Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Þórey Edda Elísdóttir
Þórey Edda Elísdóttir
afrekskona í íþróttum

Af kosningarétti og stangarstökki

Til hamingju konur og karlar með 100 ára kosningarétt kvenna. Á sama tíma og hægt er að gleðjast yfir þessum stóru tímamótunum er jafnframt hægt að spyrja sig að því hvers vegna fyrstu konurnar fengu ekki að kjósa fyrr en 72 árum eftir að fyrstu karlarnir fengu það.

Sjálf hugsaði ég ekkert út í það þegar ég kaus í fyrsta skipti. Heldur taldi ég þá að kosningaréttur minn væri ekkert frábrugðnari kosningarétti næsta manns. Ég var alin upp við að kosningarétt bæri að nýta og ákvörðunin sem tekin væri inni í kjörklefanum væri upplýst. Pólitík var því töluvert rædd á mínu heimili og sérstaklega í aðdraganda kosninga. Sjálfur kjördagurinn er í mínum huga hátíðisdagur þar sem fjölskyldan klæðir sig upp, fer saman á kjörstað og það er hálfgerð eurovision stemning í loftinu með tilheyrandi vöfflu- og snakkáti.

Eftir því sem ég eltist gerði ég mér þó æ meira grein fyrir því að þátttaka kvenna í pólitík hefur ekki alltaf þótt sjálfsögð eða hreinlega möguleg. Réttur minn til að kjósa, réttur sem á að vera jafn sjálfsagður og réttur bekkjarfélaga eða föður míns, sé það í raun ekki . Einnig gerði ég mér grein fyrir því að þátttaka kvenna til jafns við karla í hinum ýmsu hlutum eða viðburðum voru oft ekki viðurkennd eða möguleg.

Stangarstökk er íþróttagrein sem hefur verið stunduð í um 200 ár. Frá því að karlar kepptu í greininni fyrst á Ólympíuleikum liðu 104 ár þar til konur gerðu slíkt hið sama. Sá viðburður átti sér stað í Sydney árið 2000 og voru þar tveir þátttakendur frá Íslandi. Ég var önnur þeirra heppnu. Sem íþróttamaður var það ólýsanlegt að fá að upplifa draum sinn rætast. Sem femínisti var það ekkert síðra. Sigurinn að stíga inn á völlinn var því algjör og fá síðan að fylgjast með liðsfélaga sínum ná í bronsverðlaun á þessum tímamótum var hreinlega gæsahúð frá toppi til táar.

Jafnréttisbaráttan á Íslandi hefur náð langt á ýmsum sviðum en því miður lifa kynsystur okkar víðsvegar um heiminn enn í umhverfi þar sem hallar mjög á þær. Jafnvel það mikið að þær hafa ekki einu sinni kosningarétt. Ákvörðun Alþjóða ólympíunefndarinnar að leyfa stangarstökk kvenna á ólympíuleikum breytti stöðu kvenna í íþróttinni um allan heim. Svona lítil, einföld og sjálfsögð ákvörðun, í mínum huga, tók þó 104 ár að verða að veruleika. Alþjóðleg nefnd útí heimi mun ekki, og ætti ekki, að ákveða að allar konur í heiminum eigi að fá að kjósa heldur er það í höndum hverrar þjóðar fyrir sig að taka slíka ákvörðun. Því er mikilvægt að halda ótrauð áfram að berjast fyrir jafnrétti svo augu ráðamanna, sem enn þann dag í dag kunna ekki að meta helming mannauðs þjóðar sinnar, opnist og konur njóti sömu grundvallar mannréttinda og karlmenn í sínu landi.

Konur, nýtum kosningarétt okkar og gleymum ekki að hann er mjög dýrmætur.