Í hundrað ár höfum við konur mátt kjósa. Það er orðinn svo sjálfsagður hlutur í dag að við leiðum ekki hugann að því að einhvern tímann hafi það ekki verið svo. Það er jafnvel til heil kynslóð sem ekki veit að við konur þurftum að hafa fyrir því að fá þessi réttindi.
Þegar ég fékk boð um að taka þátt í þessum skrifum í tilefni 100 ára kosningarafmælis kvenna, fannst mér það spennandi og ég hlakkaði til að takast á við verkefnið. Ég fór að hugsa um hvernig ég nýti rétt minn til að kjósa og komst að því að ég geri það skelfilega illa. Ég er stundum kærulaus og geri þá lítið úr baráttu kynsystra minna með því að nýta ekki þann merka rétt sem kosningaréttur er. Ég hef sveiflast á milli flokka og kosið þann sem flytur fallegustu lofræðuna. Ég hendi kosningabæklingum sem berast inn á heimilið beint í ruslið. Ég horfi sjaldan á umræðuþætti og stundum veit ég varla hvenær kosningar eiga að fara fram og um hvað á að kjósa. Pólitíkusa þekki ég varla í sjón nema kannski þá sem ég tel að hafi ekki staðið sig vel og eru stanslaust í fréttum eða á milli tannanna á fólki. Almáttugur og ég telst til fullorðinna. Hvað ef konur væri almennt eins og ég? Þá væri lýðræðið okkar í stórkostlegri hættu.
Ég lét hugann reika aftur til formæðra minna. Hvernig var þetta fyrir þær? Voru þær líka kærulausar? Nei, ég er viss um að þær voru það ekki. Þær virtu kosningaréttinn og vissu hvað hann var dýrmætur og hvað sérhvert atkvæði skipti máli. Þær litu á sitt atkvæði sem rödd sína og sína leið til að hafa áhrif.
Sigurlína Rósa Sigtryggsdóttir langamma mín (1876-1956) frá Æsustöðum í Eyjafjarðarsveit var pottþétt ekki kærulaus. Hún var brautryðjandi og mikill kvenskörungur. Hún reið um sveitina og safnaði peningum svo hægt væri að byggja berklahæli. Ég er viss um að hún nýtti sinn rétt og greiddi atkvæði og hún sveiflaðist ekki til og frá af lofræðum eða fagurgala. Nei, hún hefur vegið og metið kosti og galla, sett sig inn í málin, haft skoðun og staðið við hana. Ég hef alltaf verið stolt af þessari langömmu minni og litið upp til hennar, dirfskunni sem hún bjó yfir og framkvæmdakraftinum. Langamma mín bjó í torfbæ en byggði höll.
Hvað hefur breyst? Hvers vegna eru til konur eins og ég sem virða ekki kosningarétt sinn til fullnustu og láta ekki atkvæðið sitt tala? Er okkur sama? Finnst okkur þjóðfélagið bara í fínu lagi og ekkert sem þyrfti að laga eða breyta? Erum við svo stoltar af landi og þjóð að við afhendum það glaðar dætrum okkar og segjum – gjörið svo vel. Njótið. Hér er allt frábært og þú dóttir góð, stendur algjörlega til jafns á við hann bróðir þinn hvað varðar laun og virðingu.
Vonandi er það ekki málið. Okkur á svo sannarlega ekki að standa á sama. Auðvitað eigum við að gera eins og Sigurlína langamma mín og fleiri kvenskörungar sem börðust fyrir réttindum okkar kvenna. Við eigum að fylgjast með. Vega og meta, vera gagnrýnar og velta fyrir okkur frambjóðendum og málefnum. Kynna okkur fyrir hvað flokkarnir standa, hver hugmyndafræði þeirra er og hvaða áhrif það myndi hafa, kæmust þeir til valda. Við eigum líka að bjóða fram krafta okkar, fara fram til góðra verka. Það er nefnilega þannig með lýðræðið að það er ekki sjálfgefið. Við megum og eigum að taka þátt. Við eigum að láta okkur málin varða og láta rödd okkar heyrast. Við konur getum látið rödd okkar hljóma um allt land, hvort sem er í borg eða bæ. Ég þakka þeim konum sem nú standa vaktina fyrir okkur öll, þeim konum sem gefið hafa sig alla í málin. Þeim konum sem nú láta til sín taka í borgum og bæjum. Er ekki komið að því að við förum fleiri fram og látum í okkur heyra og höfum í heiðri þá þrotlausu vinnu sem konur á undan okkur unnu?
Konur, byggjum hallir.