Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Jóhanna Vigdís Arnardóttir
Jóhanna Vigdís Arnardóttir
leikkona

Samstaða kvenna er mikilvæg

Ég hef upplifað jafnréttisbaráttuna mjög sterkt í mínu lífi og má eiginlega segja að ég hafi fengið hana með móðurmjólkinni allt frá blautu barnsbeini. Móðir mín, Guðrún Erlendsdóttir f.v. hæstaréttardómari, er mín helsta fyrirmynd í lífinu og hún innrætti okkur börnunum sterka réttlætiskennd, eitthvað sem ekki er hægt að hafa án þess að fylgja mannréttindum og jafnrétti út í ystu æsar. Foreldrar mínir lögðu ofuráherslu á að við börnin menntuðum okkur í því sem við höfðum áhuga á og að það væri mjög mikilvægt að geta séð fyrir sér sjálfur.

Móðuramma mín og nafna hafði svipuð viðhorf gagnvart dætrum sínum og allar menntuðu þær sig í því sem hugurinn stóð til. Hún fæddist árið 1899 og var því orðin 12 ára þegar konur fengu sama rétt og karlar til náms og embætta árið 1911. Það tók langan tíma fyrir konur að hasla sér völl, t.d. var móðir mín fimmta konan til að ljúka lagaprófi frá Háskóla Íslands og það var árið 1961, 50 árum eftir að lögin frá 1911 tóku gildi.

Síðar varð hún fyrsti formaður jafnréttisráðs og það má eiginlega segja að hún hafi verið brautryðjandi alla tíð, því árið 1986 varð hún fyrsta konan sem skipuð var hæstaréttardómari á Íslandi. Ég játa fúslega að ég er afskaplega stolt af henni og hún er mín helsta fyrirmynd, eins og áður sagði.

Ég er alin upp í því að fólk eigi að nýta sér kosningaréttinn, konur jafnt og karlar. Hafi ég ekki gert upp hug minn, er um að gera að skila auðu - það er sögn í því. Ég hef alltaf nýtt mér kosningaréttinn og farið á kjörstað og kosið, ef ekki á kosningadegi, þá utankjörstaðar.

Ég geri ekki ráð fyrir að kona hefði verið kosinn forseti ef konur hefðu ekki haft kosningarétt. Í raun má segja að allar framfarir konum til handa í stjórnmálum velti á því að konur hafi kosningarétt. Mér finnst mjög mikilvægt að konur styðji aðrar konur í kosningum. Það er mikilvægt að standa saman, þó að vissulega þurfi fleira að koma til en bara samstaða kvenna, til að veita konum brautargengi í stjórnmálum og lífinu almennt. Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum í þessu sambandi. Ég hef verið skráð í nokkra flokka með það að markmiði að kjósa hæfar konur í prófkjörum. Ef ég stend frammi fyrir vali á milli tveggja einstaklinga af sitt hvoru kyni, sem báðir eru jafn hæfir, þá vel ég konuna. Það er mín leið til að efla mannréttindi í landinu.

Ég hef einu sinni upplifað mig sem sigurvegara í kosningum, en þá var ég ekki komin með kosningarétt sökum aldurs. Þetta var árið 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands. Við systurnar vöktum alla nóttina með mömmu okkar yfir kosningasjónvarpinu og þegar úrslitin lágu fyrir um morguninn, braust sólin fram. Þetta var einhver fallegasti dagur sem ég man eftir. Síðan átti auðvitað eftir að koma í ljós að þetta var eitthvert mesta gæfuspor sem íslenska þjóðin hefur stigið, en að mínu mati hefur Vigdís verið langt á undan sinni samtíð, ekki bara í jafnréttisbaráttunni, heldur á svo ótal mörgum öðrum sviðum.