Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Ugla Stefanía Jónsdóttir
Ugla Stefanía Jónsdóttir
fræðslufulltrúi Samtakanna '78

Jafnréttisbaráttan nái til allra

Sem ung kona þá hef ég aldrei þurft að upplifa það að minn kosningaréttur væri neitt annað en sjálfsagður. Ef eitthvað þá hef ég upplifað hann þannig að margir líti á hann sem það sjálfsagðan að það hefur ekki einu sinni fyrir því að nýta sér hann. Fólki finnst hann ekki skipta máli, þeirra skoðanir komist hvort eð er aldrei á framfæri og þar fram eftir götunum. Ég ætla mér ekki að fara út í miklar rökfærslur hér um það, en vil samt sem áður segja að mér finnst gríðarlega mikilvægt að allir nýti sinn kosningarétt, enda hefur hann ekki alltaf verið sjálfsagður og á mörgum stöðum í heiminum býr fólk ekki við lýðræði og eru þeirra réttindi ekki virt.

Ég man alltaf eftir því þegar ég kaus í fyrsta skipti, en það var í sveitastjórnarkosningum í heimabyggðinni minni í Austur-Húnavatnssýslu. Ég þurfti að fara á sýsluskrifstofuna og kjósa utan kjörstaðar þar sem ég myndi verða stödd erlendis þegar að kosningar ættu sér stað. Það er svo sem ekkert merkilegt við þessar kosningar frekar en hverjar aðrar, nema hvað að lagalega nafnið mitt og kynskráning passaði ekki við mitt rétta nafn né kynvitund. Ég man því hversu kvíðin ég var að þurfa að fara upp á sýsluskrifstofu, gefa upp nafn og kennitölu sem var skráð á gamla nafnið mitt og þurfa að útskýra fyrir starfsmönnum að ég væri enn með gamla nafnið mitt lagalega og væri í ferli til kynleiðréttingar. Ég man eftir að hafa átt samtal við móður mína sem spurði góðfúslega hvort að mér fyndist þá auðveldara að fara í gömlu fötin mín og fara og kjósa þannig. Ég var nú ekki alveg á því og ákvað því að þrátt fyrir að lagalegt nafn og kyn væri álitið „karlkyns“ að ég myndi kjósa sem konan Ugla. Ég málaði mig, fór í kjól, sléttaði á mér hárið og gerði mig eins „kvenlega“ og ég gat (skv. stöðlum samfélagsins um hvað er kvenlegt). Svo ákvað ég að það væri kominn tími til að fara að kjósa.

Taugaóstyrk og greinilega kvíðin staulast ég upp stigann upp á sýsluskrifstofu og segist ætla að kjósa. Svo gef ég upp kennitölu og bíð smá áður en ég bæti því við að það er ennþá gamla nafnið mitt á kennitölunni til að reyna að gera þetta minna vandræðalegt. Konan sem afgreiddi mig brosti, sagði allt í góðu og vísaði mér svo í kjörklefa. Einfaldara hefði það ekki getað verið og fannst mér hálf kjánalegt eftir á að líta hversu mikið mál þetta var fyrir mér. En ég get ímyndað mér að mikið af transfólki upplifi þetta sem mikinn kvíða og geti þess vegna verið að margir kjósi frekar að sleppa þessum aðstæðum frekar en að nýta sér hann. Það er því gríðarlega mikilvægt að fólk viti að það getur komið og kosið án allskyns vandkvæða, hvort sem það er vegna þess að ekki er rétt nafn eða kyn skráð í Þjóðskrá, vegna líkamlegra þátta, hvort viðkomnandi þarfnast aðstoðarmanneskju eða hvað. Til þess að allir geti upplifað kosningarrétt sinn á jákvæðan hátt og þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvernig við kjósum eða hvort við getum það þurfum við að vera í stakk búin að taka á móti fjölbreytileikanum í sinni víðustu mynd. Og það er ekkert annað en jafnréttismál.

Í mínum huga er því jafnréttisbarátta allra hópa gríðarlega mikilvæg og stuðlar að jöfnuði allra og tryggir það að allir búi við sömu grundvallar mannréttindi. Jafnréttisbarátta hefur oft á tíðum eingöngu verið á forsendum sís-kynjaðra (e. cisgender), hvítra, millistéttar, ófatlaðra einstaklinga og til þess að jafnréttisbarátta sé í raun jafnréttisbarátta þurfum við að fara að taka inn í fleiri breytur og virkilega horfa til allra hópa samfélagsins. Janfréttisbarátta án víðsýni og án þátttöku minnihlutahópa er að mínu mati ekki jafnréttisbarátta. Jafnrétti þarf að vera til í sinni víðustu mynd til að teljast jafnrétti. Lifi byltingin!