínu stutta lífi á fullorðinsárum er skortur á konum á mínu menntasviði í hugbúnaðarverkfræði. Þó svo að konur hafi öðlast sama rétt til náms og karlar fyrir 104 árum þá er samt eins og valið sé ekki fullkomlega frjálst. Þegar ég var að velja mér háskólanám þá hugsaði ég sjálf: „Æ, er forritun ekki bara fyrir stráka?“. Ég er greinilega ekki ein um að hugsa svona því í um 90% tilfella þegar ég er spurð hvað ég sé að læra þá segir fólk: „Fyrirgefðu, hjúkrunarverkfræði?“. Ég veit ekki hvort það sé vegna þess að ég einfaldlega kunni ekki að segja hugbúnaðarverkfræði (þótt ég reyni að vanda mig) eða hvort það sé vegna þess að fólk heyrir það sem það býst við: að ég hafi valið mér „kvenlægt“ nám. Stór hluti vandamálsins virðist felast í því að konum finnist þær ekki eiga heima í tæknigeiranum. Þó hefur verið lögð rík áhersla á að finna lausnir á þessum vanda hér á landi og hafa samtök eins Konur í tækni og /sys/tur í Háskólanum í Reykjavík unnið ótrúlega gott starf.
Nú er ég að ljúka BS námi í hugbúnaðarverkfræði og með hverju ári síðan ég byrjaði hefur hlutfall kvenna í náminu aukist en þó aðeins lítillega. Það sem ég hef tekið meira eftir síðustu ár er vilji íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja til að ráða konur. Í mörgum atvinnuauglýsingum eru konur hvattar sérstaklega til að sækja um og mörg fyrirtæki sem við höfum heimsótt í skólanum harma lélegt hlutfall kvenna á vinnustaðnum. Þegar ég fór sjálf út á vinnumarkaðinn fannst mér ég vera ráðin í vinnu bæði vegna hæfni minnar í starfið og áhuga fyrirtækjanna á að ráða konur sem forritara. Það var augljóst að vinnuveitendur mínir vildu ekki bara laga kynjahlutfallið hjá sér til að líta betur út á blaði, heldur sýndu þeir einskæran áhuga á að fá fleiri konur inn í tæknideildirnar hjá sér. Ég myndi líka telja það skrítið að vilja ekki auka fjölbreytni á vinnustað með konum sem eru að öllu leyti jafn hæfar og karlar.
Vonandi helst þessi jákvæða þróun áfram í tæknigeiranum á Íslandi og að fleiri konum finnist þær vera velkomnar í þennan bransa. Ég vona innilega að að það þurfi ekki að líða önnur 100 ár þar til konur geti litið til baka líkt og ég gerði og fundist það fáránlegt að tæknigeirinn hafi lengi verið karlastétt, að það hafi þurft að koma á kynjakvóta til að konur væru í stjórn fyrirtækja og að konur hafi einhverntímann fengið almennt lægri laun en karlar. Íslenskar konur hafa ítrekað sýnt hversu öflugar og frábærar þær eru og hef ég því óbilandi trú á að við höldum áfram að vera brautryðjendur í jafnrétti kynjanna um ókomna framtíð.