Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Sigríður Thorlacius
Sigríður Thorlacius
tónlistarkona

Kven-

Fyrir nokkrum árum fékk ég upphringingu frá mætum manni sem ég kannaðist ágætlega við og kunni að sama skapi nokkuð vel við. Hann var að forvitnast um hvort ég hefði áhuga á starfi á tilteknum fjölmiðli. Ég var nokkuð jákvæð svo hann boðaði mig á fund hvar hann útskýrði ástæður þessa höfðinglega boðs. Það var sumsé kominn upp smávandi innan stofnunarinnar. Það hreinlega vantaði konur. Það hafði borist ábending að ofan þess efnis að raddir ungra kvenna þyrftu að fá að heyrast í meira mæli á öldum ljósvakans. Eðlilega. Mér þótti fundurinn hinn vandræðalegasti þar sem mér varð nokkuð fljótlega gert ljóst að þetta snerist engan veginn um mig eða mína persónu, barasta alls ekki. Ég var einungis stödd þarna af þeirri augljósu ástæðu að ég væri ung kona. Í raun virtist alls enginn áhugi að fá mig eða nokkra aðra konu til starfa. Það var bara komin upp þessi bagalega staða og henni þurfti að redda og finna til skásta kostinn. Þann illskásta einhvern veginn.

Fyrir um það bil ári fékk ég svipað símtal frá öðrum kunningja, góðum rétthugsandi manni. Hann  spurði mig hvort ég væri ekki til í að bjóða mig fram til setu í ákveðinni nefnd. Hann bað mig afsökunar á því hversu seint hann hafði samband, ég hefði í raun ekki umhugsunarfrest. Þannig væri nefnilega að „þeir“ væru komnir í smábobba. Það vantaði konur í nefndina, þeir hefðu hreinlega ekki áttað sig á því og nú væri tíminn naumur og allt kapp lagt á að finna einhverja huggulega konu til setu í nefndinni. Þetta væri lítið mál, ég þyrfti í raun ekkert að gera þannig lagað. Bara leggja til kven-nafnið mitt.

Það er nefnilega þetta með þetta kven-forskeyti. Þetta litla forskeyti sem verður stundum eins og einhver krúttleg smækkunarending. Vissulega á það stundum við og rétt á sér, en oft hefur það nákvæmlega ekkert með málið að gera og þvælist bara fyrir. Kvenrithöfundur er rithöfundur, kvenleikstjóri er jú leikstjóri og kvenprestur er bara lengra og flóknara orð yfir prest ekki satt?

Elsku bræður, er ekki kominn tími til að hætta þessu og hugsa þetta öðruvísi? Hættið að bjóða okkur að vera með af því að það vantar konur á vinnustaðina ykkar og í nefndirnar ykkar til að fylla upp í einhvern leiðindakvóta. Biðjið okkur að vera með af því það er gott fyrir alla - fyrir ykkur, fyrir okkur og alla hina. Af því að þið vitið að við höfum svo margt gott fram að færa og erum svo frábærar og frambærilegar eins og þið. Gerið ráð fyrir okkur og látið hug fylgja máli. 

Árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt og nú hundrað árum síðar höfum við þann rétt blessunarlega enn. Við öðluðumst réttinn til að mynda okkur skoðun og taka afstöðu. En við erum komin svo miklu lengra en það. Við viljum líka og megum taka okkur pláss og stöðu sem gerendur á öllum vígstöðvum og þá ekki undir formerkjunum kven-þetta eða kven-hitt. Við hljótum að gera þá kröfu að mark sé á okkur tekið og að það sé ekki bara í orði heldur líka á borði. Köllum spaða spaða, manneskjur manneskjur og hættum að vera að þvælast með þetta forskeyti „kven“ í tíma og ótíma þar sem það á ekki við.